132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:37]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins til viðbótar varðandi sænsku leiðina þá er í sjálfu sér skiljanlegt að Svíar skuli almennt ánægðir með sænsku leiðina. En þar í landi var götuvændi sérstakt vandamál. Það er ekkert skrýtið að kaupendurnir hafi hlaupið í felur þegar búið var að innleiða í refsilöggjöfina sérstakt ákvæði sem bannar beinlínis kaupin og gefur lögreglunni veiðileyfi á þá þegar þeir gefa sig fram.

Vandinn við þetta atriði er kannski sá að það eru vísbendingar um að vændið eigi sér enn stað. Þegar við skoðum tölfræðina, um hve mörg mál hafi verið upplýst og afgreidd af lögreglunni og yfirvöldum á grundvelli þeirrar lagabreytingar sem þarna er um að ræða, eru það sorglega fá tilvik miðað við stærðina á vandamálinu sem við er að etja og umfang vændisstarfseminnar.

Hér er mansalið gert að umtalsefni. Eins og hv. þingmaður veit höfum við á umliðnum árum innleitt í refsilöggjöfina sérstök ákvæði til þess að sporna við mansali. Það hefur verið gripið til sérstakra aðgerða og eins og hv. þingmaður réttilega benti á tengist mansalið yfirleitt skipulagðri glæpastarfsemi. Skipuleg glæpastarfsemi er einmitt nákvæmlega sama orðið og notað er í öðru frumvarpi sem liggur hér fyrir þinginu þar sem fjallað er um greiningardeildir. Það hefur aldeilis heyrst hljóð frá stjórnarandstöðunni vegna greiningardeildanna sem einmitt er ætlað að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi og skila áhættumati út af þeim. En miðað við þau orð sem hér féllu um nauðsyn þess að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi treysti ég því að hv. þingmaður hafi ekki út á það að setja að ríkislögreglustjóra verði veittar auknar heimildir til að gera það áhættumat sem þarf til að sporna við þeim vanda sem skipuleg glæpastarfsemi er, hvort sem þar er um að ræða fíkniefni, mansal eða aðra starfsemi sem flýtur yfir landamæri og við höfum orðið vör við í auknum mæli hér á landi.