132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[17:49]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér er verið að ræða um breyting á almennum hegningarlögum. Mig langar að nota tímann sem best og vinda mér í það sem ég er ekki sáttur við í þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi er ég ekki sáttur við þá leið sem er farin í vændismálunum.

Ég sat í starfshópi ásamt öðrum þingmönnum á vegum dómsmálaráðuneytisins á sama tíma og þetta frumvarp var kynnt. Ég var hluti af þeim starfshópi sem komst að annarri niðurstöðu en hér er boðið upp á.

Hér er um að ræða frumvarp sem heimilar sölu á vændi. Nú þegar, samkvæmt núgildandi lögum eru kaupin leyfileg. Eftir að þetta frumvarp verður samþykkt er hér um að ræða háttsemi sem bæði verður leyfilegt að kaupa og selja. Með góðum rökum má því segja að hér sé verið að lögleiða vændi þó ekki sé leyfilegt að hafa milligöngu um það. Hins vegar verða kaupin leyfileg og sala verður leyfileg.

Í starfshópnum sem ég sat í komu m.a. fram áhyggjur lögreglumanna um að ef við færum þessa leið, þ.e. að heimila bæði söluna og kaupin, gætu ákveðnir erfiðleikar falist í því að reyna að ná í milligönguaðilann, dólginn sem við öll viljum reyna að ná í, sem er að nýta sér eymd annarra.

Í ljósi þess að við gerum bæði kaupandann og seljandann refsilausan verður kannski erfitt að ná í milligönguaðilann þar sem ekkert verður vitnið. Enginn hefur þá hag af því að koma fram og vitna gegn milligönguaðilanum. Þetta tel ég stóran galla. Að sama skapi tel ég þetta spurningu um siðferði. Eins og kom fram í andsvari mínu við hæstv. dómsmálaráðherra þá felast í löggjöf alls konar siðferðisleg skilaboð. Það er bara viðurkennt. Ég tel að það sé einfaldlega rangt að hafa löggjöf þannig að rétt verði og hægt að kaupa líkama manneskju með þeim hætti sem hér er verið að leggja til. Að sjálfsögðu er eðlismunur á viðskiptum með vörur og viðskiptum með fólk. Við verðum að finna þennan mun í hjarta okkar. Það er erfitt að sannfæra einhvern um þetta ef hann skynjar þetta ekki sjálfur. Ég held að það hefði verið miklu skynsamlegra, og það hefðu verið jákvæð og sterk skilaboð, að senda út í samfélagið að það sé einfaldlega rangt að kaupa manneskju með þeim hætti sem vændi er. Ég held að sama skapi að ef við gerum hlut kaupandans refsiverðan þá muni það draga úr eftirspurninni. Ég trúi því að mannskepnan sé í eðli sínu löghlýðin. Ef umhverfið gerir ráð fyrir að ákveðin háttsemi sé refsiverð, þ.e. kaupin, þá mun draga úr eftirspurninni. Og ef við drögum úr eftirspurninni þá drögum við úr framboðinu.

Ég held einnig að varnaðaráhrif slíkrar löggjafar yrðu mikil. Fram kom hjá starfshópnum, hjá prófessor sem samdi þetta frumvarp, að löggjöf hefur varnaðaráhrif, alls konar varnaðaráhrif. Ég held einmitt að ef við hefðum farið þá leið sem Svíar hafa farið, að gera kaupin refsiverð, þá hefðu varnaðaráhrifin verið mjög jákvæð.

Við þurfum að nálgast spurninguna um hver sé að brjóta á hverjum í þessu máli. Hver hefur valið? Það er kaupandinn sem hefur valið en ekki seljandinn. Kaupandinn er gerandi. Hann ákveður að kaupa líkama annarrar manneskju með þessum hætti. Aðstæður seljandans eru allt öðruvísi. Ég held að goðsögnin um hina hamingjusömu hóru sé einmitt það sem hún er. Hún er goðsögn. Ég held að hún sé ekki til staðar. Þó hægt væri að finna einhvern sem velur að selja líkama sinn með þessum hætti, hafi kosið það af fúsum og frjálsum vilja þá eigum við ekki að sníða löggjöf að algjörum undantekningartilvikum. Ég er alveg sannfærður um að enginn leiðist út í vændi sjálfviljugur. Ég held að aðstæður vændisseljandans eigi að leysa með félagslegum úrræðum en ekki laga- og refsiúrræðum. Ég tel að vændissalan eigi að vera refsilaus og að við eigum að hjálpa viðkomandi aðila með félagslegum úrræðum. Ég held að sama skapi að með því að hafa þátt vændissalans refsilausan þá hjálpi það okkur að ná milligönguaðilanum því seljandi getur þá leikið stórt hlutverk við að ná dólgnum. Einnig tel ég að ef vændissalinn er refsilaus þá hjálpi það viðkomandi að brjótast út úr þeim vítahring sem vændið er, þ.e. leið hans að opinberum aðilum verður greið. Hann er ekki glæpamaður.

Við sjáum að núverandi löggjöf er mjög gölluð. Ísland er hið eina af Norðurlöndunum sem hefur svona löggjöf. Ekkert Norðurlanda nema Ísland hefur refsiábyrgð á vændisseljandanum og í okkar löggjöf í dag snýst aðalumræðan um það hvort það sé til framfærslu eða ekki. En þetta er mikill misskilningur hjá þeim sem bjuggu til þetta ákvæði í núgildandi lögum því alvarleikinn felst ekki í fjárlagslegum hagsmunum. Hann felst í allt öðrum hagsmunum. En til að sýna anda þeirra ákvæða sem nú eru í gildi má rifja það upp að til ársins 1992 var vændi í þeim kafla almennra hegningarlaga sem fjallaði um framfærslu og atvinnuhætti. Ég tel því að við ættum að færa refsiábyrgðina þangað sem hún á heima. Hún á heima hjá kaupandanum en ekki refsisalanum.

Heyrst hafa nokkrar röksemdir gegn því að fara sænsku leiðina, m.a. sú að vændið muni færast neðan jarðar. Ég spyr á móti. Er ekki vændið nú þegar neðan jarðar? Hver verður breytingin? Að sama skapi hefur verið bent á að hugsanlega verði hinir verri kúnnar, ef svo má kalla, eftir. Ég sjá ekki hvernig það geti orsakað að einhverjir verri aðilar standi eftir færum við sænsku leiðina. Fyrir mér er aðalatriðið að draga úr eftirspurninni og um leið úr framboðinu. Við eigum að útrýma markaðnum. Við eigum að búa til þannig umgjörð að færri líta á það sem neyðarúrræði að stunda vændi vegna þess að það verður ekki markaður fyrir það.

Mikið er deilt um reynsluna í Svíþjóð. Ég tel að reynslan í Svíþjóð hafi verið góð. Jafnréttismálaráðherra Svía hefur staðfest það. Skýrslur í Svíþjóð sýna að reynslan sé góð, að þeir séu á réttri leið, að dregið hafi úr mansali, að dregið hafi úr skipulegri verslun með manneskjur, að dregið hafi úr götuvændi. Ég tel nú talsvert vera unnið ef við náum þessum markmiðum.

Það hefur komið fram að það er einfaldlega áhættusamara að kaupa manneskju í Svíþjóð núna eftir að þessi leið var farin. Við sjáum líka að Finnar eru að skoða þessa leið. Stjórnarfrumvarp liggur fyrir finnska þinginu sem lýtur að því að fara sænsku leiðina og menn hafa spáð því að ef Finnar fara þessa leið þá muni Eistar gera það. Þetta komst jafnvel til tals í rússneska þinginu.

En að lokum varðandi vændið þá má rifja upp að 14 kvennasamtök og stofnanir hafa stutt að farin verði sænska leiðin. Þessi samtök sem berjast m.a. fyrir hagsmunum kvenna hafa metið það svo að öllum sé í hag að gera vændiskaup refsiverð og vændissöluna refsilausa.

Mig langar einnig að aðeins að nefna fyrninguna. Ég hef ítrekað lagt fram á þessu þingi frumvarp sem gengur út á það að afnema fyrningarfrest varðandi kynferðisafbrot gegn börnum. Eðli málsins samkvæmt vil ég ganga lengra en þetta frumvarp gerir því þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra mun eingöngu lengja fyrningarfrestinn um fjögur ár, eingöngu fjögur ár. Samkvæmt núgildandi lögum eru öll kynferðisafbrot gagnvart börnum fyrnd þegar viðkomandi þolandi er 29 ára. Eftir samþykki þessa frumvarps mun markið færast til 33 ára aldurs. Þetta mun ekki taka til stórs hluta þolenda kynferðisofbeldis sem þeir verða fyrir sem börn. 40% þeirra sem leita til Stígamóta eru yfir 30 ára. Það er alveg augljóst að þessi málaflokkur hefur sérstöðu. Hún er nú þegar viðurkennd í löggjöf með því að hafa fyrningarfrestinn þannig að hann telur frá 14 ára aldri. Ég vil einfaldlega ganga lengra. Ég vil að hagsmunamatið á bak við fyrninguna vegi minna en hagsmunir þolenda þessara glæpa. Gerandinn á ekki að hagnast á aðstöðumun hans og barnsins. En það gerir hann núna vegna reglna um fyrningu og enn verður hætta á að við munum sjá sýknun vegna kynferðisofbeldis gegn börnum vegna fyrningar. Eftir að þetta frumvarp verður samþykkt er enn þá hætta á því. Það er nokkuð sem erfitt er að sætta sig við að enn þá verði hætta á að við munum sjá sýknun vegna fyrningar. Vísbendingarnar og tölfræðin sýna að fólk leitar sér hjálpar mjög seint í þessum brotaflokki. Það er m.a. grunnurinn að þeirri sérstöðu sem hér er á bak við.

Einnig má rifja upp að nú þegar höfum við til staðar í íslenskri löggjöf ófyrnanleg brot, mannrán, ítrekuð rán, landráð og manndráp. Þessi brot eru öll ófyrnanleg. Fram á níunda áratug síðustu aldar voru ófyrnanleg brot enn fleiri og mörg þeirra brota höfðu hámarksrefsingu sem var ekki ævilangt fangelsi. Þar af leiðandi er ég ekki sammála um að við séum að brjóta í blað eða skapa frávik í meginreglu refsiréttar með því að gera kynferðisafbrot gegn börnum ófyrnanleg því staðan er þannig að nú þegar höfum við ófyrnanleg brot. Ég tel einfaldlega að kynferðisafbrot gegn börnum eigi að vera í þeim flokki.

Það hafa 20.000 manns undirritað áskorun um að við samþykkjum frumvarp sem lýtur að því að afnema fyrningarfresti í kynferðisafbrotum gegn börnum. Langflestir fagaðilar sem vinna með börnum hafa mælst til að þessi leið verði farin, umboðsmaður barna, Barnaverndarstofa, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, stjórn Barnaheilla, Samtök um kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofa Íslands o.s.frv.

Við höfum heyrt ákveðin mótrök gegn þessu frumvarpi. Ég er búinn að svara því að ég tel það ekki vera neins konar frávik ef við förum að gera brotin ófyrnanleg í ljósi þess að við höfum nú þegar ófyrnanleg brot í fyrsta lagi.

Í öðru lagi erum við nú þegar að taka margs konar tillit til sérstöðu barna í löggjöf okkar. Það er auðvitað rauði þráðurinn á bak við frumvarpið um að afnema fyrningarfrestinn. Í mínum huga snýst þetta bara um refsipólitíska ákvörðun. Þetta er ákveðin refsipólitísk ákvörðun sem Samfylkingin hefur tekið um að þessi brot eigi að vera ófyrnanleg.

Við höfum líka heyrt rök, og þau koma m.a. fram í þessu frumvarpi, sem eiga að vera gegn því að gera þessi brot ófyrnanleg. Í fyrsta lagi er vísað til þess að fyrningarreglur skapi aðhald á rannsóknaraðila í rannsókn sinni sé fyrningarklukkan farin að tikka. Ég tel að þolendur þessara brota eigi ekki að líða fyrir slíkt aðhald. Það má líka rifja upp að nú þegar er að sjálfsögðu lagalegur áskilnaður um að rannsóknaraðilar sinni starfi sínu og rannsaki brotið. Það þarf ekki að birtast sem aðhald í fyrningarreglunum með þessum hætti.

Bent hefur verið á það í umræðunni að verði þessi brot ófyrnanleg muni viðkomandi aðilar ekki sinna rannsóknum á þessum brotum nægilega vel í ljósi þess að þeir hafi þá nægan tíma. Þetta heldur ekki vatni að mínu mati því nú þegar höfum við ófyrnanleg brot, svo sem manndráp, og ég sé ekki að lögreglan sé að taka sér óþarfa tíma í að rannsaka þau mál þótt þau séu ófyrnanleg.

Einnig hefur verið bent á að við breyttum nýlega fyrningarreglunum, fyrir tæpum tíu árum reyndar, og það eigi eftir að koma meiri reynsla á þær. Ég vísa til þess hvort við eigum þá að bíða þangað til við fáum sýknudóm vegna fyrningar sem reynir á ákvæðið eins og það breyttist 1998. Þá held ég að við værum búin að tapa ansi miklu.

Þá hefur einnig verið bent á að eftir því sem lengri tími líði verði erfiðara að sanna brot. Þetta á við öll brot og auðvitað veit viðkomandi þolandi um leið og hann sækir sér aðstoð að sönnunarstaðan mun verða erfiðari eftir því sem lengri tími líður. Hins vegar er niðurstaðan bara sú að þetta fólk leitar sér hjálpar svo seint á lífsleiðinni og það er grunnurinn bak við sérstöðu þessara brota. Ég tel þetta því ekki sterk rök gegn því að gera þessi afbrot ófyrnanleg.

Að lokum fagna ég því varðandi nauðgunarákvæðið að þar erum við að sameina þrjú ákvæði í eitt. Við höfum talað fyrir því að óeðlilegt sé að hafa þrjú ákvæði sem taki í raun og veru á sama verknaðinum. Þau voru nauðgun, ólögmæt nauðung og misneyting. Samkvæmt núgildandi lögum var t.d. ekki hægt að nauðga þroskaheftum einstaklingi eða rænulausum einstaklingi. Þá átti nauðgunarákvæðið ekki við. Það sýnir auðvitað galla núgildandi laga. Nauðganir á þessu fólki féllu ekki undir nauðgunarákvæðið. Það er mjög mikilvægt að verknaðaraðferðin fái ekki að ráða varðandi þessi brot heldur séu verndarhagsmunirnir aðalatriðið.

Það má velta því fyrir sér, og við munum skoða það í allsherjarnefnd, hvað gert verður með nauðgun sem gerist án ofbeldis og án hótana. Hvar mun það lenda í ljósi þess að frumvarpið gerir að skilyrði að annaðhvort sé um að ræða ofbeldi eða hótanir. Það má velta því fyrir sér — ég ætla ekki að taka tíma í það, ég ætla að klára mál mitt fljótlega — hvað verður um slíkan verknað. Í engilsaxneskum rétti er lögð áhersla á samþykki, hvort það hafi verið til staðar eða ekki. Það er leið sem við höfum ekki farið hér og frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því en auðvitað ættum við að skoða það. Verndarhagsmunirnir eru aðalatriðið og brotið gegn kynfrelsi viðkomandi, þetta á að vera í forgrunni.

Ég vil einnig að allsherjarnefnd skoði af fullri alvöru nauðgun af stórfelldu gáleysi. Umræða um það hófst annars staðar á Norðurlöndum fyrir 20 árum. Noregur hefur slíkt úrræði og má skoða hvernig til hefur tekist þar. En núna þarf að sjálfsögðu að sanna ásetning nauðgunar til allra efnisþátta verknaðarins. Það getur verið erfitt. Ef um er að ræða nauðgun af stórfelldu gáleysi lækka þessar kröfur og þá verður spurning um hvort viðkomandi gerandi hefði mátt vita að viðkomandi þolandi vildi þetta ekki. Þetta gæti verið áhugavert fyrir allsherjarnefnd að skoða.

Það á að breyta refsingunum. Maður fagnar því að inn kemur lágmarksrefsing í kynferðisafbrotum gegn börnum. Sú staða hefur verið óskiljanleg í núgildandi lögum að kynferðisleg misnotkun á barni nær upp í 12 ára fangelsi að hámarki en nauðgun á fullorðnum einstaklingi frá einu ári upp í 16 ár. Þessi munur hefur verið óskiljanlegur. Einnig er ástæða til að hvetja dómstóla til að nota nauðgunarákvæðið meira þegar kemur að kynferðisafbrotum gegn börnum. Allsherjarnefnd ætti síðan að skoða alvarlega hvort ekki ætti að hækka kynferðislegan lögaldur úr 14 árum. Fagaðilar hafa bent á að þetta veldur vandræðum. Annars staðar Norðurlöndum er kynferðislegur lögaldur eða sjálfræðisaldur hærri en hjá okkur.

Að lokum, af því að þingmenn eru orðnir óþreyjufullir og vilja byrja á atkvæðagreiðslu, er ástæða til að gagnrýna dómstóla landsins fyrir að virða ekki þann refsiramma sem löggjafinn ákveður í þessum í brotaflokki. Mér er óskiljanlegt að dómstólar hafi einungis ákveðið að nota refsirammann að fullu í fíkniefnamálum og manndrápum, en við höfum séð allt að níu eða tíu ára fangelsi í fíkniefnamálum. Meðaltal fangelsisvistar í nauðgunarmáli er eitt og hálft ár þrátt fyrir að refsiramminn sé frá einu ári upp í 16 ár.

Þetta eru skilaboð sem ég skil ekki. Þetta býður hættunni heim. Við höfum séð dæmi um að viðkomandi þolendur hafa tekið lögin í eigin hendur. Við höfum meira að segja dæmi um það í réttarframkvæmdinni. Það er ekki nóg að við náum fram réttlæti, það er þarf líka að líta út fyrir að við höfum náð réttlæti. Dómstólar eiga að hlusta á okkur í þessum sal, við höfum ákveðið refsirammann og refsiramminn í nauðgunum og kynferðisafbrotum gegn börnum er nægilega rúmur. Vandinn liggur hjá dómstólunum. Þeir eiga að nota hann í meira mæli en þeir gera núna. Sömuleiðis þarf að vera samræmi á milli alvarleika afbrotanna. Það er flestum óskiljanlegt að sjá að afbrot sem lúta að fjárdrætti varði í raun og veru þyngri refsingu en áralöng misnotkun á litlu barni. Þetta særir réttlætiskenndina og er ekki forsvaranlegt.

Við hér inni vitum að þetta snýst ekki bara um lagabreytingar. Við þurfum auðvitað að efla félagsleg úrræði. Við þurfum að efla fræðsluna og meðferðarúrræðin. Kennarar og heilbrigðisstarfsfólk og allir sem vinna bæði með börnum og konum sem lenda í slíku þurfa að vera vel með á nótunum og stunda öfluga endurmenntun svo hægt sé að vinna bug á því böli sem kynferðislegt ofbeldi er.