132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:20]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vona að það sé á sínum stað að ræða undir þessum lið um undirbúning fundarhaldsins hverju sinni, að það geti fallið undir fundarstjórn forseta. Það er þannig í rússnesku Dúmunni að fundur hvers dags hefst á umræðum um dagskrá fundarins. Til þess er ætlaður hálftími, ef þörf krefur, að ræða verkefni dagsins. Fundurinn gengur síðan sjálfur frá dagskránni, með atkvæðagreiðslu ef með þarf. Það er í grunninn mjög lýðræðislegt fyrirkomulag og er kannski til umhugsunar að taka það upp hér — ef hv. þingmenn vilja aðeins leggja eyrun við og hafa hemil á kæti sinni. Það er auðvitað hin almenna fundavenja og samkvæmt fundarsköpum að fundurinn sjálfur ræður dagskrá sinni.

Þessu er öðruvísi háttað á Alþingi Íslendinga og það er auðvitað forsetinn sem leggur lokahönd á undirbúning dagskrár. Það leiðir af sjálfu að það er ákaflega mikilvægt að um þá dagskrá sé reynt að hafa sæmilegt samkomulag. Menn takast síðan eftir atvikum á um það sem er á dagskránni þegar búið er að ganga frá henni. Ég held að það sé óheppilegt, frú forseti, að dag eftir dag sé ágreiningur um sjálfa dagskrána og það virðist ekki hafa verið reynt að hafa samráð um það hvort samstaða gæti þá verið um það hvaða mál væru á dagskránni.

Á miðvikudaginn var vikið til hliðar fyrirspurnadegi og annað mál einhliða sett á dagskrá, samkvæmt ákvörðun forseta væntanlega. Síðan endurtekur þetta sig í dag. Ég hefði t.d. talið æskilegt að menn hefðu í gær eða í morgun fundað, þótt ekki væri nema til að ræða það eitt hvort hægt væri að hafa eitthvert samkomulag um það hvað yrði á dagskránni í dag og hvernig fundarhaldinu yrði háttað.

Það er fleira en bara dagskráin sem þarf að athuga. Starfsáætlun þingsins er orðin breytt. Það stóð til að nefndir héldu fundi, það yrðu nefndadagar, og við vitum ekki einu sinni hvenær þeir þá verða. Ég held að þetta gangi ekki fram með mjög skilvirkum hætti og ég held að virðulegur forseti verði að horfast í augu við það að þingmenn hafa ýmis efni til þess að gera athugasemdir við þetta vinnulag og þessa fundarstjórn eða þetta skipulag þinghaldsins.

Ég held líka að þingið geti ekkert einangrað sig og sína vinnu frá andrúmsloftinu í þjóðfélaginu og ég hef miklar efasemdir um að þjóðin telji brýnast að Alþingi fjalli núna um þessi hlutafélagafrumvörp ríkisstjórnarinnar í stað þess að taka t.d. fyrir verðbólgumálin, efnahagsmálin, kjaramálin og ýmislegt sem þar hangir á spýtunni og það ástand sem er í (Forseti hringir.) þjóðfélaginu. Ég bið virðulegan forseta að hafa í huga að það eru ýmis efni til að menn geri athugasemdir.