132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[20:06]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum sem eru í menntamálanefnd fyrir góða vinnu í tengslum við Árnastofnun og það frumvarp sem er komið núna út með nefndaráliti. Það hefur afskaplega góð vinna verið unnin í menntamálanefnd og það ber að þakka.

Ég vil þó geta þess að varðandi þetta frumvarp erum við að reyna að meginstefnu til að byggja það upp eins og lagarammann í kringum Listasafn Íslands og Þjóðminjasafnið af því að í safnalögum eru þrjú höfuðsöfn talin. Þar er ekki Árnastofnun af því að hún er annars eðlis. Þar er Þjóðminjasafnið, Náttúruminjasafnið og síðan Listasafnið þannig að við erum að reyna að haga umgjörð þessara höfuðsafna með svipuðum hætti. Þess vegna drögum við m.a. fram og hv. þingmaður kom inn á það áðan varðandi rannsóknarskylduna að Náttúruminjasafnið hafi ákveðna rannsóknarskyldu. Öll meginsöfn á alþjóðavísu hafa rannsóknarskyldu. Við gerum það reyndar með aðeins öðrum hætti og undirstrikum mikilvægi þessara tengsla við Náttúrufræðistofnun Íslands sem við teljum afar mikilvæga. Ég undirstrika það sem ég sagði í svari mínu fyrr í vetur til hv. þingmanns að ég tel mikilvægt að góð samvinna verði þarna á milli sem og á milli menntamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis varðandi skipulagningu alla í þessu máli.

Engu að síður er það þannig að eitt er að sinna rannsóknarskyldu á sviði safna og annað á sviði fræða. Við vitum það og það er eitt og annað sem hefur komið upp sem við teljum rétt að Náttúruminjasafnið hafi þá svigrúm til þess að mæta óvæntri þörf varðandi rannsókn á t.d. uppsetningu stoðsýninga. Þess vegna er þetta ákvæði sett svona fram að það er möguleiki fyrir safnið og forstöðumenn þess að leita þá til annarra ef svo ber undir og ef svo háttar til. Menn hafa verið að nefna Veðurstofuna, Háskóla Íslands og fleira og fleira. Reyndar líka þá aðila sem við sjáum heyra undir þá grein sem hv. þingmaður kom inn á, þ.e. 2. mgr. 3. gr. hverjir þeir væru þessir aðrir aðilar. Ég sé fyrir mér eins og kemur fram í greinargerðinni að það séu aðilar eins og Háskóli Íslands og Veðurstofan.