132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:23]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þótti þetta langt mál, hátt og snjallt hjá þingmanninum og er ekki að svara því í neikvæðum dúr með þessari upptroðslu hér í stólinn heldur að segja frá því, af því að á það var minnst, að drög að samþykktum fyrir hlutafélagið Ríkisútvarpið hf. komu fram seint og um síðir í menntamálanefnd. Mér láðist að ræða um þessar samþykktir í framsöguræðu minni fyrir nefndaráliti minni hlutans og biðst afsökunar á því. Það var kannski vegna þess að í yfirferð minni yfir þær samþykktir sá ég ekkert í þeim merkilegt eða umfram það sem ég held að standi í nánast öllum samþykktum hlutafélaga og er aðeins farið eftir því formi sem tilgreint er í hlutafélagalögunum sem ég las hvað þetta varðaði fyrir hæstv. menntamálaráðherrasællar minningar.

Á þremur stöðum í frumvarpi því sem hér er til umræðu er hins vegar vitnað til samþykkta félagsins. Það er gert í 8. gr. þar sem talað er um að um réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins hf. skuli mælt nánar fyrir í samþykktum félagsins. Lestur minn á þessum samþykktardrögum hefur ekki leitt til þess að ég hafi séð á þessi réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins minnst enda veit ég ekki alveg hvað það ætti að vera að gera í þessum samþykktum. Það er því ekki í samþykktunum.

Í öðru lagi er talað um að starfssvið stjórnar ákveðist í samþykktum félagsins, samanber hlutafélagalögin, og þau gera það vissulega en ekkert umfram það sem hlutafélagalagagreinin segir til um.

Í þriðja lagi er talað um að það megi í samþykktum félagsins skilgreina nánar starfsvið útvarpsstjóra og í stuttu máli hefur sú heimild ekki verið nýtt í þeim drögum sem liggja fyrir.

Þetta vildi ég að kæmi fram í umræðunni og hef tækifæri til þess sjálfur að fara betur í þessi mál síðar í kvöld eða á morgun eða eftir helgi.