132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[13:23]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Áður en ég hef mál mitt vil ég fá að grennslast fyrir um það hjá hæstv. forseta hvort hæstv. menntamálaráðherra sé í húsi og verði viðstödd þessa umræðu þar sem dagskrá hefur verið breytt til að koma þessu máli að og fyrirspurnir teknar út. Þetta mál er álitið svo merkilegt og mikilvægt, sem það að sjálfsögðu er, að ég hefði talið að gerðar yrðu ráðstafanir til að hæstv. menntamálaráðherra væri í húsi. (Gripið fram í: Það er vitað.)

(Forseti (SP): Út af orðum hv. þingmanns vill forseti taka fram að hæstv. menntamálaráðherra er ekki í húsi, en ég mun hins vegar gera ráðstafanir til að koma beiðni hv. þingmanns til hennar.)

Frú forseti. Ég vonast a.m.k. til þess að hæstv. menntamálaráðherra hlýði þó á mál þeirra sem hér munu tala í dag. Ég er með nokkrar spurningar sem ég vil beina til hæstv. menntamálaráðherra þannig að ég óska eftir því að ráðherrann sé með kveikt á sjónvarpinu sínu og fylgist með þessari umræðu þar sem ég mun vænta þess og óska eftir að fá svör við þeim spurningum sem ég er með.

Virðulegi forseti. Það eru engar deilur um það að fjölmiðlaumhverfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum og því er auðvitað mikilvægt að skoða Ríkisútvarpið, stöðu þess og hlutverk í því samhengi. Nú, þegar 21 ár er síðan einkaleyfi RÚV var afnumið, þykir mér það vægast sagt undarlegt að þegar gera á svo gagngerar breytingar á lögunum um Ríkisútvarpið sé það ekki gert betur en raun ber vitni. Þeim stóru pólitísku spurningum sem uppi hafa verið á undanförnum árum og þeim deiluefnum sem verið hafa uppi á undanförnum árum varðandi Ríkisútvarpið og rekstur þess er ekki svarað með þessu frumvarpi. Megninu af þeim er ekki svarað með þessu frumvarpi. Vil ég þar nefna fjármögnunina þar sem gerðar eru breytingar á fjármögnuninni þar sem að mínu mati afar vond leið er valin, eitthvað sem er alls ekki til þess fallið að skapa sátt um fjármögnun Ríkisútvarpsins, þ.e. nefskatturinn sem áætlað er að taka upp.

Síðan vil ég líka nefna í þessu sambandi að mér finnst undarlegt að í þessu frumvarpi skuli pólitískum ítökum gefið framhaldslíf með ákveðnum hætti. Ég fer betur yfir það í ræðu minni á eftir.

Þá finnst mér líka sérkennilegt að tækifærið skuli ekki vera notað, núna þegar verið er að taka svo gagngert á málum Ríkisútvarpsins, til að blása lífi í innlenda dagskrárgerð með frumvarpinu. Það er ekkert minnst á hana. Ég mun nefna fleiri atriði í ræðu minni, frú forseti, og þá ekki síst það rekstrarform sem valið hefur verið, þ.e. að fara þá leið að háeffa Ríkisútvarpið. Það er afar umdeild leið og mun ég fara yfir það hér á eftir. Það er ekki sýnilegt hvert markmiðið nákvæmlega er með því að gera það, taka það form fram yfir t.d. sjálfseignarformið sem hefur gefist mjög vel við rekstur á opinberum stofnunum og þeim stofnunum sem reknar eru fyrir almannafé. Ríkisútvarpið er ekki eins og hvert annað fyrirtæki og verður ekki eins og hvert annað fyrirtæki vegna þess að það verður rekið fyrir fé skattborgaranna. Á það hefur rækilega verið bent í blaðagreinum og leiðurum og ætla ég líka að fara betur yfir það hér á eftir.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að það er mikilvægt að breyta lögum um Ríkisútvarpið. Um það hefur verið nokkur sátt og lengi hefur verið kallað eftir því til þess að Ríkisútvarpið ætti hægara um vik að starfa í því fjölmiðlaumhverfi sem við búum við í dag. Þetta fjölmiðlaumhverfi, eins og ég sagði áðan, frú forseti, hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og því auðvitað mikilvægt og tímabært að skoða Ríkisútvarpið, stöðu þess og hlutverk í því samhengi. Því hefði, að mínu mati, verið skynsamlegra og skynsamlegast að taka umræðuna um Ríkisútvarpið samhliða umræðunni um ný fjölmiðlalög. Í fjölmiðlanefndinni svokölluðu hefur verið farið mjög djúpt í málin og þar hefur átt sér stað mikil umræða um fjölmiðlamarkaðinn og hvernig hann lítur út í dag. Þetta var þverpólitísk nefnd. Það hefur verið talið mikilvægt eftir þær miklu deilur sem hér urðu um fjölmiðlalögin fyrir tveimur árum að um þetta yrði þverpólitísk samstaða. Þess vegna finnst mér sérkennilegt hvers vegna Ríkisútvarpið og málefni þess og hlutverk og framtíð hafi ekki verið rædd í því samhengi og hvers vegna hæstv. menntamálaráðherra hefur kosið að beita ekki þeim farsælu vinnubrögðum að reyna að ná pólitískri samstöðu um almannaútvarpið Ríkisútvarpið.

Ég hefði talið affarasælast að vinnubrögð yrðu með þeim hætti, þ.e. sett í farveg þverpólitískrar nefndar og reynt að ná sátt um þessa mikilvægu stofnun. Það er staðreynd að við viljum að hér sé rekið almannaútvarp, raunverulegt almannaútvarp, og samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið er ljóst að almenningur í þessu landi lítur á Ríkisútvarpið sem mjög mikilvæga stofnun og treystir henni vel fyrir fréttaflutningi og öðru slíku. Því er það mjög mikilvægt að um þessa starfsemi sé friður, starfsfriður. Til þess að svo sé er mikilvægt og hefði verið affarasælast, að mínu mati, að þetta hefði verið sett í þverpólitíska nefnd.

Virðulegi forseti. Það virðist vera sem núverandi ríkisstjórn hafi ekki talið neina þörf á samstarfi eða samráði um breytingarnar á Ríkisútvarpinu. Það er nefnt í nefndaráliti frá minni hluta menntamálanefndar að jafnvel þó að þjóðin hafi knúið ríkisstjórnina til samvinnu við okkur í stjórnarandstöðunni um tilhögun fjölmiðlamála þá var ákveðið að stjórnarflokkarnir skyldu halda áfram að véla um Ríkisútvarpið þrátt fyrir eindregnar óskir okkar um að þau mál færu undir í vinnunni um fjölmiðlamálin. Þetta, frú forseti, verður að teljast undarlegt, vægast sagt. Að mínu mati væri mikilvægt að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvers vegna hún hafi talið að betra væri að fara þessa leið, þ.e. að taka Ríkisútvarpið út úr umræðu um fjölmiðlalögin og koma með það fram með þessum hætti í ósátt við stjórnarandstöðuna.

Ég sé að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar gengur hér inn. Það kemur líka fram í nefndaráliti minni hlutans að ekki hafi verið sátt um að taka málið út úr nefnd. Það hafi ekki verið farið að óskum minni hlutans um að kalla til nefndarinnar t.d. fulltrúa Ríkisendurskoðunar sem eiga að annast endurskoðun þessa hlutafélags og hafa m.a. eftirlit með aðskilnaði samkeppnisrekstrar frá almennum rekstri sem kveðið er á um í frumvarpinu. Síðan var ekki orðið við óskum um að aðili kæmi frá Samkeppniseftirlitinu, en það kemur í hlut eftirlitsins að taka málum sem varða samkeppni á markaði varðandi auglýsingar og kostun.

Því er það mér algerlega óskiljanlegt hvers vegna menn vilja keyra þetta mál svona í gegn í stað þess að setja það í farveg sáttar og samráðs líkt og gert er í fjölmiðlamálinu. Það væri áhugavert að fá að heyra og vita hvers vegna menn hafa ákveðið að fara aðra leið með Ríkisútvarpið en fjölmiðlamálin almennt.

Hæstv. forseti. Minni hluti menntamálanefndar gerir mjög alvarlegar athugasemdir við meðferð þessa máls í minnihlutaálitinu. Þeir segja m.a. að af þessu megi vera ljóst að rannsókn nefndarinnar í málinu sé áfátt á mikilvægum sviðum. Þeir segja jafnframt í þessu nefndaráliti að aldrei hafi verið efnt til umræðu um einstök atriði málsins innan nefndarinnar með þeim hætti að metnar væru tillögur um breytingar sem lagðar hefðu verið fram hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Og þess hafi ekki verið freistað á nokkurn hátt að ná saman um frumvarpið í heild, hvað þá einstaka hluta þess.

Þetta þykir mér, virðulegi forseti, afar miður vegna þess að hér er, eins og áður sagði, um gríðarlega mikilvægt mál að ræða.

Frú forseti. Það hafa fjölmargir aðilar skilað inn umsögn um þessi mál, það eru gerðar athugasemdir við fjölmörg atriði og ég ætla að fara inn á nokkur þeirra. Í fyrsta lagi vil ég nefna að í þessu frumvarpi er engin raunveruleg tilraun gerð til að skilgreina hlutverk almannamiðils í framtíðinni. Það er ekki lagt til að sett verði nein mörk á, t.d. hlutfall innlendrar dagskrárgerðar og miðlunar, þannig að áfram er gert ráð fyrir að RÚV miðli ódýru amerísku efni af miklum móð. Þetta þykir mér miður og mun koma betur inn á það í ræðu minni.

Það kemur manni á óvart þegar þetta frumvarp hefur verið lagt fram núna, í fyrsta lagi hversu klaufalega er tekið á helstu álitaefnum og líka af hve fjarska litlum metnaði tekið er á þeim, þó svo þetta sé önnur atrenna með þetta mál, því þetta kom líka fram hér á síðasta þingi, en þá var hæstv. ráðherra rekin til baka með það vegna þess hversu illa það var unnið. Þetta frumvarp er að mínu mati ekki betur unnið nema síður sé. Maður hefði vonast til að nú yrði betur að málum staðið en þá.

Virðulegi forseti. Það eru hér eins og ég sagði nokkur atriði sem mig langar að taka á. Í fyrsta lagi, eins og við höfum við sagt í stjórnarandstöðunni og ég tel, þá er með þessu frumvarpi verið að gefa pólitískum ítökum framhaldslíf. Vegna þess að þó svo eigi afnema útvarpsráð og leggja það niður í núverandi mynd þá á að skipa stjórn sem áfram á að endurspegla valdahlutföll á Alþingi. Það á áfram að endurspegla valdahlutföll á Alþingi nema núna verður stjórnin fimm manna þannig að það verða þá þrír frá þingmeirihluta og tveir frá stjórnarandstöðu.

Virðulegi forseti. Þetta atriði hefur verið afar umdeilt. Að stjórn slíkrar stofnunar, sem hefur jafnmikið menningarlegt og lýðræðislegt hlutverk og Ríkisútvarpið og enginn efast um mikilvægi þess fyrir utan þá þingmenn sem hafa viljað selja Ríkisútvarpið, endurspegli valdahlutföll á Alþingi. Við erum flest sammála um að Ríkisútvarpið gegni mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Því skil ég ekki og við í Samfylkingunni höfum ekki skilið hvers vegna menn vilja ríghalda í þetta form.

Síðan er enn gefið í í rauninni í þessu frumvarpi hvað pólitísku ítökin varðar, vegna þess að þessi stjórn sem er skipuð af ríkisstjórn, þ.e. meiri hluti hennar er skipaður af ríkisstjórnarflokkum hverju sinni, þá er enn gefið í núna með hin pólitísku ítök með því að þessi stjórn ræður öllu um hvaða útvarpsstjóri er ráðinn og hvenær hann er rekinn.

Það, frú forseti, finnst mér afar varhugavert vegna þess ef við ætlum að eyða tortryggni í garð Ríkisútvarpsins og veita metnaðargjörnum útvarpsstjórum starfsfrið frá stjórn sem er að meiri hluta skipuð ríkisstjórnarflokkum hverju sinni og ætlum að gefa þessum útvarpsstjóra starfsfrið og tækifæri til að setja mark sitt á stofnunina, þá getur hann ekki unnið undir þeim kringumstæðum að séu störf hans ekki þóknanleg ríkisstjórn hverju sinni, þá geti stjórnin rekið hann.

Á þessu verður að taka, frú forseti, vegna þess að við getum ekki sæst á þessa leið. Og mér finnst þetta með eindæmum ófrjó niðurstaða hjá ríkisstjórninni að ætla að fara slíka leið, sérstaklega vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið um pólitísk ítök innan Ríkisútvarpsins. Ég hefði haldið að menn vildu gera þetta af meiri metnaði og veita þessari stofnun raunverulegt sjálfstæði til að starfa. Það á að skapa Ríkisútvarpinu skarpa lagagrind sem skilgreinir almannaútvarp en það á að afnema þessi sterku pólitísku ítök. Þegar útvarpsstjóri er farinn að búa við það á hverjum degi að yfir honum hangi uppsagnarbréf sé ekki farið að vilja ríkisstjórnar hverju sinni, þá erum við komin inn á brautir sem mér hugnast illa og veit að fleirum hugnast illa.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á eru fjölmargir sem hafa skilað inn umsögnum um þetta mál. Það eru t.d. fjölmargar umsagnir þar sem menn hafa gagnrýnt að ekki skuli aðrir en pólitískt skipaðir fulltrúar komast að í stjórn og fjölmargir aðilar hafa líka lagt til að einhvers konar neytendaráð eða akademía yrði sett á laggirnar innan Ríkisútvarpsins sem væri einhvers konar ráðgefandi akademía. Eina slíka hugmynd hefur verið komið inn á t.d. í minnihlutaáliti menntamálanefndar og síðan einnig í umsögn talsmanns neytenda. Neytendasamtökin nefna þetta líka og umsögn starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins og sömuleiðis Blaðamannafélags Íslands, þar sem fjallað er um ónóga aðkomu eigenda og starfsmanna, þ.e. eigenda, almennings og starfsmanna að stjórnun þessa fyrirtækis. Mér þykir afar miður að á þær umsagnir þar sem þessum skoðunum hefur verið lýst hafi ekki verið hlustað. Af einhverjum ástæðum virðist sem ríkisstjórnin vilji halda því til streitu að valdahlutföll á þingi muni áfram stjórna Ríkisútvarpinu.

Ég hefði viljað fá, frú forseti, að heyra frá hæstv. menntamálaráðherra svör við því hvers vegna menn ætla að halda þessu svona. Hvað sé t.d. á móti því að fá tvo utanaðkomandi inn í stjórnina þannig að það verði ekki ríkisstjórnarmeirihluti sem stýrir Ríkisútvarpinu. Mörður Árnason hefur nefnt þá hugmynd að eðlilegt væri að t.d. tveir frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins kæmu þar inn eða tveir utanaðkomandi. Þar með þyrfti að ná samstöðu um málin innan stjórnarinnar en ekki kæmu skipanir úr ráðuneytinu um stjórn útvarpsins heldur þyrftu menn að koma sér saman um niðurstöðu sem er auðvitað farsælast þegar um er að ræða stofnun eins og Ríkisútvarpið, sem á að vera dínamísk, og á að vera kraftmikil og þar á að fara fram menningarleg stefnumótun að mörgu leyti og þar eiga raddir allra að heyrast og fólkið í landinu, úr hinum ýmsu hópum á að fá efni við sitt hæfi.

Því hefði ég talið þetta eðlilegt og mundi vilja fá að heyra rök hæstv. menntamálaráðherra eða hæstv. formanns menntamálanefndar, hvaða rök þeir telja að fari gegn því að stækka stjórnina, afnema þessi hlutföll þannig að það verði ekki lengur ríkisstjórnarmeirihluti ráðandi í útvarpsráði og hvað það sé sem mæli gegn því að tekin verði upp svokölluð akademía eða neytendaráð.

Ég vil nefna hér það sem segir í umsögn Félags fréttamanna um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Okkur þykir réttur/aðgengi almennings þ.e. eigenda RÚV vera fyrir borð borinn í frumvarpinu því hvergi er getið um hvernig hann getur haft áhrif og komið sínum skoðunum á framfæri við RÚV. Þetta aðgengi verður að vera skýrt hjá fjölmiðli sem almenningur á og rekinn er í þágu þjóðarinnar. Sama gildir um tækifæri almennings til að nálgast upplýsingar um fjölmiðilinn og dagskrárstefnu hans.“

Þá segir í umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta mál, með leyfi forseta:

„ASÍ telur mikilvægt er að standa vörð um sjálfstæði RÚV og telur að það megi gera með því að taka upp svipað fyrirkomulag og þekkist víða, þ.e. að starfsmönnum og sjálfstæðum aðilum utan stofnunar verði auk þings og ráðherra gert að skipa fulltrúa í stjórn stofnunarinnar.“

Eins og ég nefndi áðan kemur fram svipuð athugasemd frá Neytendasamtökunum þar sem þau taka undir þau sjónarmið sem fram komu í umsögn Hollvina Ríkisútvarpsins, um akademíska stjórn Ríkisútvarpsins, um frumvarp sem lagt var fram á síðasta þingi. Þeir segja hér, með leyfi forseta:

„Það er að mati Neytendasamtakanna afar mikilvægt að ekki sé hægt að stýra Ríkisútvarpinu út frá flokkspólitískum forsendum.“

Frú forseti. Það er ekki bara einhver pólitískur leikur af hálfu stjórnarandstöðunnar að leggja til að tekið verði upp einhvers konar akademískt ráð og/eða að stjórnin verði stækkuð og hún hætti að endurspegla valdahlutföll á Alþingi, vegna þess að sama niðurstaðan kemur frá hinum fjölbreyttustu hópum í samfélaginu. Stjórn Blaðamannafélagsins leggur til að fleiri aðilar en Alþingi fái að skipa fulltrúa í stjórn félagsins. Til dæmis leggur hún til að starfsmenn Ríkisútvarpsins fái þar aðild og nefnir að slíkt eigi sér fordæmi í nágrannalöndum okkur, útvarpsráð NRK sé til að mynda skipað níu mönnum og þar af séu þrír fulltrúar starfsmanna. Hún segir líka að þannig megi stuðla að því að önnur sjónarmið en flokkspólitísk ráði för hjá stjórn hlutafélagsins, t.d. við ráðningu útvarpsstjóra.

Þetta er einmitt kjarni málsins, frú forseti. Þetta er ekki bara einhver leikur hjá stjórnarandstöðunni til að finna ágalla á frumvarpinu eins og menn hafa reynt að halda hér fram, heldur er þetta raunverulegt áhyggjuefni. Ég skil þess vegna ekki af hverju menn ákveða að halda málinu svona til streitu. Af hverju er ekki reynt að ná samstöðu um það?

Frú forseti. Mig langar að spyrja áður en ég held áfram hvort hæstv. ráðherra sé að fylgjast með umræðunni eins og ég óskaði eftir og hvort ég geti búist við að fá svör við einhverjum af þeim spurningum sem ég hef beint til hennar varðandi vinnubrögð og aðdraganda þessa máls.

(Forseti (RG): Forseti mun kanna hvort von er á ráðherra til Alþingis eða hvort ráðherra er að fylgjast með umræðunni.)

Takk fyrir það, frú forseti. Það er aðallega vegna þess að ég hefði viljað að það væri tryggt að hún heyrði spurningar mínar þannig að hún gæti brugðist við þeim í lok þessarar umræðu.

Virðulegi forseti. Það eru fleiri sem hafa komið inn á þetta mál eins og ég sagði áðan. Ég nefni t.d. að stjórn starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins gagnrýnir sömuleiðis að eigendurnir, þ.e. fólkið í landinu, eigi ekki aðkomu að Ríkisútvarpinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar telja samtökin það óviðunandi að eigendurnir, það er fólkið sem byggir þetta land, eigi samkvæmt frumvarpinu ekki neina leið til að koma athugasemdum á framfæri um dagskrá og fréttir stofnunarinnar. Hvergi í frumvarpinu er að finna ákvæði um hvernig farið skuli með athugasemdir og ábendingar frá almenningi.“

Frú forseti. Ég teldi réttast að hv. menntamálanefnd gerði breytingar á frumvarpinu milli umræðna til að koma til móts við þá fjölmörgu aðila sem gagnrýna þetta atriði af því að þetta skiptir máli. Vonandi ætla menn ekki að fara að tryggja pólitíska íhlutun um ókomna framtíð eða að það leiki a.m.k. vafi á því til einhverrar framtíðar. Það hefur ríkt tortryggni sem ég hefði haldið að menn vildu eyða með þessu frumvarpi en svo er ekki. Mér finnst mikilvægt að fá skýringar á því hvers vegna svo er.

Virðulegi forseti. Fleiri atriði vil ég líka nefna hér. Mér finnst áhugavert það sem kemur fram í umsögn Blaðamannafélags Íslands. Þar er t.d. komið talsvert inn á sjálfstæði ritstjórna. Stjórn Blaðamannafélagsins segir í umsögn sinni að hún telji að í frumvarpinu þurfi að árétta sjálfstæði ritstjórna gagnvart flokkspólitískri eða efnahagslegri íhlutun. Hún leggur til að það megi gera með því að kveða á um að setja þurfi innri reglur sem fjalli m.a. um skilyrði áminningar og brottvikningar, svo dæmi séu tekin. Sömuleiðis telur stjórn Blaðamannafélags Íslands rétt að skilgreina betur starfssvið útvarpsstjóra í lögunum, að lögin kveði á um að settar verði sérstakar reglur sem tryggi sjálfstæði ritstjórna gagnvart útvarpsstjóra.

Ég get tekið undir þetta, sér í lagi við þær aðstæður sem útvarpsstjóra er gert að vinna við samkvæmt frumvarpinu, þ.e. með hugsanlega brottvikningu hangandi yfir sér ef störf hans eru ekki þóknanleg meiri hluta á Alþingi hverju sinni. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að laga þetta, að eyða þessu. Margar góðar hugmyndir hafa verið lagðar fram um það hvernig tryggja megi sjálfstæði ritstjórna, hvernig tryggja megi að útvarpsstjóri geti starfað í friði. Ein þeirra er m.a. sú að útvarpsstjóri sé skipaður eins og þjóðleikhússtjóri, að hann sé skipaður til fimm ára og hafi þá þau fimm ár til að setja mark sitt á stofnunina og fái tækifæri til að vera sjálfstæður í störfum sínum. Ég tel gríðarlega mikilvægt að svo sé og þannig verði eytt allri tortryggni í garð stofnunarinnar.

Þessar hugmyndir hafa verið lagðar fram og lagðar fyrir nefndina. Þær voru líka reifaðar hér við 1. umr. um málið. Þeim hefur verið svarað þannig að þeim hefur verið hafnað, þ.e. hvergi er að sjá í breytingartillögum eða öðru að tekið verði tillit til þessara tillagna. Mér finnst að rökstyðja þurfi það miklu betur en gert hefur verið. Það þarf að rökstyðja vel hvers vegna menn ætla að halda áfram á þeirri braut sem verið hefur, þ.e. að láta Ríkisútvarpið lulla í þessu fari og með hættu á að það skapist tortryggni gagnvart því. Það er eitthvað sem við eigum að reyna að losa okkur við.

Frú forseti. Ég vil líka koma inn á fleiri þætti. Einn þeirra er innlend dagskrárgerð. Það hafa komið fram ábendingar, bæði í umsögnum og öðru, að þegar gera á svo miklar breytingar á Ríkisútvarpinu þá sé lag að blása lífi í innlenda dagskrárgerð. Ég hefði viljað sjá slíkt gert í þessu frumvarpi. Í 1. umr. um málið í þinginu var töluvert mikil umræða um innlenda dagskrárgerð og hlutfall innlendrar dagskrárgerðar í dagskrá Ríkisútvarpsins. Það var mjög góð umræða. Í því samhengi var spurt hvert markmiðið með rekstri almannaútvarps ætti að vera, hvort þar eigi að vera áfram erlent afþreyingarefni sem sé í beinni samkeppni um áhorf á því sviði við einkareknar stöðvar. Það var beinlínis gerð krafa um það við 1. umr. að hlutfall innlendrar dagskrárgerðar yrði skilgreint í lögunum. Ég tók undir þessa hugmynd og fannst hún afar athyglisverð og að hana ætti að ræða frekar. Mér fannst nefndin eiga að taka þetta til ítarlegrar umræðu. Það hefur greinilega ekki verið gert því að engin merki eru um að menn ætli sér í neinar slíkar skilgreiningar. Því hefði verið gott að fá að heyra með hvaða rökum þessi hugmynd var blásin út af borðinu, þ.e. að skilgreina hlutfall innlendrar dagskrár í lögum um almannaútvarpið Ríkisútvarpið.

Það er skoðun mín, frú forseti, að þegar Ríkisútvarpið er tekið til svo gagngerrar endurskoðunar og gagngerar breytingar eru gerðar á því eigi að nota tækifærið og blása til raunverulegrar sóknar í innlendri dagskrárgerð. Þarna er ég aðallega að tala um barnaefni, menningartengt efni og fréttatengt efni. Ég er hér líka með umsögn frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda. Það er býsna merkilegt að þar kemur fram að við sýnum ekki nóg af innlendu efni og að það hafi farið minnkandi. Það finnst mér mikið áhyggjuefni vegna þess að svo á auðvitað ekki að vera. Glæsileg stofnun eins og Ríkisútvarpið sem hefur tæknina, mannskapinn og þekkinguna, og ástæðuna af því Ríkisútvarpið á að vera almannaútvarp, á auðvitað að vera í fararbroddi hvað varðar sýningar á góðu, vönduðu, innlendu efni. Það á ekki síst við um barnaefnið þar sem innlent og mjög vandað efni skiptir miklu máli. Það þýðir ekki að bjóða börnum bara upp á eldgamlar teiknimyndir og amerískt efni eða annað ódýrt efni því að þau þurfa að fá gott innlent efni í bland.

Frú forseti. Ég ætla að eins að fá að nefna nokkur atriði sem Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda nefnir í umsögn sinni hvað þetta varðar. (Gripið fram í.) Þar segir m.a. að stjórn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda leggi megináherslu á að lögin um Ríkisútvarpið hf. hafi þann tilgang að efla RÚV sem útvarp í almannaþágu. Því takmarki megi meðal annars ná með því að auka …

(Forseti (RG): Ég bið þingmenn að gefa ræðumanninum hljóð. Ég kýs um leið að upplýsa að það mun vera von á menntamálaráðherra til þingsins og jafnframt að það verður tryggt að spurningar sem fram koma í máli ræðumanns verður komið til ráðherrans. Það verður tryggt að ráðherra fái þær í hendur.)

Ég þakka fyrir það, frú forseti. Í þessari umsögn segir að þessu takmarki, þ.e. að RÚV sé útvarp í almannaþágu, megi ná með því að í auka verulega sýningar á innlendu sjónvarpsefni, svo sem leiknum sjónvarpsþáttum og heimildamyndum sem endurspegla íslenskan veruleika.

Ég get tekið undir þetta vegna þess að þarna segir líka að þannig geti RÚV orðið öflugt menningartæki, betri samfélagsspegill og eflt skilning Íslendinga á eigin samfélagi og umheiminum. Undir þetta get ég tekið og hefði kosið að sjá að menn blésu til myndarlegrar sóknar í innlendri dagskrárgerð samhliða þeim breytingum sem verið er að gera á Ríkisútvarpinu.

En það er eins og menn séu í svo miklum asa og miklum flýti að háeffa Ríkisútvarpið að menn gleymi algjörlega innihaldinu eða skilji það vísvitandi eftir, innihaldi almannaútvarps til nánustu framtíðar, (Gripið fram í.) vegna þess, frú forseti, að ekki er tekið á allra stærstu málunum. En það er innihaldið sem á að skipta máli. Menn eiga að flýta sér hægt og taka innihaldið og gera það að aðalmarkmiði en ekki rekstrarformið bara af því að Sjálfstæðisflokkurinn er hér í einhvers konar trúboði fyrir háeffun. (SKK: Lestu 3. greinina.)

Frú forseti. Hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni er mikið mál að fá að tala hér. (Gripið fram í.) Ég bíð þess að heyra seinni ræðu hans og sömuleiðis vona ég að hann fari í andsvör við 2. umr. eða þá að hann geti beðið með að fara í andsvör við mig þegar ég hef lokið ræðu minni ef hann þarf að koma einhverju að, fá svör við einhverjum spurningum. En ég held að samkvæmt þingsköpum geti ég ekki rætt við hann hér, maður á mann, úr ræðustólnum þó ég gjarnan hefði viljað.

Frú forseti. Ég hefði viljað koma inn á fleiri atriði hvað varðar innlenda dagskrárgerð. Ég nefndi það áðan að við værum ekki með nægilega hátt hlutfall af innlendu dagskrárefni og sömuleiðis sem ekki er keypt þá frá sjálfstæðum framleiðendum. Í umsögn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda kemur fram að í úttekt sem kvikmyndagerðarmenn hafa gert á dagskrá RÚV árin 2003 til byrjunar ársins 2006, komi fram að þar nái hlutfall dagskrár frá sjálfstæðum framleiðendum aldrei hærra hlutfalli en 2,5–3%. Dagskrá frá Evrópulöndum nær ekki nema 30% af útsendri dagskrá og innlend dagskrá nær ekki hærra en að vera 7,5% af útsendri dagskrá.

Þeir segja einnig að úttektin sýni að RÚV hefur ekki náð að uppfylla skilmála Evrópusambandsins um hlutfall efnis frá Evrópu. Það er því auðséð að staðan gagnvart innlendum framleiðendum er ekki góð og bent er á að ýmsar þjóðir sem við Íslendingar miðum okkur við á öðrum sviðum séu með ákvæði um að ákveðið hlutfall af dagskrá skuli framleitt af sjálfstæðum innlendum framleiðendum. Má t.d. nefna að hjá BBC er þetta hlutfall 25% og nefnd eru líka Kanada, Danmörk og Írland, að þar séu í gildi reglur um almannaútvarp með svipuðum skilyrðum.

Þetta, frú forseti, hefði mér þótt afar mikilvægt að taka inn í lagagerðina, að við settum okkur einhver markmið, a.m.k. að við færum upp úr þessu 7,5% hlutfalli af dagskránni, að við settum okkur einhver áform um að hækka það hlutfall. Það væri skoðað samhliða þeirri vinnu sem fram er fara varðandi Ríkisútvarpið.

Frú forseti. Það er skoðun mín að RÚV, Ríkisútvarpið, eigi að vera leiðandi í miðlun á vönduðu innlendu efni og vil ég nefna barnaefni. Í samantekt sem gerð hefur verið hefur komið í ljós að það eru einhverjar örfáar mínútur á dag samtals sem raunverulegt íslenskt barnaefni birtist hjá Ríkisútvarpinu. Ef ekki væri fyrir Stundina okkar væri það ekkert. Þarna tel ég mikilvægt að grípa inn í því ég tel mikilvægt fyrir börnin að eiga líka kost á því vegna þess að þau eru ekki neinir annars flokks neytendur þjónustu Ríkisútvarpsins heldur eiga þau að vera a.m.k. á sama stað og aðrir og ég tel að þau eigi að þjónusta ekki síður en okkur fullorðna fólkið.

Frú forseti. Nóg um innlenda dagskrárgerð í bili en ég hefði kannski í lok þessarar ræðu um dagskrárgerðina viljað beina þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort til standi að setja sér einhver markmið um að hækka hlutfall af innlendri dagskrárgerð, að það verði hækkað hjá Ríkisútvarpinu og hvaða rök hún hafi gegn þeirri tillögu að sett verði ákvæði um að ákveðið skilgreint hlutfall í dagskrá Ríkisútvarpsins verði innlent. Hvaða rök eru gegn því að fara þá leið vegna þess að þeirri leið hefur augljóslega verið hafnað í meðförum nefndarinnar?

Frú forseti. Nú ætla ég aðeins að nefna að í tillögu til þingsályktunar um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp sem hv. þm. Mörður Árnason flutti ásamt fleirum úr Samfylkingunni á síðasta þingi er talsvert af mikilvægum hugmyndum og mikilvægum ábendingum um hvaða leiðir hægt er að fara til að tryggja að Ríkisútvarpið verði alvörualmannaútvarp. Vil ég hvetja þingheim til að lesa þá tillögu vegna þess að hún er afar góð og mjög ítarleg og mikið af upplýsingum að finna í henni. Þar er vísað í Prag-samþykkt frá 1994 þar sem er að finna mikilvæga skilgreiningu á almannaútvarpi.

Þar segir, þetta er lausleg þýðing, með leyfi forseta, að almannaútvarp skuli:

„… tryggja að umtalsverður hluti dagskrárefnis sé frumframleiddur, sérstaklega kvikmyndir, sjónvarpsleikrit og annað listrænt efni, og gera sér grein fyrir nauðsyn þess að nýta sjálfstæða framleiðendur og starfa með kvikmyndageiranum.“

Mér finnst mikilvægt að fram komi að þetta er sú tilhneiging sem hefur verið alls staðar í kringum okkur, þ.e. að skilgreina innlenda dagskrárgerð með skýrum hætti í lögum um almannaútvörp í kringum okkur.

Frú forseti. Næst ætla ég að víkja máli mínu að rekstrarforminu. Ekki er hægt að fara í gegnum þessa umræðu öðruvísi en að ræða rekstrarformið. Hér hafa menn talað eins og það sé hin eina mögulega leið og eina leiðin sem eitthvert vit er í, það sé að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, þ.e. að háeffa Ríkisútvarpið. Frú forseti. Þessu hef ég verið algjörlega ósammála og þessu hafa líka flokksfélagar mínir verið ósammála og er tekið ágætlega á því í minnihlutaáliti menntamálanefndar.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu með háeffuninni miðast við fyrirtæki í rekstri með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi en ekki almannaþjónustu þar sem eðlilegt þykir að allar viðeigandi upplýsingar liggi fyrir og að vald einstakra stjórnenda sé temprað. Gagnsæi í starfsemi á ekki að hafa að leiðarljósi við rekstur Ríkisútvarpsins hf. heldur er þvert á móti hætt við að breytingin leiði til leyndar og pukurs.“

Frú forseti. Þetta skiptir máli vegna þess að hætt er við þegar búið er að háeffa Ríkisútvarpið að upplýsingar um ákveðna þætti starfseminnar fari undir yfirborðið og erfitt verði að nálgast þær. Vil ég þar t.d. nefna að í umsögn Félags fréttamanna um frumvarpið er sagt að þeir vilji að upplýsingalögin gildi um RÚV hf. því að það er í eigu almennings.

Sömuleiðis þótti mér athyglisvert í þessu sambandi að lesa merkilegan pistil eftir fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, Þorstein Pálsson, sem núna er orðinn ritstjóri hjá Fréttablaðinu. Mér þótti afar merkilegt að lesa leiðara frá honum sem var í Fréttablaðinu föstudaginn 31. mars sl. Þar fer hann mjög hörðum orðum um háeffun á Ríkisútvarpinu og kallar þetta öfugsnúna hugmyndafræði hjá ríkisstjórninni að vilja breyta rekstrarforminu yfir í Ríkisútvarpið hf. Hann bendir á það eins og minni hluti menntamálanefndar gerir í nefndarálitinu að hlutafélagaformið henti fyrirtækjum í ríkiseigu sem ekki nota skattpening í rekstur. Hins vegar gegni öðru máli um stofnanir sem séu alfarið reknar fyrir peninga skattborgaranna eða a.m.k. að meginhluta.

Þetta er einmitt kjarni málsins, frú forseti. Hann segir í þeim leiðara réttilega — og ég ætla að fá að fara aðeins yfir nokkur atriði þar. Þar segir hann réttilega að hlutafélög séu gott rekstrarform og að það henti líka fyrirtækjum í ríkiseigu sem ekki nota skattféð. Til dæmis nefnir hann réttilega að skynsamlegt hafi verið að breyta Símanum í hlutafélag enda var það alfarið rekið fyrir sjálfsaflafé og það fyrirtæki greiddi líka arð í ríkissjóð. Öðru máli gegni um fyrirtæki eða stofnanir sem alfarið eru reknar fyrir skattpeninga vegna þess að, segir með leyfi forseta, „eðli máls samkvæmt gilda aðrar leikreglur um meðferð skattpeninga borgaranna en sjálfsaflafé.“

Þarna er sett spurningarmerki við að fyrirtæki, sem er í eigu ríkisins alfarið og fær töluverða fjármuni frá almenningi, sé rekið á sama hátt og fyrirtæki á markaði, þar sem leynd mun hvíla á upplýsingum og fleira í þeim dúr auk þess sem Ríkisútvarpið er auðvitað í samkeppni á fjölmörgum sviðum ljósvakans við önnur fyrirtæki í landinu. Við skulum alveg hafa það á hreinu að í dag er Ríkisútvarpið að skekkja samkeppnisstöðu á markaði. Það verður auðvitað að hafa það í huga líka og einmitt þess vegna enn þá mikilvægara að hlutverk þess sem almannaútvarps sé mjög vel og ítarlega skilgreint.

Það sem mér þykir líka merkilegt í þessum leiðara er að þar segir, með leyfi forseta:

„Nú ætlar ríkisstjórnin að víkja til hliðar öllum almennum reglum sem gilda um meðferð skattpeninga að því er varðar rekstur Ríkisútvarpsins. Þar á meðferð skattpeninga að lúta reglum einkaeignarréttarins án þess að skilyrði hans um sjálfsaflafé sé fyrir hendi. Auka má skilvirkni hvarvetna í ríkiskerfinu með því að afnema þessar reglur að fullu og öllu. Eru menn reiðubúnir að taka afleiðingunum af því? Svarið er nei. Hvaða önnur sjónarmið geta gilt um meðferð skattpeninga í stærstu menningarstofnun ríkisins?“

Frú forseti. Mér finnst þetta afar áhugaverður leiðari og það er alveg hárrétt sem þar er nefnt að það er eitt að hlutafélagavæða Símann, eða þá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem verður rætt hér á eftir þessu máli, sem afla sér allra sinna tekna sjálfar. En það er allt annar handleggur að háeffa og hlutafélagavæða stofnun eins og Ríkisútvarpið.

Frú forseti. Í ágætum pistli eftir Össur Skarphéðinsson, sem ég sá á heimasíðu hans, er einmitt komið inn á þetta og fjallar hann um fyrrgreindan leiðara og dregur fram öll helstu aðalatriðin, en nefnir jafnframt að málflutningur hv. þm. og formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, í þessum efnum hefur verið nákvæmlega á þessa lund. Mikill samhljómur er með Þorsteini Pálssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hann dregur fram að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi sagt í umræðum á þingi að Samfylkingin hafi talað fyrir sjálfseignarstofnun og að ávinningurinn af því að RÚV væri rekin sem sjálfseignarstofnun væri að hennar mati þríþættur. Össur nefnir, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi væri sjálfseignarstofnun þekkt rekstrarform í almannaþjónustu sem sæti að opinberu fé eða afmörkuðum tekjustofnum og því reynsla af því fyrirkomulagi. Í öðru lagi væri form sjálfseignarstofnunar einkaréttarlegs eðlis líkt og hlutafélög og gæfi því RÚV það aukna sjálfstæði og svigrúm sem stofnunin þyrfti á að halda. Í þriðja lagi væri líklegt að sjálfseignarformið næði að skapa ákveðna sátt um RÚV.“

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram og að þeir sem tala svo blint fyrir að við eigum að háeffa Ríkisútvarpið umfram það að gera það að sjálfseignarstofnun þurfi að rökstyðja mál sitt miklu betur vegna þess að hér er ekki eins og um hvert annað fyrirtæki sé að ræða. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að mér þykir líka dálítið óþægilegt að þeir sem helst fara fyrir umræðunni um frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. séu sömu einstaklingar og lagt hafa fram frumvarp um að selja stofnunina. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að mér finnst þetta óþægileg staða. Það er óþægilegt að vinna í þingsölum við þær kringumstæður í þessum málum vegna þess að auðvitað skapar þetta tortryggni í brjóstum okkar að þetta sé fyrsta skrefið í sölu á Ríkisútvarpinu. Það er ekki sú leið sem við teljum að eigi að fara og teljum að hér eigi að reka öflugt Ríkisútvarp sem almannaútvarp. Vissulega höfum við tekið undir að það þyrfti að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. En að sjálfseignarstofnunarformið væri miklu betur til þess fallið að ná markmiðum um öflugt almannaútvarp til framtíðar.

Þegar hv. formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, var í fyrri sinni ræðu að mæla fyrir nefndaráliti meiri hlutans, þá talaði hann eins og Ríkisútvarpið væri hvert annað venjulegt fyrirtæki. Það var alveg augljóst af máli hans að hann var ekki að hugsa um RÚV sem almannaútvarp. Út frá því hefur augljóslega ekki verið unnið í nefndinni þegar framsögumaður meiri hlutans talar með þeim hætti. Það finnst mér, virðulegi forseti, áhyggjuefni vegna þess eins og ég hef sagt er Ríkisútvarpið ekki venjulegt fyrirtæki. Það er það auðvitað ekki núna og verður það ekki þó það verði komið háeff fyrir aftan vegna þess að það er rekið fyrir fé skattborgaranna.

Þegar fyrirtæki er rekið fyrir fé skattborgaranna er það óviðunandi að um það gildi ekki heldur upplýsingalög. Það er óviðunandi í alla staði. Í þessu trúboði hafa framsóknarmenn af einhverjum ótrúlegum ástæðum hoppað á vagninn með sjálfstæðismönnum í að háeffa Ríkisútvarpið. Það hentar að háeffa ýmislegt. Það eru mörg fyrirtæki í samkeppnisrekstri sem er rétt að háeffa. En ekki Ríkisútvarpið. Það á hreinlega ekki við.

Frú forseti. Mér þykir rétt í þessu ljósi að nefna að í nefndaráliti minni hlutans er lögð fram með rökstuddri dagskrá tillaga um frávísun þessa máls. Ein ástæðan sem nefnd er til frávísunar, þær eru fjölmargar, er sú að ekki sé gert ráð fyrir viðeigandi gagnsæi í starfsemi og rekstri Ríkisútvarpsins, t.d. með því að um það gildi upplýsingalög.

Frú forseti. Ég óska eftir að fá að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra gagnvart þessari gagnrýni sem fram hefur komið á að háeffa eða hlutafélagavæða Ríkisútvarpið í því ljósi að ekki er um venjulegt fyrirtæki að ræða og getur ekki orðið meðan það er rekið fyrir peninga skattborgaranna. Þá getur það ekki orðið venjulegt fyrirtæki. Ég vil fá að heyra viðhorf hennar gagnvart þeirri gagnrýni sem fram hefur komið og sömuleiðis vil ég fá að heyra viðhorf hennar og heyra ástæður þess að upplýsingalög eigi ekki að gilda um þetta fyrirtæki þannig að við skattborgararnir sem greiðum inn í fyrirtækið fáum upplýsingar um hvað þar fer fram.

Frú forseti. Eins og ég nefndi hafa fjölmargar góðar umsagnir komið um þetta mál. Það er ein sem hefur beinlínis fjallað um rekstrarformið. Mér finnst það afar áhugaverð umsögn en hún er frá talsmanni neytenda. Talsmaður neytenda segir í umsögn sinni að í greinargerð með frumvarpinu sé ekki sýnt fram á að hagsmunum og réttindum neytenda, þ.e. þeirra sem noti þjónustu Ríkisútvarpsins, sé betur borgið með því að Ríkisútvarpinu sé breytt í hlutafélag í eigu ríkisins.

Þar nefnir hann, og vil ég, með leyfi forseta, grípa niður í orð hans og lesa úr þessari umsögn. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Lít ég þá annars vegar til þess að af því virðist leiða að lög á borð við upplýsingalög, nr. 50/1996, með síðari breytingum og stjórnsýslulög, nr. 37/1993, með síðari breytingum — sem taka til „stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga“ — gildi ekki um Ríkisútvarpið; er það að mínu mati ekki til þess fallið að bæta stöðu notenda útvarpsþjónustu í almannaþágu. Hins vegar tel ég að hlutafélagsformið sé ætlað fyrir rekstur með arðsemismarkmið — en ég tel óljóst hvort arðsemi eigi samkvæmt frumvarpinu að vera tilgangur Ríkisútvarpsins framvegis.“

Frú forseti. Það er talsmaður neytenda sem nefnir þetta. Hann segir jafnframt í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Verði sýnt fram á nauðsyn formbreytingar tel ég að hagsmunum notenda útvarpsþjónustu í almannaþágu sé betur borgið með því að Ríkisútvarpið sé sjálfseignarstofnun eins og nefnt er sem valkostur …“ Og er nefnt í greinargerð með frumvarpinu.

Talsmaður neytenda telur að hagsmunum neytendaþjónustunnar sé betur borgið ef Ríkisútvarpið er rekið í formi sjálfseignarstofnunar. Þetta finnst mér afar áhugavert, frú forseti, að heyra og þetta er rökstutt mjög ítarlega í þessari umsögn og ætla ég aðeins að halda áfram að fara yfir hana. En þar segir einnig, með leyfi forseta:

„Um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur gilda lög nr. 33/1999; þar eru ítarleg og skýr ákvæði um stjórnun og fjárhagslegan aðskilnað (sjá til að mynda 29. gr. þeirra laga) sem samrýmast vel þeim sjónarmiðum sem nefnd eru í greinargerðinni … til stuðnings vali á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Sjálfseignarstofnun er að mínu mati hentugt form fyrir rekstur sem hefur almannaþjónustu sem megintilgang. Sjálfseignarstofnun hefur arðsemi ekki sem rekstrartilgang heldur rennur hugsanlegur arður af starfseminni aftur inn í reksturinn til þess að sinna markmiðinu með honum og þar með til notenda þjónustunnar. Þá er sjálfseignarstofnun með takmarkaða ábyrgð enda er hún ekki tengd neinum eigendum þar eð stofnendur skilja sig frá rekstri sjálfseignarstofnunar þegar hún er sett á fót.“

Frú forseti. Mér finnst þetta mjög mikilvægt og færð eru rök fyrir þessu í fleiri þáttum. En það sem mér finnst vera mikilvægast í þessu er að ef Ríkisútvarpið verður Ríkisútvarpið hf. þá gilda ekki um það upplýsingalög. Það gilda ekki um það samkvæmt þessari umsögn stjórnsýslulög. Þetta form hentar ekki Ríkisútvarpi sem hefur þjónustu við almenning að leiðarljósi en ekki arðsemissjónarmið. Þetta finnst mér afar mikilvægur punktur, frú forseti, og mikilvægt að það hafi komið hér fram

Á þetta eigum við auðvitað að hlusta og þess vegna verð ég alltaf ákveðnari í þeirri skoðun minni að þetta sé afar illa ígrundað. Þetta er orðið heilagt. Þetta eru orðin trúarbrögð hjá Sjálfstæðisflokknum að háeffa allt, algjörlega óháð því hvaða markmiðum þeir ætla að ná með rekstrinum. Þetta eru orðin trúarbrögð og þetta hentar ekki, frú forseti. Þetta hentar ekki Ríkisútvarpinu að vera að rekið í þessu formi. Mér finnst að fyrir því hafi verið færð mjög góð rök og ég hef farið yfir nokkur þeirra.

Frú forseti. Það á ekki að mínu mati að háeffa bara til háeffa. Það hentar ekki RÚV að gera það og ég hefði viljað sjá að Framsóknarflokkurinn í það minnsta spyrnti við fótum, eða þá setti af stað einhverja sýningu þar sem þeir þættust spyrna við fótunum, en hoppuðu ekki svona auðveldlega á vagninn.

Ég vil enn og aftur taka fram að auðvitað fer um mann þegar vinnubrögðin hafa verið með þeim hætti sem ég rakti hér í upphafi. Þetta mál hefur verið keyrt í gegn algerlega af ríkisstjórninni eða orðið til í einhverju samkomulagi innan ríkisstjórnarinnar. En ekki hefur verið tekið þverpólitískt á því eins og á fjölmiðlamálinu í heild sinni og þetta varð til í leynd og pukri. Og síðan það að þeir sem helst fara fyrir málinu á þingi eru sömu menn og lögðu til að selja ætti Ríkisútvarpið. Þetta er ekki, frú forseti, mjög sannfærandi fyrir okkur sem viljum reka öflugt almannaútvarp til framtíðar og við erum á móti því að Ríkisútvarpið verði selt. Ég verð að viðurkenna og vera einlæg að þetta er ekki mjög sannfærandi.

Frú forseti. Ég get ekki lokið máli mínu nema að fjalla örlítið um nefskattinn sem á að setja á landsmenn samkvæmt frumvarpinu. Ég tel nefskattinn afar vonda leið til að fara til að fjármagna Ríkisútvarpið og mér finnst þetta arfavond hugmynd. Hún mismunar borgurum landsins. Hún getur leitt til mikils álags á stórar fjölskyldur þar sem ungmenni yfir 16 ára eru í heimahúsum. Það getur lagt miklar álögur á slíka hópa.

Frú forseti. Þetta er pólitík sem mér líkar illa, þessi nefskattur. Honum hefur verið mótmælt í fjölda af umsögnum. Mér finnst þetta svo sem vera dæmigert fyrir hugmyndaleysi ríkisstjórnarinnar að þegar afnotagjöldin eru umdeild, og vissulega eru þau umdeild, þá dettur mönnum ekkert annað í hug en að leggja nefskatt á menn.

Mér þykir afar merkilegt að í umsögn ríkisskattstjóra er slíkri leið beinlínis mótmælt harðlega.

Þar er sagt að helsti ókostur nefskatts sé að hann taki ekki tillit til greiðslugetu og hann sé íþyngjandi fyrir tekjulága. Ríkisskattstjóri gagnrýnir þessa leið mjög harðlega og segir hana í rauninni gamaldags vegna þess að hann rekur hér sögu nefskatts og greinir frá því í umsögninni að fyrr á öldum hafi nefskattar verið algengir en séu að mestu horfnir í dag og þetta sé því gamaldags. En það sem mér þykir allra mikilvægasti kaflinn í þessari umsögn ríkisskattstjóra er að allstór hópur manna hefur miklar tekjur af eignum en lágar launatekjur og yrði undanþeginn nefskattinum. Þessi ríkisstjórn ætlar því enn einu sinni að leggja skatt á venjulega launamenn og algjörlega óháð tekjum og stórir fjármagnstekjuskattsgreiðendur verða undanskildir greiðslu á þessum skatti vegna þess að það eru ákveðin frítekjumörk. Það segir hér að þá verði skattfrelsismörk samkvæmt frumvarpinu með þeim annmarka að eingöngu sé miðað við almennar tekjur, þ.e. launatekjur og þess háttar, en ekki fjármagnstekjur. Þetta skiptir mjög miklu máli vegna þess að í fyrirliggjandi tilviki er þetta þannig að sá hópur sem hefur mjög lágar launatekjur en mjög háar tekjur af eignum þarf ekki að greiða þennan skatt.

Þetta finnst mér klassískt dæmi um það hvernig þessi ríkisstjórn hugsar eða réttara sagt hversu stutt hún hugsar málið. Hún hugsar málin ekki til enda og á hverjum bitnar það svo á endanum? Jú, það bitnar á þeim tekjulægstu og það bitnar á fjölskyldunum. Það bitnar á þeim fjölskyldum þar sem unglingar yfir 16 ára aldri búa í heimahúsum og hafa einhverjar örlitlar tekjur en þó ekki nægilegar til að standa á eigin fótum.

Frú forseti. Þessi skattur á eftir að verða afar umdeildur. Hann felur í sér mismunun milli borgaranna eftir fjölskyldustærð og því hvernig menn skila skatti sínum, hvort það er í gegnum tekjuskatt eða fjármagnstekjuskatt. Við vitum að venjulegt launafólk hefur enga möguleika á að breyta skatttekjum sínum yfir í fjármagnstekjuskatt. Það geta hins vegar hinir efnameiri sem lifa á eignum en lágum launatekjum. Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta er ekki sú leið sem við eigum að fara til að fjármagna Ríkisútvarpið. Þetta er ekki gert til að skapa sátt um það hvernig Ríkisútvarpið er fjármagnað.

Annað sem mér finnst líka mikilvægt að nefna í þessari umsögn ríkisskattstjóra, sem mér þykir merkilegt, að samkvæmt þessu frumvarpi er líka ráðgert að skattleggja lögaðila. Þá bendir ríkisskattstjóri á að lögaðilar sem yrðu gjaldskyldir samkvæmt frumvarpinu eru um 26 þúsund. Hann nefnir að af þeim hafi um helmingur greitt tekjuskatt eða aðra skatta til ríkissjóðs. Því væru nýir skattgreiðendur úr röðum lögaðila 13 þúsund þegar þetta frumvarp hefur verið gert að lögum. Þá segir líka í þessari umsögn að vert sé að hafa í huga að ætla mætti að verulegur hluti hinna nýju skattgreiðenda yrðu félög sem ekki séu starfandi og hafi því engar tekur til að greiða gjaldið af.

Frú forseti. Þetta er afar merkileg umsögn og ég vil hvetja menn til að lesa hana vel vegna þess að þar koma fram mjög sterk sjónarmið gegn þessari leið, gegn því að fara nefskattsleiðina, þar sem bent er á að bæði mismuni hún borgurunum og taki ekkert tillit til greiðslugetu og að með henni sleppi í rauninni þeir sem hafa háar fjármagnstekjur en lágar launatekjur.

Sömuleiðis vil ég benda á í þessu sambandi að ASÍ nefnir þessa sömu fjármögnunarleið. Þeir lýsa yfir efasemdum við þessa fyrirhuguðu breytingu á fjármögnun Ríkisútvarpsins og hafa farið ágætlega yfir það og ég ætla ekkert að endurtaka það hér.

Frú forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu en það eru fleiri atriði sem mér þykja afar óljós og vægast sagt líka sérkennileg. Vil ég þar t.d. nefna að það hlutafé sem ætlað er til Ríkisútvarpsins hljómar eins og lélegur brandari frekar en einhver raunveruleiki. (Gripið fram í.) Þetta er ekkert annað en skrípaleikur, svo það orð sé notað hér í annað skipti í dag. Þetta segir manni kannski dálítið hvert menn eru fara. Það er ekki verið að búa til hlutafélag, hvers vegna ætla menn að halda því til streitu með þessum hætti og segja síðan lélegan brandara í frumvarpinu með því að ætla að leggja til 5 milljónir í hlutafé til þessarar stofnunar?

Starfsmenn Ríkisútvarpsins eru afar uggandi um stöðu sína verði þetta frumvarp að lögum. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga en hv. þm. Ögmundur Jónasson og fleiri hafa farið hér ítarlega yfir það. Við fengum nýlega ályktun frá starfsmannafundi um þetta frumvarp þar sem óskað er eftir skýrari upplýsingum um það hvernig fyrirtæki stjórnvöld vilji búa til á grunni hins gamla. Síðan lýsa starfsmenn furðu á að ekki hafi verið tekið nokkurt tillit til umsagna sem bárust menntamálanefnd. Þeir spyrja hérna, sem mér finnst mjög viðeigandi spurning og er líka viðeigandi í mörgum öðrum málum að spyrja þessara spurninga, um tilganginn með því að setja fólk í vinnu við slíka álitsgjöf. Við þekkjum það öll sem hér störfum að ráðherrarnir semja um það sín í milli hvaða mál eigi að fara í gegn. Það kemur fram í umsögnunum að þetta skipti í rauninni engu máli. Það koma fram kröftug mótmæli en á þau er ekki hlustað trekk í trekk, í máli eftir máli. Það er ekkert skrýtið, það var að mínu mati spurning um tíma hvenær álitsgjafar, sem í rauninni er kallað í í fullkominni sýndamennsku, færu að efast um að tíma þeirra væri vel varið við að gefa Alþingi álit á þeim málum sem fyrir liggja.

Þetta er ekki gott fyrir þingið. Þetta er ekki gott fyrir störf okkar í framtíðinni því að svona álitsgjöf er gríðarlega mikilvæg, en á hana verður þá líka að hlusta. Á hana hefur ekki verið hlustað í þessu máli frekar en öðrum.

Frú forseti. Ég vil líka taka undir þær kröfur starfsmanna að réttindi þeirra verði tryggð þegar þetta frumvarp hefur orðið að lögum og tek ég undir það sem hér hefur verið sagt um þau mál.

Frú forseti. Örstutt í lokin. Ég nefndi það við 1. umr. um málið að það væru nokkur atriði sem væru óljós, t.d. í 4. og 5. gr. frumvarpsins. Þetta eru ofsalega opnar greinar, ég hnaut um textann í 4. og 5. gr. frumvarpsins, Önnur starfsemi og Fjárhagslegur aðskilnaður. Mér finnst ekki skýrt í frumvarpinu hvað ríkisfyrirtækinu Ríkisútvarpinu hf. verði heimilt að gera umfram skilgreininguna á hlutverki þess sem almannaútvarps. Miðað við textann í frumvarpinu virðist nánast allt leyfilegt ef fjárhagur þess verkefnis verður aðskilinn frá rekstrinum sem snýr að almannaútvarpi og skyldum þess, samkvæmt 3. gr. Ef maður skoðar þetta í samhengi við 12. gr. sér maður að þarna er allt opið í þessum efnum.

Mér finnst þetta óskýrt og það er óskýrt hvaða samkeppnisrekstur RÚV má fara í. Ég spyr hvort ekki sé eðlilegt að setja þessu einhver mörk. Það hefur ekki komið fram í þessari umræðu hvort þetta eigi að vera alveg opið. Við höfum séð t.d. að stuttermabolir hafa verið til sölu á vefsíðu Ríkisútvarpsins. Eru menn að tala um slíka starfsemi? Ætla menn hugsanlega að fara að selja sjónvarpstæki og bara ef þau eru merkt Ríkisútvarpinu sé það í lagi? Hvað eru menn að fara með þessu? Þetta er svona eitt atriði sem mér hefur í rauninni þótt allt of opið og einmitt vegna þess að við verðum að hafa í huga að Ríkisútvarpið er ekki eins og hvert annað fyrirtæki.

Frú forseti. Í lokin vil ég nefna að mér finnst afar mikilvægt að fréttastofurnar séu varðar og að réttur fréttastofu til sjálfstæðrar umfjöllunar sé tryggður. Samfylkingin hefur lagt fram þingsályktunartillögur og annað í þeim efnum. Sömuleiðis kemur það líka fram í umsögn Félags fréttamanna að mjög mikilvægt sé að setja eldveggi til að verja sjálfstæða umfjöllun fréttastofa. Ég vil gjarnan taka undir það. Þar segir, með leyfi forseta:

„Tryggja þarf í frumvarpinu fullkomið sjálfstæði fréttaritstjórnanna gagnvart útvarpsstjóra.“

Þar segir jafnframt að tryggja þurfi fullkomið sjálfstæði fréttaritstjórnanna gagnvart markaðsdeild og annarri þeirri starfsemi RÚV hf. sem á sitt undir auglýsendum eða kostendum efnis.

Þá segir (Gripið fram í.) jafnframt í þessari umsögn að tryggja þurfi …

(Forseti (RG): Gera svo vel og gefa ræðumanni gott hljóð.)

Þá segir í þessari umsögn að tryggja þurfi við ráðningar fréttamanna að farið sé að faglegum sjónarmiðum, forsendur séu öllum ljósar og fréttamenn gangist undir hæfnispróf áður en þeir eru ráðnir. Síðan segir jafnframt að tryggja þurfi stofnunni örugga tekjustofna.

Frú forseti. Á þetta verðum við einnig að hlýða. Þetta er auðvitað mjög mikilvægur þáttur í þessu máli eins og svo fjölmörg önnur svið sem hefðu átt að vera undir í þessari vinnu við breytingar á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmörg svið sem hefðu átt að vera undir ef menn hefðu unnið þetta almennilega en ekki í einhverjum bakherbergjum hjá ráðherranum og ríkisstjórninni, unnið þetta með fólkinu og lesið umsagnirnar, farið yfir þær og reynt að ná einhverri góðri sátt og samstöðu um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Það var ekki gert heldur ætla menn að keyra málið í gegn nánast óbreytt eftir umfjöllun nefndarinnar. Það eina sem hefur verið breytt er einhverjir vandræðalegir þættir sem snúa að Eftirlitsstofnun EFTA eða ESA. Í raun verð ég að harma að svo hafi verið vegna þess að ég hefði auðvitað kosið, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að menn hefðu tekið þetta í þverpólitískan farveg. Menn hefðu tekið þetta í þann farveg með að vinna þetta með starfsmönnum og fleirum hjá Ríkisútvarpinu, vinna þetta með fagaðilum en ekki í bakherbergjum í þeim eina tilgangi að því er virðist, að háeffa Ríkisútvarpið, sama hvar. Það er ekki leiðangur sem mér hugnast vegna þess að það er innihaldið sem skiptir máli. Á því hefur ekki verið tekið hér. Og að menn skuli leggja hér fram frumvarp með þó svona miklum breytingum á Ríkisútvarpinu án þess að taka á stærstu pólitísku spurningunum og álitaefnunum, eins og pólitísku íhlutunina og fjármögnunina, að menn skuli koma hér með frumvarp án þess að taka á því finnst mér alveg með hreinum ólíkindum.

Frú forseti. Ég hef lokið ræðu mínu um þetta mál a.m.k. í bili en ég hlakka til umræðunnar sem eftir er. Ég hvet stjórnarþingmenn til að sitja hér og fylgjast með þessari umræðu vegna þess að ég er alveg viss um að þeir verða einhvers vísari og vegna þess að þeir eiga ekki endalaust að láta orð ráðherra nægja um það hvernig þeir eigi á endanum að greiða atkvæði. Þeir eiga að vera sjálfstæðir.