132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:34]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegur forseti. Mér sýnist að sá spádómur sem ég hafði uppi þegar ég kom í ræðustól fyrir tveimur sólarhringum, þ.e. á miðvikudaginn þegar við ræddum líka um fundarstjórn forseta, að hér stefndu málin í algeran hnút, sé núna orðinn að veruleika.

Við sem erum á hinu háa Alþingi erum núna búin að sólunda nálega 50 mínútum í umræður um fundarstjórn forseta. Við hefðum getað notað þessar mínútur til að ræða um miklu meira aðkallandi og mikilvægari hluti, eins og til að mynda stöðu efnahagsmála. Það er heldur betur ekki vanþörf á að ræða hana í þingsalnum. Mér sýnist að ríkisstjórnin sé algerlega ráðþrota í þessu ástandi þar sem eldsneytisverð er að fara í hæstu hæðir, verðbólgan rýkur til himna eins og flugeldur, vextir hækka og lífskjör almennings í landinu stórversna frá degi til dags.

Ég geri það að tillögu minni, virðulegi forseti, að núna verði gert hlé á þingfundi þannig að formenn þingflokka komi saman, ræði þessa stöðu og reyni að finna einhverja leið út úr þeirri torfæru sem við höfum ratað í. Ég sagði á miðvikudag og ég segi það enn að þetta er engum til framdráttar, þetta ástand sem núna er í þinginu. Það rennur mjög hratt úr stundaglasinu. Við höfum ekki mikinn tíma til stefnu, mörg aðkallandi mál bíða afgreiðslu og við getum ekki leyft okkur að eyða tímanum í svona rugl dag eftir dag. Við verðum hreinlega að setjast niður og finna einhverja lausn á þessu, komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig við ætlum að lenda þessum málum.

Mér finnst því miður, ég verð að segja það, að fundarstjórn forseta hafi ekki verið að fullu laus við það að sæta ámælum. Hvers vegna í ósköpunum var ekki fundur með formönnum þingflokka í morgun? Ég fæ í símann minn SMS-skilaboð í morgun kl. 10.15, korteri áður en þingfundur á að hefjast: „Fundur hjá forseta kl. 13 í dag, 21. apríl, formenn þingflokka.“ Svo stendur hérna: „Hver var að hringja? Sendu SMS í 118. Já er svarið.“ Þetta eru skilaboðin til formanna þingflokka korteri áður en þingfundur á að hefjast þegar allt er í hnút í þinginu.

Ég segi það enn og aftur, virðulegur forseti, ég mælist til þess að nú verði gert hlé á þingfundi og að við formenn þingflokka hittumst og ræðum málið með hæstv. forseta.