132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:32]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var eins og mig grunaði að hv. þingmaður hefur ekki kynnt sér málið nægilega vel þrátt fyrir að telja sig vera í þeirri stöðu að geta fullyrt að vinnubrögð í nefndinni hafi verið ámælisverð. Þau voru nefnilega ekkert ámælisverð og engum umsagnaraðilum var neitað að koma fyrir nefndina, síður en svo. Þeir voru allir kallaðir fyrir nefndina og sumir þeirra oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Það kom í ljós hér í andsvari hv. þingmanns að það virtist örla á einhverjum misskilningi af hennar hálfu. Sem betur fer viðurkenndi hv. þingmaður það.

En ég leyfi mér að bregðast við slíkum fullyrðingum og gagnrýna það þegar þau vinnubrögð sem ég viðhef ásamt stjórnarmeirihlutanum í menntamálanefnd eru kölluð ámælisverð. Þau eru það ekki. Hins vegar er rétt að fram komu beiðnir um að aflað yrði álits Evrópuráðsins fyrir nefndina en við því var ekki orðið og ég gerði grein fyrir því í ræðu minni í 2. umr. að ég teldi ekki ástæðu til þess enda tilmæli Evrópuráðsins ekki bindandi fyrir hið háa Alþingi. Það er hér sem löggjafarstarfið fer fram, herra forseti, það erum við sem förum með löggjafarvaldið en ekki Evrópuráðið.

Það er líka rétt að eftir því var óskað að ríkisendurskoðandi og Samkeppniseftirlitið kæmu fyrir nefndina en ég taldi að það væru engin efni til þess að fá þessa tvo aðila. Það er vegna þess að þessir tveir aðilar starfa samkvæmt lögum og það er engu við þau lög að bæta. Menn geta lesið um það í lögum um Samkeppniseftirlitið og um Ríkisendurskoðun hvaða verkefnum þessar stofnanir sinna og hvert hlutverk þeirra er og þar við situr.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvað vinnist með því að breyta rekstrarfyrirkomulaginu, (Forseti hringir.) þá bendi ég hv. þingmanni á að lesa frumvarpið. (Forseti hringir.) Upplýsingar um það koma þar fram.