132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:03]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessu svari hæstv. dómsmálaráðherra. Hann lýsir í svarinu vilja sínum til að rannsaka vændi nánar. En ég árétta að við búum að og eigum ákveðna rannsókn á þeim sem selja vændi hér á landi. Það er órannsakað, sem prófessorinn Ragnheiður Bragadóttir bendir á, hverjir eru kaupendur vændis á Íslandi. Ég get ekki annað en fagnað því að sú rannsókn eigi að fara fram.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta séu ekki rök fyrir því að fara ekki þá leið sem við höfum lagt til, að gera kaupin refsiverð. Ég árétta að ég hef ekki orðið þess vör, með löggjöf almennt, að fram fari einhvers konar heildarrannsókn á áhrifum löggjafar, hvorki á sviði refsiréttar né á öðrum sviðum löggjafarinnar, sem eru ein rökin fyrir að fara ekki þessa leið að mati prófessorsins.

En ég fagna, frú forseti, svari ráðherrans og þeim áhuga sem hann sýnir að vinna áfram í þessu máli.