132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.

695. mál
[20:42]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 127. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Sú meginbreyting hefur verið gerð á frumvarpinu frá fyrri útgáfu þess að skýrar er kveðið á um rétt löggjafans til að hafa afskipti af sýningu, sölu og dreifingu kvikmynda og tölvuleikja til verndar velferð barna. Það er rétt að undirstrika þessi sjónarmið með stoð í þeim sjónarmiðum sem koma fram í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Í hinu tilvitnaða stjórnarskrárákvæði segir að börnum skuli tryggja í lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Eins og rakið er í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum árið 1995 nr. 97 heimilar ákvæðið undantekningar frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til verndar börnum. Er því ljóst að tjáningarfrelsi 73. gr. stjórnarskrárinnar stendur ekki í vegi fyrir að lögfestar verði reglur um bann við aðgangi barna að ofbeldiskvikmyndum og tölvuleikjum, sem og kvikmyndum og tölvuleikjum sem kunna að ógna velferð þeirra.

Í samræmi við þetta er talið rétt að löggjafinn hafi afskipti af sýningu, sölu og dreifingu kvikmynda og tölvuleikja til verndar velferð barna og ungmenna. Ég vona að við þurfum ekki að deila um þetta atriði.

Við samningu frumvarps þessa var einnig tekið mið af þeirri stefnu sem þegar hefur verið mörkuð í ríkisstjórn, að opinber eftirlitsstarfsemi skuli ekki vera umfangsmeiri en þörf er á, samanber lög um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27 frá 1999. Samkvæmt lögunum starfar sérstök ráðgjafarnefnd, skipuð af forsætisráðherra að framkvæmd laganna og skal starf nefndarinnar miða að því að opinberar eftirlitsreglur séu í samræmi við þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því, sem og að eftirlit á vegum hins opinbera sé jafnan eins hagkvæmt og kostur er fyrir þau fyrirtæki og einstaklinga sem eftirlitið beinist að og fyrir hið opinbera. Nefndin getur beint tilmælum til forsætisráðherra og annarra ráðherra um að eftirlitsreglur verði endurskoðaðar.

Ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur hefur meðal annars fjallað um eftirlitsstarfsemi á vegum Kvikmyndaskoðunar, sem starfar samkvæmt lögum nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Í bréfi til menntamálaráðherra, dags. 1. ágúst 2000, benti nefndin á að með lögum nr. 47/1995 væri ekki gætt jafnræðis milli atvinnugreina þar sem eftirlit Kvikmyndaskoðunar beindist aðallega að starfsemi kvikmyndahúsa og dreifingaraðila myndbanda, en sjónvarpsstöðvar væru nánast að öllu leyti undanþegnar því beina eftirliti sem lögin kveða á um.

Lagði nefndin til að Kvikmyndaskoðun yrði lögð niður og lög um hana felld úr gildi, en barnaverndarsjónarmiða yrði gætt með öðrum hætti en lögin gerðu ráð fyrir. Með frumvarpinu er einnig fylgt eftir þeim sjónarmiðum er liggja að baki heildarendurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar frá árinu 1995, einkum að því er varðar, eins og ég gat um áðan, 73. gr. um heimildir stjórnvalda til að setja tjáningarfrelsi mörk, m.a. til verndar siðgæði og í þágu allsherjarreglu.

Frá árinu 1996 hefur ráðherranefnd Evrópuráðsins haft þemaeftirlit með efndum aðildarríkja Evrópuráðsins á skuldbindingum sínum. Meðal þema sem sætt hafa skoðun eru tjáningar- og upplýsingafrelsi. Í skýrslu ráðherranefndar Evrópuráðsins frá júlí 2003 kemur fram að ástæða sé til þess að taka til skoðunar reglur um kvikmyndaeftirlit á Íslandi. Í skýrslunni segir nánar að lög um skoðun kvikmynda hér á landi leggi bann við framleiðslu og dreifingu ofbeldiskvikmynda og að sex manna kvikmyndaskoðunarnefnd, skipuð af menntamálaráðherra, skoði allar kvikmyndir fyrir opinbera sýningu þeirra. Í skýrslu ráðherranefndarinnar er dregin sú ályktun að hið lögmælta fyrirkomulag sem er á skoðun kvikmynda hér á landi kunni að fela í sér brot gegn stjórnskipunarvernduðum rétti gegn ritskoðun, sbr. 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Í niðurstöðukafla skýrslu ráðherranefndarinnar segir að endurskoða beri fyrirkomulag kvikmyndaskoðunar hér á landi sem felist í því að allar kvikmyndir séu skoðaðar fyrir sýningu þeirra.

Í samræmi við þetta sem ég hef nú sagt tel ég rétt að kvikmyndaskoðun af hálfu ríkisvaldsins, eins og hún hefur lengi verið framkvæmd hér á landi samkvæmt settum lögum, nú síðast lögum nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, verði afnumin, enda ber sú skipan sem gilt hefur öll einkenni ritskoðunar. Í samræmi við þau sjónarmið sem hér hefur verið lýst og m.a. koma fram í frumvarpinu er gert ráð fyrir að bannað verði að sýna ungmennum undir lögræðisaldri ofbeldiskvikmyndir og tölvuleiki eða kvikmyndir og tölvuleiki sem ógna velferð barna og bönnuð verði sala og önnur dreifing á slíku efni til barna undir lögræðisaldri, þó þannig að allar kvikmyndir megi hafa til sýningar opinberlega fyrir börn sem náð hafa 14 ára aldri, enda horfi þau á myndina í fylgd foreldris eða forsjáraðila, eins og segir í 4. gr. frumvarpsins.

Ábyrgðaraðilar samkvæmt frumvarpinu eru þeir sem framleiða kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar eða notkunar hér á landi, hafa kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar, leigu, sölu eða annarrar dreifingar í atvinnuskyni, eftir því sem við á í hverju tilviki. Ábyrgðaraðilarnir bera ábyrgð á framkvæmd laganna undir eftirliti Barnaverndarstofu og lögreglu. Felur þetta í sér eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að ábyrgðaraðilar skuli setja sér verklagsreglur sem taka til mats á kvikmyndum og tölvuleikjum að fyrirmynd viðurkenndra erlendra skoðunarkerfa. Verklagsreglurnar skulu jafnframt taka til framkvæmda við eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum í kvikmyndahúsum, sölustöðum kvikmynda og tölvuleikja og myndbandaleigum. Í verklagsreglunum skal enn fremur lýsa ferli vegna kvartana neytenda um framkvæmd laganna. Framangreindar reglur skulu birtar almenningi opinberlega á vefsíðu ábyrgðaraðila, kvikmyndahúsum, sölustöðum og myndbandaleigum. Þar skal jafnframt tilgreina nafn matsstjóra og ábyrgðaraðila. Barnaverndarstofu er heimilt að láta fara fram úttekt á framangreindum verklagsreglum og framkvæmd þeirra á kostnað viðkomandi ábyrgðaraðila.

Í öðru lagi er ábyrgðaraðila skylt að meta eða láta meta allar kvikmyndir og tölvuleiki sem ætlaðar eru til sýningar eða notkunar fyrir börn undir lögræðisaldri. Það er nýmæli að meta skuli tölvuleiki og kvikmyndir sem sýndar eru í sjónvarpi. Niðurstöður mats skulu birtar opinberlega og þeim viðhaldið í gagnagrunni sem almenningur skal hafa aðgang að.

Í þriðja lagi er ábyrgðaraðilum skylt að láta þess getið alls staðar þar sem það á við ef kvikmynd eða tölvuleikur telst vera ofbeldiskvikmynd eða -tölvuleikur eða kvikmynd eða tölvuleikur telst ógna velferð barna.

Í fjórða lagi: Ábyrgðaraðilum er skylt að merkja greinilega kvikmyndir og tölvuleiki og umbúðir þeirra um matsniðurstöðu og það hvort mynd eða leikur er aðeins ætlaður til sýningar eða notkunar fyrir fullorðna einstaklinga

Skylt er að geta um mat kvikmynda eða tölvuleikja í auglýsingum og annars konar kynningu á þeim og geta þess ef mynd eða leikur er einungis ætlaður til sýningar eða notkunar fyrir fullorðna.

Í sjötta lagi er ábyrgðaraðilum skylt að hafa eftirlit með því að aðgangur að sýningum og afhending á kvikmyndum eða tölvuleikjum sé fyrir hendi. Í þessu felst jafnframt nýmæli þar sem ekkert slíkt eftirlit er nú viðhaft á sölustöðum fyrir tölvuleiki.

Í sjöunda lagi hefur Barnaverndarstofa eftirlit með framkvæmd mats á sýningarhæfni kvikmynda og tölvuleikjaeftirlit með framkvæmd mats á sýningarhæfni kvikmynda og tölvuleikja með framangreindum úttektum. Barnaverndarstofa fer einnig með stöðvunarheimild á sýningu eða dreifingu kvikmyndar eða tölvuleiks og tekur þátt í endurmati á sýningarhæfni kvikmyndar eða tölvuleiks.

Brot á ákvæðum frumvarpsins eða laganna varða refsingu eða fangelsi í allt að sex mánuði.

Að öðru leyti, frú forseti, vísa ég til ákvæða frumvarpsins og ítarlegrar greinargerðar þess og vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar.