132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:10]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að taka þetta mál upp, enda er þetta athyglisverður dómur sem hann vísar til. Segja má að ljóst sé af þessum dómi, annars vegar eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz benti á, að löggjafanum er heimilt að setja vissar takmarkanir gagnvart viðskiptum með tóbak á grundvelli heilbrigðisforsendna en hins vegar er líka ljóst af dómnum að löggjafanum er ekki heimilt að setja hvaða takmarkanir sem er. Í sjálfu sér eru það kannski helstu nýmælin, að mínu mati, í dómnum að undirstrikað er að gæta verður meðalhófs þegar settar eru reglur af þessu tagi. Það er ekki sama hvaða reglur eru settar eða hvernig þær eru mótaðar, það verður að sjálfsögðu að taka tillit til meðalhófssjónarmiða og taka tillit til stjórnarskrárákvæða sem vernda atriði eins og atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi. Mikilvægt er að það verði haft í huga þegar hv. heilbrigðisnefnd tekur málið til frekari umfjöllunar, bæði að því er varðar það tiltekna efnisatriði sem fjallað var um í dómnum og eins önnur atriði sem geta orkað tvímælis út frá atvinnufrelsis- og raunar tjáningarfrelsissjónarmiðum líka.

Ég nefni í því sambandi atriði í núgildandi tóbaksvarnalögum sem kveður á um verulegar takmarkanir fyrir fjölmiðlaumfjöllun um tóbak þar sem m.a. er bannað að nefna einstakar tóbakstegundir á nafn í fjölmiðlum öðruvísi en að vara við skaðsemi þeirra. Það er alveg ljóst, að mínu mati, að þetta atriði er á mjög gráu svæði þegar litið er til samspils tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og þeirrar heimildar sem löggjafinn hefur til að takmarka verslun og umfjöllun um tóbak.

Mikilvægt er að þetta atriði verði einnig skoðað (Forseti hringir.) ásamt öðrum þeim atriðum í nýju frumvarpi til tóbaksvarnalaga sem vissulega geta einnig stangast á við frelsisreglur stjórnarskrárinnar.