132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[13:53]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar að minna á þann góða vitnisburð sem starfsemi og starfsmenn Landspítalans almennt fengu hjá Ríkisendurskoðun í skýrslu hennar og mati á góðum árangri af sameiningu sjúkrahúsanna.

Í öðru lagi vil ég, frú forseti, koma á framfæri í umræðunni að fjöldi sjúklinga jafnt og starfsmanna, ekki einungis sem ég hef heyrt frá heldur ýmsir aðrir, vitna um mjög góða þjónustu á Landspítalanum og góða og örugga umönnun. Þær raddir heyrast því miður allt of sjaldan í þessum sal, sem er þá ekki til að hafa góð áhrif á sjálfsmynd starfsmanna og á starfsánægju þeirra almennt. Það dregur úr því. Þjónustan er góð en því miður kallar skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum á of mikið vinnuálag og aukavaktir langt umfram það sem æskilegt er.

Mönnun sjúkrahúsanna er auðvitað grundvallaratriði fyrir gæðum þjónustunnar og hún skiptir líka meginmáli fyrir gott og aðlaðandi starfsumhverfi og þess vegna þarf að huga að því að tryggja fullnægjandi mönnun bæði í bráð og lengd.

Hæstv. heilbrigðisráðherra gerði í ræðu sinni grein fyrir vinnu sem fer fram innan ráðuneytisins og hjá landlækni og hugmyndum eða tillögum sem hún á von á frá landlækni um að bæta starfsskilyrði með því að létta álagið á þessar stéttir með breytingum á verklagi. Það sem er alvarlegast er að skorturinn er fyrirsjáanlegur og verður vaxandi á næstu árum. Fyrirsjáanlegur er meiri skortur en við búum við núna ef ekkert verður að gert.

Sókn í hjúkrunarfræði er mun meiri en báðir háskólarnir á Akureyri og Háskóli Íslands geta tekið á móti og þeir eru að útskrifa mun færri hjúkrunarfræðinga en þörf er á. Þarna eru sóknarfæri sem þarf að leysa í samstarfi hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra, að fjölga nemum í hjúkrunarfræði. Svo þarf auðvitað að aðgreina sérstaklega þann kostnað sem háskólastarfsemi sjúkrahúsanna ber með sér, klínísku kennsluna, að skilgreina hana sérstaklega í fjárveitingum (Forseti hringir.) til sjúkrahúsanna.