132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Álagning skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga.

732. mál
[19:39]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins frá 24. nóvember 2005 varðandi skattalegt umhverfi alþjóðlegra viðskiptafélaga á Íslandi. Samkvæmt frumvarpinu verða sérreglur sem gilda um skattlagningu alþjóðlegra viðskiptafélaga afnumdar. Heimilt verður þó eftir sem áður að veita lágmarksaðstoð að fjárhæð 100 þús. evrur til slíkra félaga á hverju þriggja ára tímabili, enda innan ramma EES-regla um ríkisaðstoð. Jafnframt er í frumvarpinu kveðið á um að þessi takmörk eigi ekki við þegar starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga er alfarið utan gildissviðs EES-samningsins, eins og það er skilgreint í bókun 3 við EES-samninginn.

Ákvæði frumvarpsins ná jafnt til þess tíma sem eftir er hjá starfsemi þeirra félaga sem hafa starfsleyfi og til þeirrar starfsemi sem þegar hefur átt sér stað, þ.e. kveðið er á um að endurgreiða beri til ríkissjóðs ef mismunur á skattgreiðslum alþjóðlegs viðskiptafélags, annars vegar eftir lögum nr. 29/1999 og hins vegar samkvæmt almennum skattalögum, er meiri en sem nemur 100 þús. evrum á hverju þriggja ára tímabili.

Með frumvarpinu er því komið til móts við kröfur ESA varðandi þær sérreglur sem gilda um skattlagningu alþjóðlegra viðskiptafélaga.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.