132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[13:39]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur beint til mín nokkrum spurningum um mönnun á Landspítalanum. Það skal tekið fram í upphafi að vandinn sem um er spurt er hvorki nýr né séríslenskt fyrirbrigði. Skortur á hjúkrunarfræðingum og öðrum fagstéttum í heilbrigðisþjónustu til starfa er alvarlegt og vaxandi vandamál í mjög mörgum löndum. Hér er um alþjóðlegt vandamál að ræða. Þess vegna t.d. setti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin þessi vandamál á oddinn og ákvað að helga 7. apríl síðastliðinn mannafla í heilbrigðisþjónustu. En þar var m.a. kynnt á fundi sem haldinn var hér á landi vinna heilbrigðisráðuneytisins við gerð mannaflaspáa.

Sumar stéttir í heilbrigðisþjónustu hér á Íslandi eru mjög vel mannaðar. Ég vil nefna t.d. að læknar eru á Íslandi 13,4% fleiri á 100 þús. íbúa en hjá næstu þjóð sem kemur á eftir okkur, Svíum. Tannlæknar eru 16,4% fleiri en hjá næstu þjóð sem kemur á eftir, Dönum. Næsta þjóð sem kemur á eftir okkur með hjúkrunarfræðinga er hærri en við. Hjá næstu þjóð sem er á undan okkur eru 2,2% færri starfandi hjúkrunarfræðingar á hverja 100 þús. íbúa, í Finnlandi sem er þó fjölmennari. Þjóðirnar þar fyrir ofan eru með talsvert fleiri hjúkrunarfræðinga en við, 10,8% færri á Íslandi en í Svíþjóð, 12,3% færri hér á landi en í Danmörku en 41,1% færri hér á landi en í Noregi þar sem eru langflestir hjúkrunarfræðingar miðað við annars staðar á Norðurlöndunum. Við erum sem sagt 2,2% færri hér í hjúkrunarfræðingastöðum heldur en í Finnlandi.

Á Landspítala – háskólasjúkrahúsi starfa 5.250 manns í 3.450 stöðugildum. Þar eru hjúkrunarfræðingar í 950 dagvinnustöðugildum. Vegna þessa vanda sem við blasir hef ég að undanförnu átt fundi með stjórnendum spítalans, fulltrúum hjúkrunarráðs, forsvarsmönnum sjúkraliðafélagsins, forsvarsmönnum ófaglærðra á öldrunarstofnunum og stjórnendum þeirra stofnana.

Hv. þingmaður spyr hvort ráðherra hyggist grípa til bráðaaðgerða eða langtímaaðgerða til að sporna gegn manneklu á LSH, hvort ástæða sé til að ætla að biðlistar lengist og hvort loka þurfi deildum.

Því er til að svara að á Landspítala – háskólasjúkrahúsi eru þegar hafnar ýmsar aðgerðir sem miða að því að bæta starfsumhverfi og stuðla að meiri festu og draga úr starfsmannaveltu. Sett hefur verið stefna í starfsþróun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem hefur það að meginmarkmiði að tryggja nægan fjölda hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri til að hrinda stefnunni í framkvæmd sem hefur störf 1. maí næstkomandi. Einnig verður stofnað starfsþróunarráð til að styðja við verkefnið. Á tveimur deildum sjúkrahússins er nú unnið að tilraunaverkefni sem miðar sérstaklega að því að styðja við störf hjúkrunardeildarstjóra varðandi starfsmannastjórnun og m.a. er lögð áhersla á að bjóða þeim námskeið, framhaldsnám og aðra endurmenntun.

Ég hef nú þegar rætt við hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, um nauðsyn þess að kanna leiðir til að fjölga námsplássum. Það var einmitt gert fyrir nokkrum árum með góðum árangri en það eru fleiri sem sækja um að komast í hjúkrunarfræðinám en hleypt er inn í deildina.

Einnig er spurt: Hvað vantar marga hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ófaglærða til að hægt sé að halda uppi lágmarksþjónustu og tryggja að öllum öryggiskröfum sé fullnægt? Hvernig hyggjast stjórnvöld mæta langtímaþörf fyrir þessar stéttir?

Þjónustan sem veitt er á LSH er almennt talað góð, á mörgum sviðum framúrskarandi. Starfsmenn leggja sig fram um að tryggja öryggi sjúkra. Öryggi sjúklinga er eitt af áhersluatriðum framkvæmdastjórnar á síðastliðnu og yfirstandandi ári og þar má nefna mál eins og rafrænar sjúkraskrár, rafræn lyfjafyrirmæli og átak í skráningu hvað það varðar, og einnig velta menn því fyrir sér hvað hægt er að gera til að fyrirbyggja skort á starfsfólki.

Varðandi spurninguna um hve mikla þjónustu við hefðum keypt af verktakafyrirtækjum í hjúkrun á þessu ári og um launamuninn hjá þeim og hinum sem starfa við hjúkrun á LSH er því til að svara að á síðasta ári var keypt af fyrirtækjum sem vinna hjúkrunarfræðistörf utanaðkomandi vinna fyrir 53,5 millj. en heildarkostnaður með launatengdum gjöldum fyrir hjúkrunarfræðinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi er 5,3 milljarðar. Það er um 1% sem er verið að kaupa af þessum fyrirtækjum. Ekki eru hins vegar haldbærar upplýsingar um launakjör hjúkrunarfræðinga hjá verktakafyrirtækjunum.

Að lokum er spurt hvort ráðherra sé sammála ályktun hjúkrunarráðs LSH sem kom fram fyrir skömmu. Það er þannig að ég hef kynnt mér bæði hjá landlæknisembættinu og hjá deild gæðamála og innri endurskoðunar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hvort vitað sé um einhver ákveðin atvik eða mistök sem beint sé hægt að rekja til þessa vinnuálags hjá hjúkrunarfræðingum (Forseti hringir.) en samkvæmt upplýsingum mínum er ekki nein bein atvik hægt að rekja með óyggjandi hætti til þess.