132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að málefni barna og ungmenna séu til stöðugrar umræðu í þjóðfélagi okkar og ekki síst á Alþingi. Þess vegna er mjög gott að þessi mál skuli koma hér til umræðu.

Eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram var nefnd sem þáverandi forætisráðherra skipaði haustið 2002 falið að undirbúa stefnu í málefnum barna og unglinga. Hún skilaði skýrslu til forsætisráðherra í lok mars á síðasta ári. Sú skýrsla var send Alþingi með bréfi þann 1. apríl sama ár og nokkrum dögum síðar ræddi ég efni hennar á hv. Alþingi í svari við fyrirspurn hv. málshefjanda í þessari umræðu. Margt af því sem kom fram í svörum mínum þar á einnig við nú, eins og hv. málshefjanda er kunnugt um.

Þann 1. febrúar í fyrra skipaði ég með samþykki ríkisstjórnarinnar nefnd til að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar og koma með tillögur í því augnamiði að styrkja stöðu hennar. Fjölskyldunefnd ríkisstjórnarinnar fékk það verkefni í fyrra að fara yfir þær tillögur sem í skýrslunni er að finna með það í huga að fella þær að öðrum tillögum sem miða að því að styrkja stöðu fjölskyldunnar í landinu. Ég tel eðlilegan farveg að fela fjölskyldunefndinni næsta skref í mótun opinberrar stefnu í málefnum barna og ungmenna, enda hlýtur slík stefna að vera hluti af opinberri stefnu í málefnum fjölskyldunnar. Mér er kunnugt um að fjölskyldunefndin hefur haft þessi málefni til umfjöllunar og skoðunar og fengið á sinn fund formann nefndar um stöðu barna og unglinga, hv. þm. Drífu Hjartardóttur sem nú situr á forsetastóli.

Af lestri þessarar skýrslu er augljóst að þar er að finna afskaplega mikilvægar upplýsingar um þennan málaflokk sem mjög skipulega eru settar fram og eru gagnlegar á allan hátt við umfjöllun þessara mála enda mun það starf koma að mjög góðu gagni, bæði við mótun stefnu í málaflokknum og við gerð áætlunar um framkvæmd hennar og eins í umræðunni almennt um málefni barna og ungmenna.

Nefndin setur fram sjö meginmarkmið í stefnu í málefnum barna og ungmenna sem hún telur vera brýnustu úrlausnarefnin á þessu sviði. Í fyrsta lagi að aðgerðir hins opinbera í þágu barna og ungmenna, stjórnun þeirra og framkvæmd séu ávallt markvissar, skilvirkar og árangursríkar.

Í öðru lagi að ávallt liggi fyrir heildstæðar og áreiðanlegar almennar upplýsingar um börn og ungmenni hérlendis.

Í þriðja lagi að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Í fjórða lagi að efla heilsugæslu í skólum.

Í fimmta lagi að fjárhagslegur stuðningur hins opinbera við fátækar barnafjölskyldur sé nægur og skilvirkur.

Í sjötta lagi að forvarnir í greiningu og meðferð geð- og atferlisraskana hjá börnum og ungmennum verði aðgengilegar, skilvirkar og árangursríkar.

Í sjöunda lagi að börn af erlendum uppruna fái öflugan stuðning opinberra aðila til að aðlagast hinu nýja, íslenska samfélagi.

Ég vil hins vegar árétta það að þó að þetta ágæta starf hafi verið unnið og vinna að stefnumótun í þessum mikilvæga málaflokki haldi áfram er ekki þar með sagt að það sem gert er þurfi að bíða þess á allan hátt. Við hljótum ávallt að vera að vinna að þessum málum hvað sem líður þessu og öðru góðu starfi. Sem betur fer er hvern einasta dag unnið viðamikið starf er varðar börn og ungmenni og miklar framfarir hafa orðið á þessum sviðum. Ég nefni t.d. það að forsætisráðuneytið í samstarfi við Velferðarsjóð barna og þjóðkirkjuna er í mikilvægu átaki undir heitinu „Verndun bernskunnar“. Á Alþingi hafa verið samþykktar tillögur um stórhækkaðar barnabætur sem verður til þess að styrkja stöðu barnafjölskyldna. Við höfum ákveðið að styrkja stöðu langveikra barna og foreldra þeirra, styrkja stöðu kjörforeldra og þannig mætti áfram telja. Á undanförnum árum hefur verið unnið mikið starf með því að efla menntun barna og ungmenna, styrkja skólastarfið í landinu, efla forvarnir í landinu og svo mætti lengi telja. Þetta mun halda áfram og ég er alveg viss um að hv. þingmaður mun nú sem hingað til halda áfram að vinna að þessum góðu málum, enda er fyrir því mikill áhugi á Alþingi. Þess sér stað í mörgum málum sem hafa (Forseti hringir.) verið unnin á undanförnum árum.