132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[12:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er alveg greinilegt að dagskrá þingsins, störf og stjórnin er komin verulega úr skorðum. Í dag átti samkvæmt uppsettri dagskrá að vera fyrirspurnadagur sem hefð hefur verið fyrir. Lög um þingsköp mæla svo fyrir um að til þess skuli vera settir ákveðnir dagar.

Ég er t.d. með fyrirspurn sem er ósvarað. Eins og hefur komið fram eru fyrirspurnirnar 32 en reyndar bíða 34 fyrirspurnir munnlegs svars. Ég hef fengið útskrift um þær. Ég er sjálfur með fyrirspurn sem var dreift 16. mars sl. Hún fjallar um ívilnanir stjórnvalda til álvera, hvernig stjórnvöld geta ívilnað álverum sérstaklega, í tilefni viðtals við hæstv. iðnaðarráðherra sem ber álver sérstaklega fyrir brjósti. Ég vildi fá það skýrt út hvernig ívilnanir stjórnvalda til álvera eru af því að hún kom inn á það í fréttaviðtali að hægt væri að ívilna álverum, sérstaklega á landsbyggðinni, umfram önnur fyrirtæki. (Forseti hringir.) Þessa spurningu, frú forseti ...

(Forseti (SP): Hv. þingmaður er hér að ræða um fundarstjórn forseta en ekki efnislega um fyrirspurn sem hann hefur lagt fram.)

Frú forseti. Ég kem að efnislegum atriðum sem varða þingsköp Alþingis sem hæstv. forseti er ábyrgur fyrir. Þessi spurning var borin fram 16. mars. Í þingskapalögum segir í 49. gr., með leyfi forseta:

„Á sérstökum þingfundi skal forseti taka á dagskrá fyrirspurnir er útbýtt hefur verið í síðasta lagi þremur virkum dögum fyrir fundinn. Fyrirspurn skal þó að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að henni var útbýtt.“ — Ég vona að hæstv. forseta sé kunnugt um þingsköpin.

Þessi fyrirspurn er orðin mánaðargömul og ég bjóst við að hún kæmi þá á dagskrá í dag því nú er fyrirspurnadagur. Ég spyr þá hæstv. forseta:

Er það forsvaranleg fundarstjórn og starfshættir þingsins að fella svo á brott þennan fyrirspurnadag?

Hvenær get ég þá vænst þess að forseti uppfylli lögin um þingsköp Alþingis og ég fái fyrirspurn minni svarað?