132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:52]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hver á að borga? spyr hv. þingmaður. Við höfum talað fyrir því að fara blandaða leið. En hvaða leið sem við mundum á endanum velja, því það eru fjölmargar leiðir sem hægt er að fara, þá það er lykilatriði að sú leið verði ekki íþyngjandi fyrir hina tekjulægstu, og að þeir sem greiði þetta séu þeir sem greiði tekjuskatt eða skatt af launatekjum sínum, meðan fjármagnseigendur, sem er allstór hópur manna sem eins og segir í umsögn ríkisskattstjóra gefur upp það lágar launatekjur en greiðir hins vegar mikinn fjármagnstekjuskatt, mundu falla undir frítekjumarkið og þyrftu því ekki að greiða þennan nefskatt. Það er ósanngjörn leið, frú forseti, og það er ekki sú leið sem við í Samfylkingunni viljum fara til að fjármagna Ríkisútvarpið. Ég nefni enn og aftur að það eru fjölmargar leiðir til og margar hafa verið nefndar og við viljum fara blandaða leið þannig að hún sé ekki að íþyngja einum hópi á meðan öðrum er sleppt við skatt. Það er lykilatriði, frú forseti.

Það sem ég vil segja að lokum er að það skiptir verulegu máli að við byggjum öflugt almannaútvarp til framtíðar og að Ríkisútvarpið verði í almannaeigu. Mér heyrist hv. þingmaður tala hér um Ríkisútvarpið eins og það sé sjálfsagt og eðlilegt að þetta sé fyrirtæki í samkeppni á markaði. Það er ekki sú sýn, frú forseti, sem ég hef á Ríkisútvarpinu heldur er þetta almannaútvarp sem hefur þjónað menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki í samfélaginu. Við eigum að láta öðrum eftir að standa í samkeppni um bandarískt eða erlent afþreyingarefni sem nóg er af hér, ekki Ríkisútvarpið.