132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[13:34]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Nýverið kom fram í fjölmiðlum að 100 hjúkrunarfræðinga vanti til starfa á LSH og að mannekla komi niður á þjónustu við sjúklinga. Mikill skortur er líka á sjúkraliðum og aðstoðarfólki en fram hefur komið, m.a. hjá landlækni, að á Íslandi séu hlutfallslega miklu færri hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar starfandi en annars staðar á Norðurlöndum og er munurinn tvö- til þrefaldur. Fram kom að 20 deildir sjúkrahússins væru undirmannaðar og að starfsfólk hefði áhyggjur af mistökum vegna álagsins. Meðal annars hefur komið fram að vegna ástandsins hafi sjúklingum verið haldið sofandi í öndunarvél lengur en þörf krefur og að fólk þurfi að bíða lengur eftir brýnum aðgerðum sem sýnir alvarleika málsins.

Þessi staða er því grafalvarleg, svo alvarleg að ástæða er til að ræða hana á þessum vettvangi og leggja fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra nokkrar spurningar af því tilefni. Fram hefur líka komið að ekki sé útlit fyrir að ástandið batni á næstunni, að sögn hjúkrunarforstjóra Landspítalans. Sífellt fleiri störf hlaðast á herðar hjúkrunarfræðinga sem margir hverjir vinna nær allar helgar tvöfaldar vaktir og mikla yfirvinnu. Sama gildir um sjúkraliða.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé sammála því sem fram hefur komið í ályktun á fundi hjúkrunarráðs LSH fyrir skömmu og hvort hún muni láta fara fram sérstaka rannsókn á því að mannekla hafi komið niður á gæðum þjónustunnar, að öryggi sjúklinga sé ógnað og mistök hafi verið gerð vegna mikils álags á starfsfólk. Sé svo er sannarlega ekki við starfsfólk LSH að sakast eins og hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða eða ófaglært starfsfólk. Þetta fólk sem býr við mjög erfiðar aðstæður og ómanneskjulegt vinnuálag á sannarlega hrós skilið fyrir að halda þetta út og hefur iðulega gert kraftaverk við að bjarga mannslífum. Við getum verið stolt af þessu heilbrigðisstarfsfólki og þeim verðmætum sem starf þess skilar okkur.

Nú hefur þetta starfsfólk, virðulegi forseti, eins og hjúkrunarfræðingar, sent út neyðaróp og ákall til stjórnvalda og löggjafarþingsins. Mælirinn er fullur. Það er búið að fá meira en nóg. Það er að kikna undan þeim óviðunandi aðstæðum sem því eru búnar og varar við því að hættan á mistökum aukist vegna þessa gífurlega álags sem það er undir.

Það er því ekki bara starfsfólksins vegna sem grípa þarf strax til aðgerða heldur er þetta ófremdarástand fullkomlega óboðlegt, bæði starfsfólki, sjúklingum og aðstandendum þeirra. Hjúkrunarfræðingarnir segjast ekki geta hlaupið hraðar eftir göngum sjúkrahússins til að veita brýna þjónustu og bjarga mannslífum. Þeir mótmæla réttilega þeirri óvirðingu sem störfum þeirra er sýnd, knúið er á um sífellt meira vinnuálag þannig að unnið er undir öryggismörkum og segja hjúkrunarfræðingar að mistök séu óhjákvæmileg undir því gífurlega álagi sem þeim er búið.

Nú er spurningin sú hvort ríkisstjórnin ætli, hæstv. heilbrigðisráðherra, að svara þessu neyðarópi og ákalli frá starfsfólki LSH því að ábyrgðin er stjórnvalda. Þau geta ekki látið þetta ófremdarástand viðgangast lengur.

Því er hæstv. ráðherra líka spurð að því hvort hún hyggist grípa til bráðaaðgerða vegna ástandsins nú, eins og t.d. að ráða fleira aðstoðarfólk til starfa. Eins spyr ég ráðherrann um langtímaúrræði sem sannarlega eru nauðsynleg, bæði vegna fjöldatakmarkana í hjúkrunarfræðinámi — fjölga þarf brautskráðum hjúkrunarfræðingum úr 118 í 140–150 árlega að mati formanns hjúkrunarfræðingafélagsins, Elsu B. Friðfinnsdóttur — og eins að búast megi við að fjöldi starfandi hjúkrunarfræðinga muni á næstunni eiga rétt á að fara á lífeyri samkvæmt 95 ára reglunni. 40% starfandi hjúkrunarfræðinga eru fædd á sjötta áratug síðustu aldar og má því ætla að mannekla í hjúkrun verði nánast óviðráðanleg innan fárra ára að mati formanns hjúkrunarfræðinga ef ekkert verður að gert.

Loks spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað vantar marga hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ófaglærða til að hægt sé nú að halda uppi lágmarksþjónustu og að öllum öryggiskröfum sé fullnægt? Hvernig hyggjast stjórnvöld mæta langtímaþörf fyrir hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða? Og ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki nauðsynlegt að marka stefnu í mönnun heilbrigðisstofnana eins og Sjúkraliðafélag Íslands hefur lengi kallað eftir?

Ég spyr líka í þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra: Hve mikil þjónusta hefur verið keypt af verktakafyrirtækjum í hjúkrun á þessu og síðasta ári og hver er launamunur hjá þeim sem starfa við hjúkrun hjá verktakafyrirtækjum annars vegar og á LSH hins vegar miðað við sambærilega starfsreynslu og menntun?