132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:01]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spurði um það í upphafi ræðu sinnar hvernig stæði á hjá hæstv. menntamálaráðherra. Nú er það auðvitað svo að þetta mál er á forræði þingsins eins og menn segja og vissulega er staddur hér hinn knái og ágæti hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar. En hann kemur ekki í stað menntamálaráðherra.

Það er ekki þannig að ég eða aðrir telji að ráðherra eigi nauðsynlega að vera viðstaddur allar umræður um sín mál. Þetta mál er hins vegar alveg sérstakt. Það er lagt ofurkapp á að koma því í gegn, ekki bara í gegnum nefndina, þaðan sem það var tekið vanbúið, heldur í gegnum þingið með miklum forgangi á öll önnur mál. Það er varið hér heilum þingdögum og heilli þingnótt fram til kl. 6, fram til kl. 6 stóðu fulltrúar meiri hlutans í forsetastóli fyrir því að þetta mál væri rætt og það kýlt áfram. Þegar um svona mál er að ræða, sem augljóst er að ráðherrann sjálfur hæstv. leggur mikla áherslu á, þá finnst mér full ástæða til að gera ráð fyrir að ráðherrann sé viðstaddur.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það hjá starfsmönnum sem geyma prótókoll þingsins að hæstv. ráðherra hefur ekki beðið um fjarvistarleyfi frá þingstörfum í dag.

Það er þannig í þingsköpum, þó menn glotti að því, að þingmenn eiga að mæta til þingfundar. Að minnsta kosti siðferðislega er það þannig að ef þeir geta ekki mætt í máli sem kemur þeim beinlínis mjög mikið við, eins og háttar til um hæstv. menntamálaráðherra og frumvarp hans um Ríkisútvarpið hf., þá eiga þeir að skýra það út fyrir þinginu og biðja um fjarvistarleyfi nema að svo standi á að þeir komi þá síðar.

Ég vil því spyrja — mér þótti svar forseta áðan heldur klént, en það var efnislega þannig að það væri kontóristi uppi í menntamálaráðuneyti sem tæki niður beinar spurningar til ráðherrans og þeim mundi verða svarað síðar, kannski skriflega, hver veit, eins og á aðalfundum hinna opinberu hlutafélaga samkvæmt hv. þm. Pétri Blöndal?

Ég vil spyrja forseta um það hvernig standi á með ráðherra. Er hann væntanlegur eða er hann í einhverjum þeim önnum að hann geti ekki komið hingað? Ef hann er það þá fer ég fram á að málinu verði frestað. Það verði tekið út af dagskrá og tekið inn á dagskrána aftur þegar hæstv. ráðherra getur látið svo lítið að vera viðstaddur umræðu um það.