132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:56]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get sagt hv. þingmanni það, vonandi til léttis, að ég hlustaði á ræðu hans undir morgun þar sem það vofði yfir mér að þurfa að koma hingað til að flytja mína ræðu því ég var á eftir honum á mælendaskrá og þess vegna fylgdist ég auðvitað með umræðunum í sjónvarpinu heima hjá mér í þeirri von þó að ég þyrfti ekki að kalla út barnapíu um miðja nótt til að mæta hingað í þann leik sem hér átti sér stað á þessum tíma.

Ástæðan fyrir því að það kom ekki fram í máli mínu að ég hefði hlustað á ræðu hv. þingmanns er sú að það er stór munur á því hvort opinbert hlutafélag falli undir upplýsingalög eða hvort þingmenn geti sent þeim skriflegar fyrirspurnir á aðalfundi. Það er himinn og haf þarna á milli og við í Samfylkingunni höfum sagt það klárlega að við viljum að Ríkisútvarpið falli undir upplýsingalög. Svo einfalt er það. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram tillögur hér á þingi í þá veru. Það er klárlega okkar skoðun að það að senda skriflegar fyrirspurnir á aðalfundi falli ekki undir upplýsingalög, frú forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti að skoða þetta aðeins betur. Ef hann sættir sig við það sem skattgreiðandi að eina aðkoma almennings og eiganda þessa fyrirtækis að upplýsingum um reksturinn séu í gegnum skriflegar fyrirspurnir þingmanna eða annarra á aðalfundum þá verð ég fyrir vonbrigðum með hv. þingmann vegna þess að við skattgreiðendur höfum rétt á því að fá allar þær upplýsingar sem við þurfum og viljum frá þessu fyrirtæki og því á það að sjálfsögðu að falla undir upplýsingalög.