132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[20:02]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka góðar ábendingar frá hv. þingmanni og beini því sérstaklega til nefndarinnar að taka þær ábendingar vel til skoðunar. Ég vil þó árétta nokkur atriði. Í fyrsta lagi vegna þess inngangs sem er settur fram í athugasemdum með frumvarpinu. Ég taldi nauðsynlegt að menn sæju heildarmyndina, hvað er búið að gera og menn áttuðu sig á líka hvaða gögn liggja til grundvallar.

Ég veit að þeir nefndarmenn sem komu að undirbúningi þessa frumvarps á sínum tíma og skiluðu þessu til mín veltu því lengi fyrir sér hvort draga ætti inn í sjálfan lagatextann þessa skýrslu sem hv. þingmaður m.a. bendir á frá 1990. Menn eru sammála um að nauðsynlegt er að koma í gegn lögum sem eru rammalöggjöf, sem eru ekki niðurnjörvandi heldur rammi sem kemur til með að styðja við þá mikilvægu vinnu sem er næsta skref sem er stefnumótunarvinna forstöðumannsins. Hann þarf til þess ákveðið umhverfi sem snertir bæði hans umhverfi sem og annarra starfsmanna. Við höfum fengið þær upplýsingar að slík stefnumótunarvinna kemur til með að taka nokkuð langan tíma af því að hún er það umfangsmikil og hún er það þýðingarmikil. Lögin verða þess vegna að komast í gegn þannig að sú stefnumótunarvinna hafi stuðning í því frumvarpi sem er hér til umræðu.

Það kann vel að vera að menn meti það í þeirri stefnumótunarvinnu að draga inn það sem kemur fram í skýrslunni frá 1990. Menn hafa m.a. velt því fyrir sér hvort allt sem þar kemur fram, m.a. samvinna við HÍ og hvernig á að byggja upp það safn, hvort það sé í takt við nútímasafnastefnu eins og hún hefur þróast á umliðnum árum. Þess vegna tel ég mikilvægt að við mótum þessa umgjörð sem verði stuðningur fyrir forstöðumennina og þá starfsmenn sem verða hjá Náttúruminjasafninu þannig að við getum öll sammælst um að fara í þá vinnu, ráðuneyti, forstöðumenn og stofnunin ásamt öllum þeim fagaðilum sem hlut eiga að máli til að móta uppbyggilega safnastefnu á sviði náttúruminja.