132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[17:26]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar í andsvari mínu að beina til hæstv. dómsmálaráðherra spurningu um vændið. Ég og hæstv. dómsmálaráðherra erum ekki sammála um hvaða leið eigi að fara eins og komið hefur fram. Við erum ekki sammála um hvernig megi túlka reynsluna í Svíþjóð hvað varðar þær breytingar sem gerðar voru þar.

En mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í siðferðisleg skilaboð í löggjöf. Ég held að flestir séu sammála um að oft felast ákveðin siðferðisleg skilaboð í löggjöf, ekki síst í hegningarlögunum. Ég held að ef við færum þá leið sem ég er fylgjandi, þ.e. að gera kaup á vændi refsiverð, værum við að senda út mjög mikilvæg siðferðisleg skilaboð. Við getum síðan deilt um hvort reynslan í Svíþjóð er góð o.s.frv. Við gerum það væntanlega hér á eftir í ræðum okkar.

En í þessu stutta andsvari langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann telji það vera siðferðislega rétt að geta keypt líkama manneskju með þeim hætti sem vændi er? Er ég þá eingöngu að tala um hin siðferðislegu skilaboð sem í því felast. Ég veit ekki hvort hann treystir sér til að afmarka sig við það vegna þess að það eru auðvitað kostir og gallar við sænsku leiðina. Ég geri mér grein fyrir því. En ég vil bara reyna að einskorða þetta við siðferðislegu skilaboðin, hvort hann telji það vera siðferðislega réttlætanlegt að við höfum löggjöf sem gerir ráð fyrir því að hægt sé að kaupa líkama annarrar manneskju til afnota.