132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[19:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er komið fram langþráð frumvarp um Náttúruminjasafn Íslands og almennt séð er það auðvitað mikið ánægjuefni að þetta frumvarp skuli loksins komið fram eftir langa mæðu og ótrúlegar fæðingarhríðir eins og er að nokkru leyti rakið í nokkuð ítarlegri greinargerð með frumvarpinu.

Það sem veldur mér mestum áhyggjum þegar ég les þetta frumvarp, sem ég hef svo sem ekki haft tækifæri til að kynna mér neitt ítarlega, er umsögn fjármálaráðuneytisins því mér finnst hún sýna betur en nokkuð annað hversu mikið er óunnið sem varðar þær áætlanir sem þarf að gera varðandi uppbyggingu þessa safns. Ég verð að segja að ég treysti því og vona að í þessari umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sé ekki fólgin nein forsögn um enn frekari drátt á uppbyggingu Náttúruminjasafnsins en ítarlegar áætlanir um byggingu safnsins og starfsemi þess lágu fyrir fyrir svo mikið sem 15 árum síðan. Það er líka rakið að hluta til í greinargerð frumvarpsins.

Ég verð að segja að mér finnst sá undirbúningur sem fór fram í þeirri nefnd sem gerði grein fyrir og skilaði af sér tillögum til ráðuneytisins um Náttúrufræðihús í Reykjavík árið 1990, hefði mátt endurspeglast betur í þessu frumvarpi, a.m.k. í greinargerð eða fylgiskjölum en jafnvel og ekki síður í beinum lagatexta. Ég hef það á tilfinningunni að stefnumörkun um uppbygginguna vanti beinlínis. Ég hefði viljað sjá betur útfærðar hugmyndir í þessu frumvarpi, sérstaklega eftir allan þennan velting málsins í kerfinu í svo langan tíma. Ég held að ég muni rétt að það hafi verið 1985, en það kemur fram í greinargerðinni, sem Alþingi Íslendinga samþykkti mjög ítarlega og vel hugsaða ályktun um að skora á ríkisstjórnina að hraða, m.a. í samráði við áhugamenn og Náttúrufræðistofnun Íslands, undirbúningi að byggingu yfir nútímalega Náttúrufræðistofnun á höfuðborgarsvæðinu. Í ályktuninni var gert ráð fyrir að byggingarundirbúningur og fjárframlög til framkvæmdanna yrðu miðuð við að unnt yrði að opna safnið almenningi á árinu 1989 eða þegar 100 ár yrðu liðin frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags og Náttúrugripasafns á þess vegum. En eins og þingheimi er kunnugt var það að frumkvæði Hins íslenska náttúrufræðifélags sem þetta safn yfir höfuð varð til og það hefði sannarlega verið reisn yfir því að opna nýtt safn þegar 100 ár voru liðin frá stofnun þess ágæta félags. Það varð ekki en ég vil halda því fram hér að þessi þingsályktunartillaga og öll sú vinna sem í kjölfarið varð, mikið af henni undir umsjón og leiðsögn hv. fyrrverandi þingmanns Hjörleifs Guttormssonar en hann var 1. flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu og formaður nefndarinnar sem síðan skilaði tillögunni til ráðuneytisins, ég vil meina að þar hafi verið útfærðar hugmyndir um stefnuna og stefnumörkun sem hefði mátt nýta og megi kannski enn nýta í þágu þessa góða máls sem hér er mælt fyrir en í öllu falli er ýmislegt óunnið í málinu.

Mér finnst kannski tilefni til að fagna því að hér skuli þó vera þannig á málum tekið að það skuli vera viðurkennt hvernig komið er fyrir safninu og safnamununum eins og þeim er fyrir komið í dag. Þeir liggja margir hverjir undir skemmdum gæti ég trúað í geymslum Náttúrufræðistofnunar Íslands og alveg nauðsynlegt og lífsnauðsynlegt fyrir löngu síðan að ráða bót í þeim efnum.

Varðandi 2. gr. og viðbótina um rannsóknirnar inn í 2. gr. þá vil ég segja þetta: Ég hef á tilfinningunni að þar þurfi að skilgreina hluti betur. Mér finnst óljóst hvað við er átt og í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að ekki sé ljóst hvað við er átt eða á hvern hátt þessar rannsóknir geti farið fram eða eigi að fara fram og á hvern hátt þetta kemur við stofnunina sjálfa, Náttúrufræðistofnun Íslands. Það segir í greinargerð að í safnalögum sé ekki samræmi á milli safna og höfuðsafna hvað verkefni og verksvið snertir. Þannig hafi Náttúruminjasafn eitt höfuðsafna ekki rannsóknarskyldu samkvæmt 5. mgr. 5. gr. safnalaga og það sé ekki ljóst, eftir því sem hæstv. ráðherra segir, að höfuðsafn þurfi að uppfylla grundvallarskilyrði safna samkvæmt safnalögum um rannsóknarskyldu. Ég vil brýna það hér strax fyrir þingheimi að við verðum að sjá til þess að þetta leiði ekki til frekari tafa á málinu eða togstreitu og þetta rýri ekki gildi eða rannsóknarskyldu Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Síðan um aðkomu umhverfisráðuneytisins á þessu máli þá vil ég segja að ég hef verið talsmaður þess að þetta sé unnið í nokkru samráði og það kom fram í svörum hæstv. menntamálaráðherra við fyrirspurn minni fyrr í vetur þegar ég var að inna hana eftir hvað liði þessu frumvarpi að mikið samráð yrði haft við umhverfisráðuneytið. Af þeim fljóta yfirlestri sem ég hef viðhaft á þessari greinargerð þá sé ég ekki eða finn ekki þessu samráði stað og sé ekki alveg á hvaða hátt umhverfisráðuneytið hefur komið að málinu en það mun örugglega skýrast í meðferð menntamálanefndar á frumvarpinu.

Ég mundi gjarnan vilja fá skýringu á orðalagi í 3. gr. sem lýtur að því að safnkostur Náttúruminjasafns Íslands ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar sé undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess og annarra aðila. Ég hef ekki áttað mig alveg á því hverjir þessir aðrir aðilar eru sem þarna gætu átt greiðan aðgang að safnakosti Náttúruminjasafns Íslands til rannsókna. Kannski er þetta almennt hugsað sem rannsóknarsafn fyrir háskólanema og þá er það auðvitað vel. Ég tel mjög mikilvægt að safnið sé í beinum tengslum við Háskóla Íslands og get þess vegna verið talsmaður þess að Náttúruminjasafn fái veglegan sess og gott og viðeigandi húsnæði, helst sem næst Háskóla Íslands til að vera í sem nánustum tengslum við háskólaumhverfið og það fólk sem þar starfar. Eftir að hið glæsilega náttúruhús reis í Vatnsmýrinni þá finnst mér einboðið að sá reitur sem fyrir nokkuð mörgum árum var tekinn frá fyrir Náttúruminjasafn við hliðina á náttúruhúsinu verði skoðaður sem heimalóð fyrir þetta safn. Ég fagna þeirri hugmynd sem fram kemur í máli hæstv. ráðherra og í frumvarpinu að Náttúrufræðistofnun Íslands og safnið verði nátengd og vonandi þá undir sama þaki líka.

Ég vil gera athugasemdir við 5. gr. varðandi það að ekki skuli vera gerð krafa um að forstöðumaður safnsins hafi háskólamenntun. Samkvæmt orðanna hljóðan er gert ráð fyrir því að það sé nóg að hann hafi staðgóða þekkingu á starfsemi safnsins. Ég tel alveg nauðsynlegt að það séu gerðar jafnríkar kröfur varðandi menntun til forstöðumanns og til forstjóra Náttúrugripasafns Íslands en samkvæmt 3. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands er gert ráð fyrir að forstjóri þeirrar stofnunar hafi háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Ég hefði talið eðlilegt að eitthvað svipað væri upp á teningnum hvað varðar forstöðumann safnsins.

Varðandi hlutverk eða skyldur þessa safns hef ég örlítið hugleitt hvort þetta sé nægilega vel skilgreint í frumvarpinu, hvort ekki megi kveða sterkara að orði og ég vitna í því sambandi til þjóðminjalaga og laga um Listasafn Íslands þar sem miklu nánar er farið út í það í beinum lagatexta á hvern hátt safnið eigi að starfa. Ég nefni 2. gr. í lögum nr. 58/1988, um Listasafn Íslands, sem segir mjög ítarlega frá því á hvern hátt Listasafn Íslands skuli sinna hlutverki sínu. Ég sakna sambærilegrar greinar í þessu frumvarpi varðandi Náttúrufræðistofnun.

Með þessu frumvarpi er lagt til að starfsemi Náttúruminjasafns verði skipað með sambærilegum hætti og starfsemi annarra höfuðsafna og í því felist m.a. að Náttúruminjasafn Íslands verði að sjálfstæðri stofnun í stað þess að vera deild hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Að því hefur auðvitað verið stefnt og við sem höfum unnið að málefnum safnalaganna vitum að þetta var niðurstaða sem hefur verið unnið að og það er vel. En í frumvarpinu er gert ráð fyrir þessu nána samstarfi Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands og því segir í greinargerðinni að æskilegt sé á þeirri forsendu að kanna möguleika á því að stofnanirnar sameinist um húsnæði og aðstöðu fyrir þessa starfsemi.

Ég vil ítreka að þetta sé inni í greinargerðinni og við þetta var einmitt miðað í tillögum þeirrar nefndar sem ég fjallaði um áðan og skilaði af sér tillögum 1990 og í þeim tillögum var gerð ítarleg áætlun um á hvern hátt þessi tengsl gætu verið.

Frú forseti. Að lokum tel ég að það þurfi að skoða mjög gaumgæfilega þessa umsögn frá fjármálaráðuneytinu því mér finnst hún sýna að ýmsu sé ábótavant hvað varðar undirbúning. Það er ekki nægilegt að við samþykkjum frá Alþingi Íslendinga lög um Náttúruminjasafn Íslands ef við sjáum ekki fyrir okkur með hvaða hætti sú stofnun á að lifa eða hvers konar stofnun þetta eigi að verða. Þegar engin stefnumörkun um uppbygginguna er til staðar þá sé ég ekki annað en hér gætum við lent í verulegum vandræðum þegar á að fara að fjármagna safnið á fyrstu árunum sem það kemur til með að starfa og ég á auðvitað þá ósk heitasta að þessi stofnun komi til með að fá ríkulega fjármuni frá hinu opinbera til að ná að skjóta rótum og blómstra því það á hún sannarlega skilið eins og búið hefur verið að safngripunum og þessum þætti hingað til. Það er kominn tími til að við tökum myndarlega á. Til þess að það verði gert tel ég að það þurfi að gera áætlun um uppbygginguna og ég er sannarlega þess fýsandi að menntamálanefnd geti lagt sitt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum og gert þetta mál á endanum þannig úr garði að virkilegur sómi verði að og að ríkisstjórnin átti sig líka á því að það þurfi að fylgja þessu máli vilyrði og vilji til að fjármagn verði sett í stofnunina svo hún nái að skjóta rótum og blómstra.