132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:06]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að vekja athygli á þessu máli og þeim dómi Hæstaréttar sem féll þann 6. apríl sl. og varðar tóbaksvarnalögin. Þessi dómur er merkilegur fyrir margra hluta sakir og niðurstaða hans er kannski sú að þegar tóbaksvarnalögin voru sett, þ.e. þetta ákvæði um að banna að þessar vörur sem þó eru löglegar og háðar einkasölu frá ríkinu séu sýnilegar í búðum — að slík regla brjóti gegn 73. og 75. gr. stjórnarskrárinnar.

Hvað segir þessi dómur okkur? Hann ætti náttúrlega að kenna löggjafanum að ganga ekki of langt gegn stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga en nauðsynlegt er, jafnvel þó svo að tilgangurinn að baki slíkri reglusetningu kunni að vera góður eða göfugur. Þetta hlýtur náttúrlega að leiða hugann að því frumvarpi sem nú er til meðferðar í hv. heilbrigðisnefnd. Ég fæ ekki betur séð en að það frumvarp hljóti að vera í töluverðu uppnámi vegna þess að í því er kveðið á um einhverjar hörðustu takmarkanir í þessum málaflokki sem um getur í Evrópu, eða í heiminum. Ég skora á heilbrigðisnefnd að taka þetta mál og þennan dóm til vandlegrar umfjöllunar í tengslum við það frumvarp.

Síðan er ástæðulaust að sleppa því, frú forseti, að nefna það að þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem niðurstöður Hæstaréttar í málum eru ræddar hér, þar sem rétturinn kemst að þeirri niðurstöðu að löggjafinn hafi farið út fyrir heimildir sínar. Þá eru alltaf fastagestir í ræðustól Alþingis sem krefjast þess að einhverjir, fyrst og fremst ráðherrar, segi af sér. Ég nefni sem dæmi hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Steingrím J. Sigfússon og Ögmund Jónasson. Maður veltir því fyrir sér í ljósi þeirra krafna sem margoft hafa (Forseti hringir.) komið fram: Ætla þessir hv. þingmenn að sæta ábyrgð því að það voru þeir sem samþykktu þau lög sem nú hafa verið dæmd sem brot (Forseti hringir.) á stjórnarskránni? Ætla þeir að segja af sér? Eða hvernig ætla þeir að axla ábyrgð sína sem hluti af löggjafanum?

(Forseti (SP): Hv. þingmenn hafa hér ákveðinn tíma til að flytja sitt mál og eiga að virða það.)