132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í þessum andsvörum kristallast sá ágreiningur sem áður hefur verið í umræðum um málið hér í þingsal og innan allsherjarnefndar þegar við höfum fjallað um þessi mál. Ég sé ekki að við eigum neitt auðveldari vegferð fyrir höndum í nefndinni en áður. Ég held að við eigum eftir að takast á um þessi grundvallaratriði.

Í lokaandsvari mínu við hv. þm. Bjarna Benediktsson vil ég einungis segja þetta: Mansal heyrir til skipulagðri glæpastarfsemi sem veltir orðið álíka miklum upphæðum í veröldinni og vopnasala og eiturlyfjasmygl. Samfélag þjóðanna hefur séð ástæðu til að gera um það alþjóðlegan samning sem kallaður er Palermo-samningurinn til að reyna að takast á við hina skipulögðu glæpastarfsemi í verslun með manneskjur. Það er óásættanlegt í samfélagi þjóðanna að látið skuli viðgangast að konur og börn gangi kaupum og sölum til kynlífsþjónustu, ekki síst á Vesturlöndum, jafnvel í okkar eigin landi. Þess vegna verður að beita öllum þeim aðferðum sem tiltækar eru til að stemma stigu við slíkum glæpum. (Gripið fram í.)

Því miður hefur ríkisstjórn Íslands ekki séð ástæðu til að lögleiða Palermo-samninginn þótt við séum búin að undirrita hann og það standi til að færa hann í íslensk lög. Mér fyndist sómi að því að innleiða sænsku leiðina, sem hefur reynst virkt tæki í baráttunni gegn mansali þótt ekki væri nema til þess að gefa út yfirlýsingu til stuðnings Svíum í þessum efnum, sem hafa verið brautryðjendur og farið gegn almenningsálitinu, sem hefur verið sterkt. Það hefur verið tregða í gangi við að ráðast gegn kaupendum vændis og verið feimni eða hræðsla við að tala við þá sem búa til eftirspurnina eftir konum og börnum sem seld eru mansali á milli landa. Mér hefði fundist sómi að því að Íslendingar gengju fram fyrir skjöldu og segðu við Svía: Við stöndum með ykkur. Við lögleiðum líka sænsku leiðina af því að við viljum að úr norðurálfu komi þau skilaboð að það sé ekki ásættanlegt að konur og börn gangi (Forseti hringir.) kaupum og sölum í þessum tilgangi.