132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér til að taka undir þau orð hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar að hér verði gert hlé og að stjórnendur þingsins, forsetar og þingflokksformenn, komi saman og ræði um framhaldið. Ég hefði talið skynsamlegast að það hefði verið gert í gær áður en dagskrá var send út en þetta er nú staðreynd, við stöndum frammi fyrir þessu.

Hér hafa verið bornar fram mjög alvarlegar athugasemdir við það hvernig þingi er fram haldið. Þetta er orðið eins og ofsatrú, þessi fórn Ríkisútvarpsins. Það að fórna Ríkisútvarpinu er orðið eitthvert ofsatrúarmál í þingsal þannig að ekki má halda uppi eðlilegum þingstörfum. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að hlé verði gert á fundum þingsins og að menn fari yfir það hvernig störf þingsins geti haldið áfram í dag með eðlilegum hætti eftir því sem tök eru á.