132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:21]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Sú tilkynning sem þú fluttir rétt áðan er að mínu viti fáheyrð og ákaflega undarleg. Í henni er tekið fram að tiltekin frumvarpsdrög séu trúnaðarmál en þau muni ekki koma fram nema samkomulag sé um þau. Næsta spurning er: Hverjir eru það sem eiga að gera það samkomulag? Eru það þingmenn? Eru það örfáir menn? Er það forseti og forsætisráðherra? Hvernig er hægt að halda frumvarpsdrögum sem trúnaðarmáli gagnvart þeim sem eiga að ná um það samráði? Samráð hefur ekki farið fram. Það er kannski m.a. vegna þess að það lögfræðiálit sem hér var líka rætt og komið er upp núna í fyrsta sinn að til sé, vegna þess að ég geri ráð fyrir að þeir sem það hafa séð hafi haldið trúnaðinum, er væntanlega líka trúnaðarmál. Þó er verið að ræða í fjölmiðlum þessa dagana og í almennri umræðu þessi lífeyrismál. Á það benti, ég held ég fari rétt með, Jóhann Hauksson blaðamaður, í Fréttablaðinu að það væri dómur í máli sem varðaði Landsbankann, ég held að það hafi verið þannig, Landsbanka og Seðlabanka sem hafi fallið á öfugan veg við það sem Halldór Ásgrímsson, hæstv. forsætisráðherra, heldur fram. En lögfræðiálitið er trúnaðarmál.

Nú þarft þú, forseti, að gera hreint fyrir þínum dyrum og skýra fyrir okkur hvers vegna þetta er trúnaðarmál, eða sem betra væri, að opinbera þá pappíra sem þú hefur hér skýrt frá.