132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[18:42]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að það hafi fyrst og fremst verið markmið Svíanna að koma í veg fyrir götuvændi. En það mátti merkja það af orðum hennar.

Það var verið að reyna að koma í veg fyrir ofbeldi og það var fyrst og fremst kynbundið ofbeldi, ofbeldi gagnvart konum, en auðvitað líka ofbeldi gagnvart drengjum því vændi er ofbeldi hvort sem það eru drengir eða stúlkur sem selja sig.

Hv. þingmaður leggur áherslu á það að samkvæmt rannsóknum hafi komið í ljós að fleiri drengir en stúlkur undir 18 ára aldri selji aðgang að líkama sínum eða falbjóði sig. Þessar rannsóknir hafa verið skoðaðar gaumgæfilega af fræðimönnum. Það hafa verið skrifaðar um það lærðar greinar að líklegt sé, út af þessum niðurstöðum sem vissulega eru til staðar í fleiri en einni og fleiri en tveimur rannsóknum, að stúlkur meti það öðruvísi en drengir hvort þær eru að falbjóða sig eða taka við greiða gegn kynmökum eða ekki. Það er því ekki hægt að taka þessar rannsóknir sem blákaldar niðurstöður, á bak við þær eru mismunandi sjónarmið drengja og stúlkna í þessum efnum. Það þarf að rýna aðeins meira í þær en hv. þingmaður gerir.

Að lokum vil ég spyrja hv. þingmann hvaða augum hún líti þá tillögu sem er hér komin í frumvarpinu og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson segir að megi í sjálfu sér túlka sem lögleiðingu vændis. Ég hallast að þeirri skoðun hans. Ég vil spyrja hv. þm. Ástu Möller hvaða augum hún líti það. Ég vil spyrja hana hvort henni finnist verjandi að með þessu frumvarpi séu sett ákvæði um að ekki megi auglýsa sölu á vændi en það megi, að því er virðist, stunda það. Það er allt í lagi með þetta svo fremi að ég sjái það ekki. Haldið því frá augunum á mér og þá er í lagi að það sé til staðar.

Mér finnst misvísandi skilaboð og ekki góð skilaboð í þeirri grein í frumvarpinu.