132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[20:37]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er hálfhlessa yfir þeim hlýindum sem stöfuðu frá ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem mér fannst merkileg fyrir margra hluta sakir.

Ég er hins vegar innilega sammála honum hvað það varðar að við eigum og erum að stefna að því að koma hér upp alvörustofnun á þessu merkilega sviði. Við viljum þess vegna gera þetta með myndarlegum hætti. Ef hv. þingmaður hefur hlustað á það sem ég hef sagt fyrr í dag í þessari umræðu þá er það algert lykilatriði að hér verði samþykkt lög, ákveðinn rammi til að taka þetta skref sem er svo mikilvægt og það er stefnumótunin sem slík.

Það er gríðarleg stefnumótun eftir og ég tel mikilvægt að þá stefnumótun muni forstöðumaðurinn leiða sem hv. þingmaður er mjög hæfur til að gegna. Það er alveg ljóst að hv. þingmaður Mörður Árnason undirstrikaði það að hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson gæti fyllilega gegnt forstöðumannsstarfinu í þessari merkilegu stofnun. En ég tel brýnt að forstöðumaðurinn hafi svigrúm og tækifæri til þess og stuðning. Bæði stuðning frá ráðuneytinu en líka fjárhagslegan til að sinna þessari stefnumótun í samráði þá fyrst og fremst við fagaðila, ráðuneytið en ekki síður ráðuneyti umhverfismála sem ég veit að hv. þingmaður var í forstöðu fyrir á sínum tíma.

En ég vil sérstaklega vekja athygli á því, með leyfi forseta, sem stendur í greinargerðinni á bls. 4. Þar segir m.a.:

„Unnið var á vegum umhverfisráðuneytis að undirbúningi hins nýja safns 1990–1992 með það fyrir augum að starfsemi gæti hafist í nýju húsi árið 1995 … Málið strandaði þegar fjárlaganefnd Alþingis samþykkti ekki tillögu ríkisstjórnarinnar …“

Ég veit ekki betur en Sjálfstæðisflokkurinn hafi setið í þessari ríkisstjórn. Það er ekki rétt sem hefur komið fram hjá hv. þingmanni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið í vegi fyrir þessu máli. (Forseti hringir.) Miklu frekar hefur Sjálfstæðisflokkurinn stuðlað að því að (Forseti hringir.) þetta mál komist áfram en því miður ekki nægilega vel og með jafnöflugum hætti og allir vildu séð hafa.