132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[18:07]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég átti reyndar von á að gert yrði hlé núna vegna atkvæðagreiðslna. Til umræðu er frumvarp til laga um breytingu á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga sem varða í fyrsta lagi nauðgunarmál og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, í öðru lagi kynferðisbrot gagnvart börnum og í þriðja lagi vændi.

Sameiginlegt þessum breytingum er fyrst og fremst aukin vernd barna og kvenna sem þolenda kynferðisofbeldis í hvaða formi sem er. Með frumvarpinu er komið til móts við breytingu á viðhorfum í samfélaginu til þessara mála sem hafa verið að þróast á undanförnum árum, ekki síst fyrir tilstilli kvennahreyfinga.

Opinská og almenn umræða um kynferðisbrot sem hefur farið fram í samfélaginu á síðustu árum hefur gert það að verkum að ekki á nokkur maður að vera í vafa um að kynferðisbrot eru hluti af íslenskum veruleika. Það má öllum vera ljóst hve gríðarleg og varanleg áhrif kynferðisbrot hafa á líf og þroska einstaklinga sem verða fyrir því áfalli. Sú umræða sem hefur farið fram á síðustu árum hefur dregið mál upp á yfirborðið og jafnframt orðið til að einstaklingar, konur og karlar og ekki síst börn og ungmenni, eru meðvitaðri um stöðu sína og finna hjá sér kjark til að ræða um þau og leita sér aðstoðar.

Frumvarpshöfundur hefur jafnframt tekið mið af lagabreytingum í sömu veru í nágrannalöndum okkar. Frumvarpið ber með sér að það er samið af einstaklingi sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á þessum sviðum lögfræðinnar og er greinargerðin vel undirbyggð og hin vandaðasta. Er vert að draga þetta fram og þakka Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, fyrir þessa góðu vinnu.

Almennt vil ég segja að mér finnst þær lausnir sem frumvarpið felur í sér bera merki um skynsamlega nálgun og ákveðnu meðalhófi er fylgt án þess að missa sjónar á meginmarkmiði frumvarpsins sem er að tryggja aukna vernd þolenda sem eru fyrst og fremst konur og börn eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins.

Hins vegar verður að hafa í huga að misnotkun á börnum og vændi er alls ekki bundið við stúlkubörn og konur og verður að forðast að setja slíka merkimiða á misnotkun og kynferðislegt ofbeldi. Slíkt gæti orðið til þess að samfélagið sé ekki á sama máta á varðbergi gagnvart misnotkun á drengjum og það er varðandi misnotkun á stúlkum sem hefur verið meira í umræðunni. Í þessu sambandi vil ég benda á að íslenskar rannsóknir benda til þess að í aldursflokknum undir 18 ára séu strákar í meiri hluta þeirra sem falbjóða sig. Erlendar rannsóknir styðja þessar niðurstöður.

Ég vil fara nokkrum almennum orðum um ákveðna þætti frumvarpsins. Þannig vil ég sérstaklega fagna þeim breytingum á skilgreiningu á nauðgun sem felst í frumvarpinu. Ljóst er að skilgreiningin í núgildandi lögum er allt of þröng og gengur fyrst og fremst út frá því að nauðgun sé framkvæmd með ofbeldi eða undir hótunum um ofbeldi. Nauðgun við aðrar aðstæður felur í sér vægari refsingu, svo sem þegar þolandinn getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér sökum andlegrar fötlunar eða veikleika eða vegna ölvunar og áhrifa lyfja. Í öllum tilvikum er þó um að ræða þvinguð kynmök gegn vilja eða samþykkis viðkomandi.

Segja má að þessi skilningur brjóti gegn almennri vitund fólks á hvað telst vera nauðgun. Ákvæði frumvarpsins sem nú er til umræðu tekur fyrir þennan mismun, enda verður að líta svo á að kynferðisbrot gegn geðveiku fólki, þroskaheftu, sofandi eða meðvitundarlausu fólki, er jafnalvarlegt brot og nauðgun undir ofbeldi eða hótunum um ofbeldi.

Önnur ákvæði frumvarpsins sem ég tel sérstaklega ástæðu til að nefna varða þyngingu refsinga þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, svo sem ungur aldur þolenda, þegar um sérstaklega ofbeldisfullt athæfi er að ræða eða ítrekað athæfi. Þá hlýt ég að fagna að ákvæðið um kynferðislega áreitni er gert ítarlegra og skilgreint hvað í hugtakinu felst, og jafnframt lengingu fyrningarfrests á kynferðisbroti sem beint er gegn börnum, svo fátt eitt sé nefnt af efnisatriðum sem frumvarpið tekur til.

Samkvæmt núgildandi lögum er vændi til framfærslu bannað svo og er hagnýting vændis bönnuð og er þar átt við milligöngumann, vændisdólginn svokallaða. Ákvæði íslenskra laga um vændi hafa sérstöðu meðal nágrannaþjóða, þ.e. að sala á vændi sér til framfærslu er bönnuð. Í Noregi, Finnlandi og Danmörku eru hvorki kaup né sala á vændi bönnuð. Svíþjóð sker sig hins vegar úr með því að banna kaup á vændi. Það er hin svokallað sænska leið sem deilt hefur verið um. Ég hef reyndar haldið því fram að ákvæði íslensku laganna, sem eru ólík því sem annars staðar gerist og banna fortakslaust skipulegt vændi, feli í sér ákveðna vörn í samfélaginu og sé ein ástæða þess að vændi er hér á landi ekki eins áberandi og í löndunum í kringum okkur. Ég tel að afnám ákvæðisins eins og nú er lagt til geti haft þau áhrif að vændi verði meira áberandi hér á landi en nú er. Hins vegar verður að benda á að ákvæði 12. gr. frumvarpsins, þar sem bannað er að auglýsa vændi á opinberum vettvangi, hafa áhrif til mótvægis. Álíka ákvæði eru t.d. í norskum lögum.

Ég get hins vegar fallist á þau rök að erfitt sé að standa frammi fyrir því að refsa öðrum aðilanum þegar tvo þarf til verknaðarins, og í tilviki íslenska ákvæðisins, þar sem þeim sem selur vændið er refsað, er það yfirleitt sá aðili sem stendur veikari í þeim samskiptum og þarfnast fyrst og fremst félagslegrar, fjárhagslegrar og sálrænnar aðstoðar til að hverfa frá iðju sinni.

Erfitt hefur verið að meta umfang og eðli vændis hér á landi og vantar frekari upplýsingar um það. Þó liggja fyrir upplýsingar um ákveðna sérstöðu hér á landi þar sem talið er að rúmlega helmingur þeirra sem taldir eru að stundi vændi hér á landi er ungt fólk undir 18 ára aldri sem oft er gert í neyð til að afla sér viðurværis og til að fjármagna neyslu. Jafnframt benda niðurstöður til þess að marktækt fleiri strákar en stelpur á þessum aldri hafa þegið greiðslu fyrir kynmök. Þá er götuvændi nánast óþekkt hér á landi. Jafnframt má nefna að talið er að vændi hafi aukist eftir að nektarstaðir hófu starfsemi á Íslandi.

Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjalla ítarlega um hina svokölluðu sænsku leið í þessari umræðu enda er ekki lagt til sú leið verði farin í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Í skýrslu starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar, og ég átti sæti í sem fulltrúi míns flokks, eru rökin gegn sænsku leiðinni rakin. Ég er tilbúin að taka þátt í þeirri umræðu við síðara tækifæri.

Þó vil ég í tilefni af orðum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, benda á að Svíar hafa einir kosið þessa leið og það liggja ekki fyrir haldgóðar upplýsingar um áhrif hennar á þeim sjö árum sem það ákvæði hefur verið í gildi. Ekki hefur t.d. verið sýnt fram á að vændi hafi minnkað í Svíþjóð þótt götuvændi sé minna sýnilegt. Á þessum tíma hafa bæði Norðmenn og Danir tekið þessa leið til ítarlegrar skoðunar en ákveðið að fara hana ekki. Þá hefur ekki verið sýnt fram á varnaðaráhrif sænsku leiðarinnar. Þannig hefur ekki verið sýnt fram á minnkað umfang vændis né að vændisaðilar njóti meiri verndar en áður. Þvert á móti hefur verið sýnt fram á að vændisumhverfi hefur orðið ofbeldisfyllra en áður. Það hefur færst undir yfirborðið. Erfiðara hefur reynst að hafa eftirlit með starfseminni og beita félagslegum úrræðum gagnvart þeim sem stunda vændi. Eins og ég sagði áðan er ég tilbúin til umræðu um þetta mál en vegna þeirra takmarkana sem við ákveðum hér sjálf milli þingflokkanna um tímamörk í þessari umræðu mun ég láta það bíða seinni tíma.

Ég vil í lokin segja að ég er nokkuð sátt við það frumvarp sem hér er til umfjöllunar eins og kom fram í ræðu minni hér á undan, sem var nokkuð hratt flutt.