132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Hækkun olíuverðs.

[10:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er auðvitað ýmislegt til í því sem hv. þingmaður hefur nefnt í ræðu sinni hvað varðar orsakir fyrir því að olíuverð hefur hækkað og hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér. Hins vegar er málum þannig háttað og hefur sú þróun sem á sér stað í efnahagslífinu leitt til þess að við þurfum að skoða þetta mál í heild sinni, án þess að vera kannski sérstaklega að einblína á þessa einu tilteknu vörutegund þó hún sé auðvitað bæði mikilvæg og sérstæð. Og að þær aðgerðir sem við grípum til séu byggðar á því að taka mið af heildarþróun efnahagsmálanna en ekki því hvernig einstakar vörutegundir þróast. (Gripið fram í: Hvað með Íbúðalánasjóð?) Sú þróun getur verið býsna hröð og skjótt skipast veður í lofti hvað varðar olíuverð, við gætum átt eftir að sjá einhverjar frekari breytingar á næstunni en hverjar þær verða get ég ekki sagt neitt nákvæmlega til um. Eins og sakir standa held ég að við verðum að horfa til heildarinnar hvað þetta varðar og til þess hvernig málin munu þróast hjá okkur áður en við förum að velta fyrir okkur einhverjum aðgerðum eins og hv. þingmaður er að boða í máli sínu.