132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrr til að ræða um fundarstjórn forseta og þinghaldið og hlaut fyrir gagnrýni af hálfu forseta þingsins, sem mér finnst misskipta svolítið gagnrýninni. Vísa ég þar t.d. í málflutning þess hv. þingmanns sem á undan mér talaði og hóf umræðu sína á allt öðru en því sem tengist á nokkurn hátt stjórn fundarins.

Hæstv. forseti benti réttilega á að boðað hefði verið til fundar með formönnum þingflokka kl. eitt. Það er alveg rétt. Fundarboðið kom rétt áður en þingfundur hófst. Ég spyr hæstv. forseta: Hvers vegna í ósköpunum var ekki boðað til þessa fundar í morgun?

Fyrr í vikunni var þinghaldið komið í fullkomna upplausn (Gripið fram í.) og við gagnrýndum ráðleysi stjórnar þingsins og gagnrýndum framkomu ríkisstjórnarinnar gagnvart stjórnarandstöðunni. Ég trúði því, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin og stjórn þingsins mundu reyna að vinna heimavinnu sína og kæmu núna undirbúin til leiks. Hvers vegna í ósköpunum var ekki boðað til fundar fyrr í morgun og málin rædd áður en þingfundur hófst?

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að gagnrýna þessi vinnubrögð harðlega.