132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:22]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að þakka hv. málshefjanda fyrir góða yfirferð yfir þá skýrslu sem hér er til umræðu. Ég ætlaði að taka fyrir þann hluta sem snýr að skóla og heilsugæslu í málefnum barna og ungmenna. Þar segir í 4. tölulið kaflans um heilsugæslu í skólum, með leyfi forseta:

„Að heilsugæsla í skólum taki með skipulegum hætti til leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Efla skal unglingamóttökur í framhaldsskólum og á heilsugæslustöðvum og víkka starfssvið þeirra.“

Ég er ekki sammála ræðumanninum sem var hér á undan mér og sagði að svo væri orðið mjög víða um landið, þetta tilraunaverkefni sem hefur verið starfrækt í Grafarvogi. Vissulega er mjög gott að heyra að segja eigi slíkt verkefni í gang í Reykjanesbæ en ég tel að það þurfi að gerast mun víðar.

Það hefur ítrekað komið fram, m.a. hjá kennurum, að verkaskipting milli skólans, sem sinna á kennslu, og heilsugæslunnar, sem sinna á heilbrigðisþjónustu, er ekki alltaf skýr. Mikið hefur verið talað um geð- og atferlisraskanir hjá börnum og ungmennum, hvort skólinn eigi að sinna því með starfsliði sínu eða hvort og hvenær eigi að vísa eigi vandanum frá skólanum til heilbrigðiskerfisins. Þessi óvissa bitnar á börnum og aðstandendum þeirra sem og úrvinda kennurum sem oft fást við vandamál sem þeir hafa ekki þekkingu eða menntun til að sinna. Sem dæmi um vanda barns má nefna sértæka námserfiðleika, þroskafrávik, hegðunarvanda, einelti og tilfinningalega erfiðleika.

Í skýrslunni er talað um að ná þurfi samkomulagi um skýrari og skilvirkari verkaskiptingu í þessum málum. Þær tillögur sem hér eru nefndar og margoft hafa komið fram eru að efla þurfi heilsugæsluna í skólum verulega þannig að frumþjónustu sé sinnt og þannig hægt að ráða bót á vandanum snemma. Ómeðhöndlaðar geð- og atferlisraskanir valda auknu álagi í skólum, í heilbrigðis- og félagsþjónustunni, og kosta okkur ómælt fé, fyrir utan að skerða möguleika barnanna til lífsgleði og almenns þroska.

Áðan var minnst á félagsþjónustuna í Grafarvogi en þar telja menn að þetta sé mjög góð viðbót við þá þjónustu sem fyrir var. Í því samhengi er vert að minnast á nýja barnið á heilsugæslustöð Akureyrar, þ.e. samstarf heimilislækna, mæðraverndar, ungbarnaverndar, fjölskylduráðgjafar og skólaheilsugæslu. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær er að vænta niðurstöðu (Forseti hringir.) fjölskyldunefndarinnar og er ekki ástæða til að nýta þessa reynslu víðar?