132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[17:29]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hæstv. dómsmálaráðherra hafi misskilið mig. Ég hef kannski ekki verið nógu skýr. Ég er ekki að tala um að hann meti siðferðisstig þjóða eða beri siðferðisstig Svía saman við siðferðisstig annarra þjóða.

Ég er eingöngu að leita eftir skoðun hæstv. dómsmálaráðherra, hvort hann telji það siðferðislega rétt að hægt sé að kaupa líkama fólks með þessum hætti? Hver er hans skoðun á hinum siðferðislegu skilaboðum sem í því felast að hafa löggjöf sem gerir ráð fyrir að hægt sé að kaupa líkama með þessum hætti?

Ég er ekki að kalla eftir mati hans á siðferðisstigi Svía eða annarra þjóða, eingöngu hans eigin skoðun á því hvort það sé siðferðislega réttlætanlegt eða ekki út frá hans eigin siðferði og út frá þeim skilaboðum sem við viljum senda út í okkar löggjöf.