132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[13:11]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Úr ræðustól forseta kom áðan í miðju máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur sú athugasemd við aðfinnslur hennar um fundarstjórn kvöldið góða, þegar haldin var sex tíma ræðan og verið var að til klukkan 6 því að hv. þm. Pétur Blöndal tók við af hv. þm. Ögmundi Jónassyni það kvöld og talaði til klukkan 6, að farið hefði verið að þingsköpum. Sá forseti sem þetta sagði er aðalforseti þingsins og hún sagði þetta í apríl og hefur þá væntanlega verið búin að gleyma því sem hún sagði sjálf í október þegar þing var sett með þeirri ágætu ræðu forseta þingsins, nýkjörinnar þá, að nú ætti að snúa við hinu stóra skipi Alþingis hvað starfshættina varðaði og gera þá fjölskylduvænni, gera þá þannig að menn gætu unnið í sæmilegum friði og sæmilegum áföngum það mikilvæga starf sem okkur hefur verið falið.

Þetta entist sem sé hálfan vetur og síðan er núna stefnan orðin sú hjá forsetanum að farið skuli að þingsköpum. Það er það sem eftir er af hinni fjölskylduvænu stefnu forsetans frá því 1. október að farið skuli að þingsköpum.

Nú er það svo að þessa nótt var ég — af því að í þessu máli sem hér verður rætt á eftir og var rætt þarna þessa nótt var og er ég framsögumaður minni hluta menntamálanefndar og sem slíkur ber ég meiri ábyrgð en eingöngu á sjálfum mér. Það er allt í lagi að það komi fram í framhaldi af ræðu Katrínar Júlíusdóttur og þessari athugasemd forseta að tveir næstu ræðumenn úr mínum flokki, á eftir þeim Ögmundi Jónassyni og Pétri Blöndal, voru þannig staddir þessa nótt að þeir voru einir heima með börn. Ég átti erfitt með það, þó að ég vissi að þeir mundu báðir hlýða kallinu með einhverjum hætti, að vekja þá upp og biðja þá að koma niður í þing til þess að vera við öllu búnir og þurfa þá að útvega pössun fyrir börnin það sem eftir lifði nætur. Er hin fjölskylduvæna stefna forseta Alþingis að menn séu settir í þessa stöðu?

Að þingsköpum? Já, hugsanlega. En þingsköp segja líka í 8. gr. að forseti stjórni ekki aðeins umræðum, heldur sjái líka um að allt fari fram með góðri reglu. Ég geri ráð fyrir að algengasta túlkun þeirrar greinar, og hin sjálfsagða, sé sú að þingmenn hagi sér sæmilega, séu ekki með ólæti, rifrildi eða uppþot. En það á líka við um forsetana, þeir verða að gæta að því að fundunum sé stjórnað með góðri reglu, forseti.