132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:24]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í Rómaveldi hinu forna, þegar Róm var það sem við köllum lýðveldi, res publica, háttaði svo til um stjórnarskrá þeirra Rómverja að leyfilegt var að kippa úr sambandi hinum venjulega gangi mála með senatinu og konsúlunum, pretorunum, edílunum og öllum þeim embættismönnum sem þar voru fyrir hendi, en konsúlarnir eins og við munum sátu tveir í eitt ár og höfðu neitunarvald hvor á annan. Þannig var stjórnkerfið að vísu tiltölulega lýðræðislegt ef maður tekur hinn frjálsa hluta Rómaveldis en var nokkuð þungt í vöfum.

Leyfilegt var að kjósa einn mann til ábyrgðar og valda. Diktator hét hann. Það mátti kjósa hann í þann tíma sem þyrfti þegar neyðarástand kom upp. Hann gat kippt úr sambandi öllu því stjórnkerfi sem fyrir hendi var og gefið út tilskipanir, t.d. þegar innrás var gerð eða þegar efnahagsástandið var þannig að það þurfti að grípa til sérstakra ráðstafana, og það mátti kjósa hann í sex mánuði samtals.

Ég sé ekki betur en að nú hafi sá voði færst að þjóðinni að forseti þingsins hafi með svipuðum hætti tilnefnt sjálfan sig diktator yfir Alþingi Íslendinga og kosið sjálfan sig …

(Forseti (SP): Forseti gerir athugasemd við þennan málflutning hjá hv. þingmanni og beinir til hans að lesa og kynna sér þingsköp Alþingis þar sem kemur ótvírætt fram hvaða vald forseti Alþingis hefur til að setja mál á dagskrá hér og annað því um líkt.)

Forseti. Ég skil ekki þessa athugasemd og get því ekki farið eftir henni. Það sem ég segi er það að ég saka forseta Alþingis alls ekki um það að hafa ekki farið að þingsköpum frekar en ég saka senatið um það á sínum tíma í Róm að hafa ekki haft leyfi til að kjósa þennan diktator. Senatið kaus diktatorinn og hér hefur forseti þingsins tekið sér það vald að kjósa sjálfan sig sem diktator, diktator sem kippti úr sambandi starfsáætluninni, sem ekki hefur samráð við þingflokksformenn um störf þingsins og setur sjálf án nokkurs samráðs þau mál á dagskrá sem henni þykja brýnust. Hver skyldu þau mál nú vera, á tímum þar sem olíuverð hefur aldrei verið hærra, á tímum þar sem hlutabréf falla, á tímum þar sem krónan sígur í gengi og á tímum þar sem fjölmörg mál eru á ferð innan þingsins sem krefjast brýnna úrlausna?

Við fjölluðum í menntamálanefnd í morgun um frumvarp um framhaldsskóla og það þarf að samþykkjast hér ef koma á í veg fyrir þann skrípaleik að boðað verði í vor til samræmdra prófa sem enginn vill. Er það á dagskrá? Eru gengismálin á dagskrá í þinginu? Hverjar eru þær brýnu ráðstafanir sem diktator þingsins telur sig þurfa að fylgja fram hér núna? Stofnun hlutafélags (Forseti hringir.) um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.