132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:21]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja hv. formann allsherjarnefndar nokkurra spurninga. Hv. þingmaður heldur varla vatni yfir frumvarpinu og segist vera sammála öllum meginrökum þess.

Mig langar að spyrja: Koma einhverjar breytingar til greina af hans hálfu á þessu frumvarpi í ljósi þess sem hann sagði hér áðan? Þá er ég bara að hugsa um þá vinnu sem hefst núna í allsherjarnefndinni.

Í annan stað langar mig að spyrja hv. þingmann út frá siðferðislegu hliðinni. Finnst honum siðferðislega réttlætanlegt að hægt sé að kaupa líkama manneskju með þeim hætti sem vændiskaup eru? Er það siðferðislega rétt að það sé hægt?

Ef vændiskaup og vændissala eru í lagi, af hverju er þá ekki milligangan í lagi? Af hverju eru þá ekki auglýsingarnar í lagi? Ef við höfum löggjöfina þannig úr garði gerða að bæði salan og kaupin séu í lagi. Frumvarpið leggur það til að það sé hvort tveggja í lagi. Af hverju leggst þá hv. þingmaður gegn því að milligangan sé ólögleg eða auglýsingarnar?

Ég skynja ákveðinn tvískinnung varðandi þennan verknað. Menn vilja fordæma þennan verknað með því að banna auglýsingar á vændi en mönnum finnst í lagi bæði að kaupa vændi og selja. Hv. þingmaður talaði líka um að þetta sé ekki lögleiðing. Hvernig kemst hann að þeirri niðurstöðu í því ljósi að bæði salan og kaupin eru leyfileg samkvæmt frumvarpinu?

Hv. þingmaður benti á að það þyrfti að komast að rótum vandans. Er ekki hluti af rótum vandans einmitt eftirspurnin, þ.e. kaupandinn? Kaupandinn á valið. Hann velur hvort hann kaupir viðkomandi einstakling eða ekki. Væri það ekki langskynsamlegasta leiðin til að komast að rótum vandans, eins og hv. þingmaður vill, að ná kaupandanum og draga úr eftirspurninni?

Hvað varðar fyrninguna þá talar hann um að hún varði prinsipp í refsilöggjöfinni. Vill hv. þingmaður t.d. breyta hegningarlögunum í þá átt að þau ófyrnanlegu brot sem nú eru til staðar verði fyrnanleg, svo sem manndráp, landráð, mannrán, ítrekuð rán o.s.frv. (Forseti hringir.) til að halda í þetta meinta prinsipp sem hann kom að?