132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:23]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Menn fara mikinn í umræðum um störf þingsins og ég held að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi gleymt einhverjum flutningsmönnum þegar hann var að ræða um eftirlaunafrumvarpið en hann mun örugglega leiðrétta það við gott tækifæri.

Ég vil aðeins ræða eitt út af því að hér hafa menn verið að gagnrýna störf þingsins, þ.e. að hér hafi ekki verið haft nægt samráð við stjórnarandstöðu í tengslum við starfsáætlun og starfshætti þingsins. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér þykir þetta afskaplega sérkennilegur málflutningur. Það er alveg vitað og við þekkjum það að afskaplega mikið samráð er haft við stjórnarandstöðuna hvað þetta varðar. En það segir sig hins vegar alveg sjálft og það sér hver maður að ef menn standa í málþófi, ef hingað kemur þingmaður og talar í sex tíma og aðrir eru að halda ræður í einhverja klukkutíma, hefur það áhrif á störf þingsins. Sér það ekki hver maður? (Gripið fram í.) Er það ekki frekar einfalt? (Gripið fram í: ... að breyta fundarsköpum.) Og er það virkilega þannig, virðulegi forseti, að mönnum finnist það eðlilegt að ef menn taka upp á því í stjórnarandstöðu, í minni hluta á þinginu, að vera í málþófi þá eigi menn bara að skúbba málum í burtu? Er það virkilega svo að mönnum lítist þannig á að þeim finnist það lýðræðislegt og eðlilegt að í hvert skipti sem stjórnarandstaðan ákveður að fara í málþóf eigi hún að ná fram sínum vilja? Ég held að hver maður sjái að það gengur ekki upp. Ef menn hafa áhyggjur af starfsáætlun og starfsháttum þingsins hjá stjórnarandstöðunni þá ættu þeir eðlilega að líta í eigin barm og kannski fara aðeins að takmarka sig í þessum málþófsræðum. Það sér hver maður. Það vita allir að þegar menn halda sex tíma ræður er það ekki vegna þess að menn ætla að koma einhverjum efnisatriðum á framfæri. Menn eru að reyna eitthvað annað.