132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[18:44]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður dembir á mig spurningum. Ég hef nú ekki nema tvær mínútur til að svara. En ég skal reyna að gera mitt besta.

Við ræddum áðan um aðstæður hér á landi, að þær væru aðrar en í Svíþjóð. Af því að hv. þingmaður talaði um mansal er það náttúrlega ljóst að aðstæður hér á landi til að stemma stigu við mansali eru allt aðrar en á Norðurlöndunum þar sem landamærin eru opin á milli landa.

Við erum með einn inngang inn í landið. Við erum með haf allt í kringum landið þannig að ég þarf ekki að hafa mörg orð um það að aðstæður okkar eru allt aðrar. Það segir okkur enn frekar að við þurfum að velja leiðir sem við teljum bestar hverju sinni til þess að stemma stigu við mansali.

Varðandi rannsóknir um karla og konur, hverjir stundi vændi o.s.frv. Þrátt fyrir að ég hafi dregið fram, og það hefur ítrekað komið fram, bæði í skýrslu okkar og jafnframt í þeim rannsóknum sem þegar hafa verið gerðar, þessa niðurstöðu set ég ákveðinn fyrirvara við hana. Við segjum það í okkar skýrslu að við teljum að það þurfi að rannsaka þetta atriði mun nánar.

Við höfum ekki nægilegar upplýsingar um vændismarkaðinn sem er hér í dag til að fara að taka svona drastískar ákvarðanir eins og hv. þingmaður vill gera.

Hvort verið er að lögleiða vændi? Ég sagði að ég gæti fallist á þá leið sem lögð væri til í þessu frumvarpi. En jafnframt teldi ég að ákveðin hætta væri á því að vændi yrði sýnilegra með þessu móti. Ég tel að í því sem við höfum verið að gera hingað til, þ.e. banna sölu á vændi, hafi falist ákveðin varnaðaráhrif sem ég hefði nú gjarnan viljað hafa fleiri orð um en get ekki.