132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[20:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég sé ekki annað, frú forseti, en við hæstv. ráðherra séum sammála um að hér þurfi að rísa sterk stofnun sem hafi alla burði til þess að vera öflug vísindastofnun og um leið nútímalegt safn. Ég minni á alla þá stefnumótunarvinnu sem átti sér stað þegar Þjóðminjasafn Íslands var opnað á nýjan leik. Við sjáum það náttúrlega í hendi okkar þegar við heimsækjum hið glæsilega safn Þjóðminjasafnið hvernig sú stefnumótunarvinna hefur skilað sér. Ég sé ekki annað en hér þurfi að fara fram eins og ég segi svipuð stefnumótunarvinna. Hvar nákvæmlega í ferlinu hún á sér stað getum við svo kannski komist að samkomulagi um en í öllu falli held ég að nefndin verði í sinni vinnu að skoða gaumgæfilega á hvern hátt hún geti komið að þeirri stefnumótunarvinnu. Mér finnst ekki óeðlilegt að löggjafinn sé með í því og leggi sín lóð á vogarskálarnar og tryggi að sjónarmið þingheims alls nái sem lengst í þessu máli. Það tel ég farsælt fyrir málið sjálft og hina væntanlegu stofnun.