132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að dagskrá þingsins er án samvinnu og án samráðs við stjórnarandstöðuna. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt áherslu á að öllum þeim frumvörpum sem ekki er beinlínis aðkallandi að afgreiða nú undir lok þinghaldsins verði vikið til hliðar og Alþingi taki til umræðu þau mál sem brenna á þjóðinni. Þar er ég að sjálfsögðu að tala um efnahagsmálin.

Ég er að tala um skattamálin, aðgerðir til að tryggja stöðu þeirra stofnana sem sinna öldruðum og fötluðum þannig að þær geti greitt starfsfólki sínu mannsæmandi laun. Við heyrum formenn stjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, koma fram í fjölmiðlum og segja að allt sé í lukkunnar velstandi hjá heimsins skuldugustu þjóð. Við heyrum hæstv. iðnaðarráðherra koma fram í fjölmiðlum og (Forseti hringir.) boða fagnaðarerindi álveranna. (GÞÞ: Er þetta fundarstjórn forseta?) (Forseti hringir.) Ég er segja, hæstv. forseti, að það er okkar krafa (Forseti hringir.) að þessum málum verði vikið til hliðar og að hér fari fram umræða um þau mál sem brenna á þjóðinni.

(Forseti (SP): Forseti ítrekar að hv. þingmenn sem kveðja sér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta ber að ræða um það mál en ekki efnislega um frumvörp eða annað sem þeir vilja koma á framfæri.)

Hæstv. forseti. Ég er að gera grein fyrir því hvers vegna og á hvaða forsendum ég gagnrýni fundarstjórn forseta (Gripið fram í: Málþóf.) og þinghald nú undir lok þings. (Gripið fram í: Málþóf.) Ég krefst þess að ég fá leyfi til þess og fái svigrúm til þess að koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Ég tel að það eigi að víkja til hliðar háeffvæðingargæluverkefnum ríkisstjórnarinnar sem hún setur í forgang þegar brýnt er að taka brennandi mál, efnahagsmálin, til umræðu í þinginu.

Ég tek undir með hv. þingflokksformanni Samfylkingar, um að (Gripið fram í: Talsmanni.) það er mikilvægt að hið umdeilda frumvarp um Ríkisútvarpið fari aftur til nefndar og fái rækilega skoðun þar. Við umræðuna hafa komið fram mörg álitamál, ekki aðeins gagnrýni á frumvarpið heldur og mörg álitamál sem verða að fá umræðu í nefndinni. Það verður að kalla til fulltrúa utan úr þjóðfélaginu til að upplýsa okkur og varpa ljósi á málið á nýjan leik. En ég tek undir þá kröfu sem fram hefur komið, hún er sameiginleg krafa stjórnarandstöðunnar.