132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:00]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vitnar hér til þess að það er tekin ein grein, greinin sem hv. þingmaður nefndi. Ég veit ekki hvort ég þarf að segja það aftur en sú skoðun okkar er skýr að Ríkisútvarpið á að falla undir upplýsingalög verði það að hlutafélagi. Það á að falla að fullu undir upplýsingalög. Láta sér það nægja að þingmenn geti sent skriflegar fyrirspurnir á aðalfundi. Fyrirgefið, mér finnst þetta eins og lélegur brandari, frú forseti. Og segja að þar með sé sú röksemd fallin að Ríkisútvarpið falli ekki undir upplýsingalög. Þetta er eins og lélegur brandari og ég tel mig ekki þurfa að svara því frekar. Þetta á auðvitað að falla undir upplýsingalög alfarið.

Frú forseti. Að lokum vil ég — ég gleymdi því í fyrra andsvari mínu — biðja hv. þingmann afsökunar á því hvað ég talaði stutt. Hann hafði greinilega gert ráð fyrir að ég yrði hér mun lengur miðað við orð hans í upphafi andsvarsins. En ég skal reyna að taka mig á næst þegar við erum að ræða góð mál hér í þingsölum.