132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Hækkun olíuverðs.

[10:46]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt að innrásin í Írak, sem við áttum aðild að fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar, hefur leitt til hækkunar á olíuverði á heimsmarkaði. Meginatriðið er þó þetta: Þróun bensínverðs á síðustu vikum og hugsanlega á komandi vikum sýnir okkur svo ekki verður um villst að tilrauninni með íslensku krónuna er lokið.

Það er einfaldlega ekki við það búandi fyrir almenning í nútímalegu og alþjóðlegu viðskiptasamfélagi að fá á sig 25% gengisfellingu á örfáum mánuðum. Að búa við einhvers konar tilraunastarfsemi með gjaldmiðil, minnstu flotkrónu í heimi, sem sveiflast í verðlagi um tugi prósenta á örfáum vikum, sem aftur hefur áhrif á hina séríslensku verðtryggingu, sem aftur hækkar skuldir heimilanna um 45 milljarða, jafnvel þó þetta væri bara skot en ekki skeið, og gerir það um leið að verkum að almenningur hér býr við hæstu vexti í heimi.

Þróun bensínverðsins ásamt verðbólgu og vaxtaþróun í landinu sýnir okkur, svo ekki verður um villst, að það er algerlega nauðsynlegt að taka gengisstefnu landsins til rækilegrar endurskoðunar. Því svo illa er hægt að spá fyrir um þróun mála hér í þessu landi að þær spár sem við deildum um við fjármálaráðherra hér fyrir aðeins nokkrum mánuðum, spár um þróun efnahagsmála á Íslandi á þessu ári, eru langt í frá að ganga eftir. Öll viðvörunarorð okkar hér við fjárlagaumræðuna, um að vextirnir yrðu hærri, um að verðbólgan yrði hærri, um að gengismálin þróuðust á verri veg, eru að ganga eftir.

Það verður forvitnilegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) fara yfir hver er staðan í forsendum fjárlaga.