132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:12]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt að minna þingmanninn sem hér stendur á að hér sé rætt um fundarstjórn forseta. En ég segi eins og hv. þingflokksformaður Vinstri grænna, að kannski hefði mátt hafa orð á því við hv. þingmann sem hér talaði áðan. Hún er misskipt gagnrýnin úr ræðustól forseta, sem er ekki vanalegt.

Við þingflokksformenn höfum átt mjög gott samstarf við forseta þingsins fram að þessu en ekki um þá dagskrá sem hér er í dag. Við höfum rætt um nauðsyn þess að fara vel yfir mál sem á að afgreiða og þyrfti að afgreiða, ef ekki verður um það mjög mikill málefnalegur ágreiningur. Það á að fara til félagsmálanefndar, mál frá hæstv. félagsmálaráðherra. Við erum líka tilbúin til að afgreiða með stuttum fyrirvara aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að lækka verð á olíu og bensíni.

Við þessa umræðu um RÚV hefur komið fram að vaxandi ágreiningur er um málið í þingsölum og vaxandi ágreiningur um það úti í þjóðfélaginu og eins meðal starfsmanna RÚV. Er þetta málefnaleg umræða umfram það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom með hér áðan? Af því að það er leyfilegt, virðulegur forseti, að tala um að skottið á milli lappanna á mönnum þá held ég að þannig hafi það verið allan tímann í störfum hans í menntamálanefnd.