132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Jarðalög.

739. mál
[21:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér varð bylt við undir ræðu hæstv. ráðherra. Er hugsanlegt að skilningarvitin hafi brugðist mér að þessu sinni? Heyrði ég rétt, að hæstv. landbúnaðarráðherra væri að beita sér fyrir lagabreytingum sem leiði til þess að óðalsjörðin muni hverfa sem hugtak úr íslenskum lögum? Fyrr átti ég á dauða mínum von en því að þessi ágæti hæstv. landbúnaðarráðherra, sem alltaf hefur verið dygg stoð fyrir allt sem er gamalt og gott, skuli vera forkólfur að slíkri breytingu. Ég dreg mjög við mig að lofa hæstv. ráðherra stuðningi við þetta. Ég tel að óðalsbóndinn sé tignarheiti sem fylgt hafi landbúnaði á Íslandi frá upphafi sögunnar. Mér er mjög til efs að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi nokkurn sögulegan rétt til að verða sá maður sem ýtir þessu fyrir ætternisstapa.

Á hinn bóginn langar mig að spyrja: Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra, sem alltaf hefur barist fyrir byggð og því að jarðir og land þjóðarinnar væru í byggð, skuli ekki nota ferðina, fyrst hann á annað borð er að breyta jarðalögum, og beita sér fyrir breytingum sem girða fyrir að auðkýfingar í mínu kjördæmi fari ekki sem logi yfir akur og kaupi upp jarðir um allt land og komi í veg fyrir að þeir sem vilja festa rætur í moldinni geri það? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að hann hefur ekki beitt sér fyrir breytingu til að koma í veg fyrir þessa svakalegu þróun sem hefur átt sér stað undir forustu hans? Hann hefur reyndar ekki beitt sér fyrir því en hann hefur látið það átölulaust, þrátt fyrir allt það sem hann hefur sagt um vilja sinn til að land sé byggt og til að efla hag og rétt smábænda og afkomenda þeirra.