132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:34]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók það fram í fyrra andsvari mínu að þetta var yfirgripsmikil og löng ræða þannig að það er ekki hægt að fara inn á marga þætti. Það kom fram í ræðu hv. þingmanns og hann vitnaði þó nokkuð oft í ritstjóra Fréttablaðsins, Þorstein Pálsson, og fór um þann ágæta mann nokkrum orðum.

Mig langar til, með leyfi forseta, að rifja upp það sem sagt var um þann mann úr ræðustóli fyrr í vetur þar sem hv. þingmaður Mörður Árnason segir:

„Maðurinn sem velst, hver er hann? Það er gamall stjórnmálamaður, fyrrverandi sendiherra, nú á nokkuð vænum eftirlaunum, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem enn gegnir pólitískum störfum fyrir þann flokk. Hann situr í stjórnarskrárnefnd skipaður af Sjálfstæðisflokknum.“

Þetta er tilvitnun í Mörð Árnason um ritun sögu Alþingis, sögu stjórnarráðsins, þingræðisins og áfram, með leyfi forseta:

„… hvort Alþingi ætli sér að verða eins konar endurmenntunarstöð fyrir fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins.“ Segir hv. þingmaður. Ég spyr. Mér finnst að hinn ágæti ritstjóri verði orðinn hálfgerður endurmenntarstjóri Samfylkingarinnar. Hún les upp úr hans ágætu greinum og hann er orðinn einhvers konar endurmenntunarstjóri fyrir Samfylkinguna. Það má fagna því þar sem hv. þingmaður segir líka, með leyfi forseta:

„Það er auðvitað fróðlegt að vita hvað Þorsteini Pálssyni finnst um þingrofið 1931 eða myndun ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens …“

Við skulum fá svör við þessu hjá Samfylkingunni.