132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:50]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil endurtaka spurningar mínar til hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um hver eigi að greiða og með hvaða hætti, ef það gæti komið í seinna andsvari.

Ég vil jafnframt fara örfáum orðum um það þegar hið fyrra frumvarp um Ríkisútvarp var lagt fyrir þá áttum við þess kost í menntamálanefnd að fá fjölmarga inn til nefndarinnar til skrafs og ráðagerða. Þá minnist ég þess að það komu aðilar frá öðrum fjölmiðlum sem í dag eru samkeppnisaðilar og munu verða samkeppnisaðilar RÚV hf. Þeir óttuðust mjög um hag sinn þegar búið væri að breyta Ríkisútvarpinu í hf., það yrði straumlínulaga og það færi að mynda virkilega samkeppni á þessum markaði. Þessir aðilar óttuðust þetta og töluðu um það í nefndarstarfi. Mér fannst það vera besti vitnisburður fyrir því að þá mundum við nýta þá fjármuni sem borgararnir greiða til þessarar starfsemi sem allra best til handa hlustendum. Við mundum hafa meiri gæði og þjónustan væri betri. Þetta sögðu þessir aðilar klárlega.

Svo vitnar hv. þingmaður í forustugrein Fréttablaðsins sem Þorsteinn Pálsson skrifar og þar kemur þetta sama fram. Hann kærir sig ekkert um að fá þennan ríkisfjölmiðil í samkeppni á sama grunni og önnur félög og fyrirtæki á þessum markaði. Við gerum okkur grein fyrir því að almenningshlutverkið verður aðskilið í bókhaldi. Það verður skilgreint sérstaklega og aðskilið í bókhaldi þannig að við þurfum ekki að óttast þann þátt að þessi stofnun reyni ekki að standa sig á þeim vettvangi.

Ég vil endurtaka spurningu mína að lokum: Hver á að borga? Eru það þessir fjármagnseigendur?