132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[19:45]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Náttúruminjasafn Íslands. Með þessu frumvarpi er lagt til að sett verði sérlög um Náttúruminjasafn Íslands sem höfuðsafn, það er rétt að undirstrika það, sem höfuðsafn á sviði náttúrufræði í samræmi við ákvæði safnalaga, nr. 106/2001.

Í 5. gr. safnalaga er kveðið á um að höfuðsöfn skulu stofna með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra og í 5. mgr. 5. gr. laganna er Náttúruminjasafn Íslands tilgreint sem höfuðsafn á sviði náttúrufræði. Í bráðabirgðaákvæði safnalaga segir að ákvæði 5. mgr. 5. gr. komi ekki til framkvæmda fyrr en sett hafa verið sérlög um safnið í samræmi við ákvæði laganna. Með frumvarpi þessu er því lagt til að fyrrgreind ákvæði safnalaga verði uppfyllt.

Í almennum athugasemdum frumvarpsins er forsaga Náttúruminjasafns Íslands rakin frá árinu 1884 auk þess sem greint er frá húsnæðismálum safnsins og tíðum flutningum þess svo vægt sé til orða tekið. Þá er greint frá tengslum safnsins við Náttúrufræðistofnun Íslands og þeim kaflaskilum sem urðu árið 1990 þegar umhverfisráðuneytið var stofnað og Náttúrufræðistofnun Íslands færð frá menntamálaráðuneytinu til hins nýja ráðuneytis. Jafnframt er því lýst í frumvarpinu að Náttúrugripasafnið hafi tilheyrt umhverfisráðuneytinu frá stofnun þess árið 1990 en á árinu 2001 hafi orðið þáttaskil þegar Alþingi setti safnalög en samkvæmt 2. gr. þeirra fer ráðherra menntamála með yfirstjórn málefna minja- og listasafna og til minjasafna teljast menningarminjasöfn og náttúruminjasöfn. En það má segja að ástæðan fyrir því að það hefur tafist að leggja þetta frumvarp fram sé að mun erfiðara en ráð var gert fyrir reyndist að leysa úr þeim vandamálum sem fylgja aðskilnaðnum sem ég gat um, þ.e. aðskilnaði og verkaskiptingu Náttúruminjasafns og Náttúrufræðistofnunar sem nú starfa samkvæmt lögunum frá 1992.

Í frumvarpinu er hlutverk Náttúrugripasafns Íslands skilgreint og gerð grein fyrir skipulagi þess og yfirstjórn. Auk almenns hlutverks safnsins sem höfuðsafns er gert ráð fyrir að safnið hafi jafnframt rannsóknarhlutverk eins og önnur höfuðsöfn samkvæmt safnalögum þó svo að Náttúrufræðistofnun Íslands verði vísindalegur og faglegur bakhjarl safnsins og annist að verulegu leyti rannsóknarskyldu þess, samanber lög nr. 60/1992. Þetta kemur fram í 3. gr.

Frumvarpið kveður á um að þessar stofnanir skuli hafa með sér náið samstarf sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra, samanber 3. gr. frumvarpsins. Samkvæmt núgildandi safnalögum hefur Náttúruminjasafn Íslands eitt höfuðsafna ekki rannsóknarskyldu, þ.e. bæði Listasafnið og Þjóðminjasafnið hafa slíka rannsóknarskyldu, en í frumvarpinu er því ætlað þetta hlutverk. Jafnframt er lögð til breyting á safnalögum til samræmis við þetta ákvæði þannig að safnalögunum verði þá breytt líka.

Ég hef rakið efni frumvarpsins í megindráttum, frú forseti, og sé í rauninni ekki ástæðu til að fjalla frekar um einstakar greinar þess. Það er að mínu mati brýnt verkefni að við tökum þetta skref því það eru nokkuð mörg skref sem við þurfum að taka áður en við sjáum fullbúið safn á sviði náttúruminja því þetta er að mínu mati það skref, fyrsta skref sem nauðsynlegt er að taka til að forstöðumaðurinn geti farið í það að vinna að stefnumótuninni í samráði við ráðuneyti og fagaðila á þessu sviði og það getur tekið tíma. En sú vinna er afskaplega þýðingarmikil og hún þarfnast ramma og ramminn er lögin og lögin verða því að vera þannig úr garði gerð að það verði hægt að vinna að slíkri stefnumótun til lengri tíma fyrir náttúruminjar. Síðan eru önnur skref, þ.e. að vinna að þessari stefnumótun og huga að uppbyggingu Náttúruminjasafnsins þá m.a. í tengslum við húsnæði og fleira. En það hefur margt breyst í safnamálum á alþjóðavísu varðandi náttúruminjar, ekki síst á síðastliðnum 10–15 árum og það verður hið stóra verkefni hins nýja forstöðumanns í samráði við fagaðila að fara yfir hvernig best verði að hátta og haga stefnumótun á því sviði.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. menntamálanefndar.