132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[12:58]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta og mun einmitt fjalla um fundarstjórn forseta.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það að í dag átti, eins og komið hefur verið inn á, að vera fyrirspurnatími. Ég á inni liggjandi fyrirspurn sem er komin langt á annan mánuð í bið og er það ekki í fyrsta skipti sem það hendir mig. Það er með hreinum ólíkindum hvernig fyrirspurnir eru afgreiddar hérna. Ráðherrarnir virðast velja fyrirspurnir sem þeim hentar að svara þegar þeim hentar að svara þeim, eins og konfektmola úr öskju, sem er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Ekki er farið eftir málsnúmerum. Ég hef áður skorað á hæstv. forseta að taka sig til og beina því til ráðherra að þeir svari fyrirspurnum á skikkanlegum tíma og velji ekki úr þær auðveldustu til að svara og geymi þær sem eru þeim erfiðari eins og verið hefur.

Virðulegi forseti. Það er annað mál sem ég vildi aðallega gera að umtalsefni hér. Að mínu mati hefur stjórn þingsins verið algjör skrípaleikur á undanförnum vikum. Það var fundur til kl. 5.30 að morgni í þarsíðustu viku sem er auðvitað ekki boðlegt. Ég tel að okkur þingmönnum sé mismunað með slíkum vinnubrögðum þegar það er enginn fyrirvari trekk í trekk um kvöld- og næturfundi. Þeim er dembt yfir okkur með engum fyrirvara þannig að við sem höfum að börnum að huga heima við (Forseti hringir.) höfum ekki aðstöðu (Forseti hringir.) eða getu til að gera ráðstafanir.

(Forseti (SP): Er hv. þingmaður að bera þinghaldið saman við skrípaleik?)

(Gripið fram í: Hvað … tala um?) (SigurjÞ: Vítahring ...) Ég er að lýsa minni sýn á það sem hér hefur verið í gangi að undanförnu og ég er að rökstyðja það.

(Forseti (SP): Hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn. Forsetar sem sitja hér hverju sinni stýra þinghaldi í samræmi við þingsköp.)

Frú forseti. Ég er að lýsa minni sýn á þetta vegna þess atburðar sem hér varð þegar við vorum á fundi til kl. 6 að morgni. Það er verið að mismuna okkur þingmönnum vegna mismunandi möguleika okkar á að standa hér í ræðustól og taka þátt í umræðum á kvöld- og næturfundum sem eru settir á með engum fyrirvara. Það er það sem ég er að tala um. Slík vinnubrögð eru auðvitað ekki eins og hjá fólki, frú forseti, vegna þess að það er réttur okkar þingmanna að geta verið hér þegar umræður eru í gangi, það er réttur okkar að geta tekið þátt í þeim umræðum sem við kjósum og með þessu er beinlínis verið að hamla okkur sem erum með börn heima við og getum ekki með stuttum fyrirvara komið hingað á miðnætti og staðið til kl. 6 á morgnana.

Frú forseti. Þegar ég var á mælendaskrá um Ríkisútvarpið lenti ég í (Forseti hringir.) því að það vofði yfir mér alla nóttina að þurfa að hringja út barnapíu eða hreinlega mæta með barnið hér um miðja nótt. Með það fór ég heim það kvöld og slík vinnubrögð (Forseti hringir.) ganga auðvitað ekki, frú forseti.