132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:04]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem ekki upp til að ræða efnislega þau ágreiningsmál sem hafa verið reifuð í morgun heldur til að ræða um fundarstjórn forseta. Forseti þingsins veitir mönnum leyfi til að taka til máls undir ýmsum ákvæðum þingskapa. Eitt þeirra er að menn geta komið og tekið til máls til að bera af sér sakir. Formaður Sjálfstæðisflokksins kvaddi sér hljóðs áðan til að bera af sér sakir. Það er honum auðvitað frjálst. Hann taldi að ég hefði borið á hann sakir en það kom lítið fram um það í máli hans. Mál hæstv. utanríkisráðherra snerist eingöngu um það að bera sakir á þann er hér stendur. Mér er auðvitað alveg sama um það þótt hæstv. utanríkisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, komi og helli yfir mig úr myrkri sálar sinnar og allri þeirri örvilnan sem í huga hans býr yfir þeirri stöðu sem upp er komin. Honum er frjálst að gera það. Ég er alveg maður til að taka því.

En ég er líka maður til að viðurkenna það þegar mér verður á og biðjast afsökunar á því. Ég er eiginlega hingað kominn til að bera á mig sakir. Ég ætla að biðja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánssonar afsökunar á því að ég sagði áðan, í ræðustól, að hann hefði ekki haft kjark til að kveðja sér hljóðs og gera grein fyrir afstöðu sinni í því máli sem við ræddum þá. Hann hafði gert afstöðu sína mjög ljósa í fjölmiðli í morgun þar sem hann tók undir með þeim málflutningi sem ég hafði uppi áðan. Ég taldi einsýnt að hann yrði að láta þetta sjónarmið koma fram vegna þess að það er t.d. úr takti við formann Sjálfstæðisflokksins. Ég hafði hins vegar ekki gert mér grein fyrir því að hv. þingmaður hafði kvatt sér hljóðs en sökum þess hve margir höfðu gert það kom forseti honum ekki að. Það var því rangt af mér að halda því fram að hann hefði viljandi ekki reynt að koma fram skoðunum sínum og ég bið hann afsökunar á því.